Afmælisbörn 1. mars 2016

Hreindís Ylva

Hreindís Ylva Garðarsdóttir

Í dag eru þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Árni Johnsen Vestmanneyingur og fyrrverandi alþingismaður er sjötíu og tveggja ára gamall í dag. Hann var framarlega í þjóðlagasöngvaravakningunni um og upp úr 1970, m.a. í félagsskapnum Vikivaka og kom oft fram á samkomum því tengt. Hann var einnig hluti af Eyjaliðinu sem gaf út plötu til styrktar Vestmannaeyingum eftir gos, og hefur gefið út um tug sólóplatna, þá fyrstu 1971.

Kristinn Sigmundsson stórsöngvari er sextíu og fimm ára en hann nam söngfræðin við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Guðmundar Jónssonar áður en hann hélt til Austurríkis og Bandaríkjanna til framhaldsnáms. Kristinn hefur gefið út fjöldann allan af plötum og sungið á plötum óteljandi annarra listamanna.

Hreindís Ylva Garðarsdóttir söngkona er tuttugu og sjö ára gömul en hún er þekktust fyrir að gefa út plötu með lögum sem Erla Þorsteins gerði vinsæl á árum áður en einnig hefur hún sungið í undankeppnum Eurovision hér heima. Hreindís Ylva vakti fyrst athygli þegar hún söng lag á plötu tengt danslagakeppni Sæluvikunnar á Sauðárkróki, þá tíu ára gömul.