Fákar
(Lag / texti: Ómar Diðriksson og Goodman / Einar Benediktsson)
Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð svo vítt sem er séð.
Sléttan hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, það skyggir ei tréð.
Menn og hestar á hásumardegi,
í hóp á þráðbeinum skínandi vegi,
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.
Brúnirnar þyngjast. Þeir harðna á hvarm.
Það hrökkva af augunum neistaél.
Riðullinn þyrpist með arm við arm.
Það urgar í jöxlum við bitul og mél.
Þeir stytta sporin, þeir stappa hófum
og strjúka tauma úr lófum og glófum.
Höfuðin lyftast, hin lifandi vél.
Logar af fjöri‘ undir söðulsins þófum.
Nú hrífur eðlið hvern hlaupagamm.
Hófblökin dynja fastar á vang.
Sveitin hún hljóðnar og hallast fram.
Hringmakkar reisa sig upp í fang.
Það hvín gegnum nasir og hreggsnarpar
granir nú herðir og treystir á náranna þanir.
Það þarf ekki‘ að reyna á gæðingsins gang,
þeir grípa til stökksins með fjúkandi manir.
[af plötunni Karlakór Rangæinga, Ómar Diðriksson og Sveitasynir – Öðruvísi en áður]