Jóhann Konráðsson (1917-82)

Jóhann Konráðsson

Jóhann Konráðsson

Jóhann Konráðsson á Akureyri var einn fremsti söngvari þjóðarinnar um árabil, hans frægðarsól barst víða þrátt fyrir að hann syngi mestmegnis á heimaslóðum, af honum er margt söngfólk komið.

Jóhann (Ingólfur) Konráðsson tenórsöngvari, yfirleitt kallaður Jói Konn fæddist á Akureyri 1917. Snemma var ljóst að hugur hans hneigðist til sönglistarinnar og segir sagan að hann hafi verið byrjaður að syngja áður en hann fór að tala.

Þegar á fullorðinsár var komið stundaði Jóhann framan af sjómennsku og síðar aðra tilfallandi verkamannavinnu í landi einnig, s.s. við að mála og við aðrar iðngreinar áður en hann hóf störf við umönnun fólks með geðsjúkdóma við nýstofnaða geðdeild Fjórðungsjúkrahússins á Akureyri árið 1946, þar á bæ varð hann frægur fyrir að róa sjúklingana með söng sínum. Við geðdeildina átti hann eftir að starfa allan sinn starfsaldur eftir það og lauk sjúkraliðanámi samhliða starfi sínu, fyrstur karlmanna á Íslandi.

Jóhann bjó lengstum á Akureyri og hóf þar söngferil sinn, fyrsta opinbera sönguppákoman mun hafa verið með tvöföldum kvartett á árshátíð á síðari hluta fjórða áratugarins en síðan gekk hann til liðs við Karlakór Akureyrar, Karlakórinn Geysi og Kantötukór Akureyrar á meðan hans naut við. Fljótlega var Jóhann farinn að syngja einsöng með kórunum.

Það var þó í raun þegar hann gekk til liðs við Smárakvartettinn á Akureyri að hann fór að njóta almennrar hylli fyrir sönghæfileika sína, hann fór ennfremur að syngja dúetta t.d. með Kristni Þorsteinssyni og Sverri Pálssyni en plötur komu út með þeim Jóhanni og Kristni, lítil plata 1969 og breiðskífa 1981. Á þeim plötum er fyrst og fremst að finna upptökur úr fórum Ríkisútvarpsin. Jóhann var þó fyrst og fremst einsöngvari og söng á ótal tónleikum og öðrum söngtengdum skemmtunum eins og óperettum, kabarettum og söngleikjum sem sett voru á svið norðanlands, þá er ótalinn söngþáttur hans við jarðarfarir.

Jóhann lærði aldrei söng svo neinu næmi, hann var náttúrutalent en naut leiðsagna m.a. Sigurðar Birkis og Stefáns Íslandi, sem slípuðu vankanta af tenórrödd hans. Hann fór þó í eina „námsferð“ til Kaupmannahafnar og var styrktur til þeirrar farar m.a. af íslenska ríkinu og Akureyrarbæ. Aldrei kom til greina að yfirgefa heimaslóðirnar, hvorki til að freista gæfunnar á höfuðborgarsvæðinu né erlendis.

Mikið var af söngfólki í fjölskyldu Jóhanns, systkini hans voru flest hver söngelsk og afkomendur þeirra sem dreifast víða um Norðurland syngja í kórum hér og þar um landsfjórðunginn. Börn Jóhanns eru einnig söngfólk mikið, skemmst er að minnast Kristjáns óperusöngvara sem lagði sönglistina fyrir sig sem ævistarf en Jóhann Má þekkja einnig margir, plötur hafa komið út með söng hans, Svavar Hákon er enn einn bróðirinn sem lagt hefur fyrir sig söng. Dætur Jóhanns, Heiða Hrönn og Anna María komu oft fram sem söngdúettinn Heiða og Maja þegar þær voru ungar, og sú síðarnefnda söng með danshljómsveitum á borð við hljómsveitum Ingimars Eydal, Svavars Gests o.fl.

Jóhann Konráðsson og Fanney Oddgeirsdóttir

Jóhann og Fanney Oddgeirsdóttir eiginkona hans

Árið 1980 kom út merkileg plata sem bar heitið Hin ljúfa sönglist. Á þeirri plötu sem með réttu mætti kalla fjölskylduplötu syngja Jóhann og Fanney Oddgeirsdóttir eiginkona hans, og börn þeirra Jóhann Már, Kristján, Svavar Hákon og Anna María íslensk einsöngs- og tvísöngslög. Tónlistin á þeirri plötu var tekin upp það sama ár utan þess að einsöngslög Jóhanns höfðu verið hljóðrituð 1964. Það sama ár hafði komið út fimm laga plata með söng hans, það voru þó önnur lög en voru á þessari plötu.

Söng Jóhanns er að finna á fleiri plötum frá ýmsum tímum, hann söng til að mynda inn á fjölmargar plötur með Smárakvartettnum á sjötta og sjöunda áratugnum, hann söng einsöng með karlakórnum Geysi á kórasafnplötunni Söngfélagið Hekla: Raddir að norðan (1965), þá söng hann nokkur lög á plötunni Unga kirkjan (1968) ásamt fleiri akureyskum tónlistarmönnum, ennfremur á safnplötunni Íslenskar söngperlur (1991) og plötunni Út um græna grundu (1994) sem hafði að geyma lög eftir Skúla Halldórsson tónskáld.

Jóhann hafði glímt við kransæðavandamál í nokkur ár þegar hann lést síðla árs 1982 úti í Skotlandi, þá aðeins sextíu og fimm ára gamall. Þá hafði Gísli Sigurgeirsson fjölmiðlamaður þegar hafið ritun ævisögu hans en hún kom síðan út ári síðar undir titlinum Jói Konn og söngvinir hans.

2002 kom út ferilsafnplatan Ljúflingslög: Jói Konn og söngvinir hans en það ár voru áttatíu og fimm ár síðan Jóhann fæddist. Sú útgáfa hefur að geyma upptökur frá ýmsum tímum á ferli hans en einnig fylgdi með veglegur bæklingur um ævi, störf og samferðamenn Jóhanns, byggður á bókinni sem Gísli hafði áður ritað og gefið út.

Efni á plötum