
Hinir upphaflegu Stuðmenn
Hljómsveitin Stuðmenn ber sæmdartitilinn „hljómsveit allra landsmanna“ með réttu, kynslóðirnar eiga sér uppáhalds tímabil í sögu sveitarinnar og í henni hafa skipst á skin og skúrir eins og hjá öðru tónlistarfólki, ekki síst vegna þess langs tíma sem hún hefur verið starfandi. Stuðmenn hafa tekið mislangar pásur og birst aftur nýjum kynslóðum sem tekið hafa sveitinni opnum örmum og þrátt fyrir að síðustu árin og áratugina hafi nokkuð fjarað undan sveitinni hefur hún lifað á stórsmellum sem eiga sér margra áratuga sögu margir hverjir. En þrátt fyrir alla gleðina og skemmtunina sem sveitin hefur veitt landsmönnum hefur samstarfið innan hennar ekki alltaf verið sem best og segja má að eins konar valdabarátta hafi ríkt þar, þannig hafa meðlimir yfirgefið sveitina í fússi oftar en einu sinni en það hefur þó ekki rist dýpra en svo að viðkomandi hafa starfað aftur síðar með sveitinni. Tónlist sveitarinnar sem í upphafi var skilgreint sem galgopakennt jaðarpopp, smaug strax inn í þjóðarsálina og áttu grípandi melódíur með vísanir í allar áttir tónlistarlega séð greiðan aðgang að ungum sem öldnum, og ekki síst textarnir þar sem svokallaður „Stuðmanna-húmor“ réði ríkjum. Í kjölfarið kom tímabil sveitaballa, tónleika, kvikmynda, meikdrauma og alls kyns uppákoma og uppátækja og þegar þetta er ritað hafa á fjórða tug platna komið út með sveitinni þegar allt er talið – smá-, breið-, kvikmynda-, tónleika- og safnskífur.
Saga Stuðmanna spannar yfir hálfa öld og segja má að hún skiptist í nokkur tímabil, reyndar lá sveitin í dvala um tíma á fyrri hluta æviskeiðs hennar enda var henni þá jafnvel ekkert ætlað að starfa aftur, Stuðmenn eru hins vegar ódrepandi afl og því mun sveitin líkast til halda áfram störfum meðan Jakobs Frímanns Magnússonar, sem titla mætti hljómsveitarstjóra nýtur við en hann er eini meðlima sveitarinnar sem hefur starfað með henni alla tíð.
Uppruna sveitarinnar má rekja til Menntaskólans við Hamrahlíð haustið 1969 en sá skóli hafði verið settur á laggirnar þremur árum fyrr. Þarna um haustið hafði Eiríkur Tómasson (síðar lagaprófessor) formaður nemendafélags skólans viðrað þá hugmynd við Jakob, Valgeir Guðjónsson og fleiri að koma með atriði á árshátíð skólans sem þá stóð fyrir dyrum á Hótel Sögu fljótlega eftir áramótin, í kjölfarið fæddist hugmyndin um að stofna hljómsveit sem yrði á skjön við allt sem þá var í tísku en sítt hár, sýrurokk og hippatískan réðu þá ríkjum í samfélagi menntskælinga sem víðast annars staðar. Byrjað var á því að finna nógu hallærislegt nafn á sveitina og Stuðmenn þótti nógu slæmt, en auk þeirra Jakobs (sem lék á gítar) og Valgeirs (sem var trommu- og gítarleikari) voru í henni Gylfi Kristinsson söngvari, gítar- og bassaleikari og Ragnar Danielsen gítar- og trommuleikari. Þeir félagar komu fram á árshátíðinni klæddir fermingarfötunum sem stóðu þeim á beini en þeir höfðu aukinheldur smurt brilljantíni í anda rokkáranna í hár sitt og voru því fullkomlega á skjön við mussu- og loðfeldaklædda jafnaldra sína á skemmtuninni þar sem þeir byrjuðu á því að dreifa ljósmyndum af sveitinni áður en þeir hófu spilamennskuna, þar sem þeir fluttu rokk frá sjötta áratugnum í bland við frumsamda tónlist (Draumur okkar beggja) – fullkomlega púkalegir en það lýsingarorð hefur oft verð notað um sveitina og ekki síst þeir sjálfir. Stuðmenn slógu í gegn á árshátíðinni og þar með átti sögu sveitarinnar að verða lokið en henni var aldrei ætlað að starfa nema þetta eina kvöld.
En sögu sveitarinnar lauk ekki þetta kvöld eins og allir vita en næsta skólaár, haustið 1970 var hún endurreist þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, Jakob var þá orðinn formaður skemmtiráðs þar sem Valgeir sat einnig og á einhverju djammi uppi í Borgarfirði léku þeir saman ásamt fleirum félagarnir Jakob á bassa og Valgeir á trommur en einnig var þar Þórður Árnason efnilegur sólógítarleikari sem djammaði þarna með þeim. Í kjölfarið var ákveðið að Stuðmenn kæmu aftur fram á hátíð sem skemmtiráðið (Jakob) ákvað að halda í hlöðu í Saltvík á Kjalarnesi og þar skyldi Þórður koma fram með sveitinni en fjórði liðsmaðurinn var Gylfi sem þá lék á bassa – Ragnar var ekki með í þetta skipti.

Stuðmenn 1971
Stemmingin var mikil meðal Stuðmannanna og þeir félagar fóru í myndatöku líkt og þeir höfðu gert árið á undan en að þessu sinni voru þeir m.a. myndaðir naktir í sturtuklefum Sundhallar Reykjavíkur. Sama dag og hátíðin átti að fara fram tilkynnti Þórður hins vegar að hann kæmist ekki þar sem hann væri að spila með hljómsveitinni Pops sama kvöld í Borgarnesi. Félagarnir þrír, Jakob, Valgeir og Gylfi blótuðu sólógítarleikaranum í sand og ösku enda höfðu þeir æft um tuttugu laga prógramm (m.a. með frumsömdu lagi sem þeir kölluðu Come on pretty baby to the go go party) en úr varð að Hilmir Ágústsson hljóp í skarðið þetta kvöld en lék reyndar á trommur með sveitinni í Saltvík, Valgeir færði sig yfir á rythmagítar og Jakob varð að leika sólógítarkaflana, sem hann réði auðvitað engan veginn við og allt fór því í handaskolum þetta kvöld. Íklæddir fermingarfötunum með brilljantín í hárinu sóru þeir þess eið að spila aldrei aftur undir nafninu Stuðmenn. Þar með lauk sögu Stuðmanna – aftur.
Tíminn leið og menn fóru hverjir í sína áttina eftir nám og enn víðar í tónlistinni, Gylfi og Þórður stofnuðu hljómsveitina Rifsberju ásamt Ásgeiri Óskarssyni trommuleikara og Tómasi Magnúsi Tómassyni bassaleikara og síðar gekk Jakob til liðs við þá sveit einnig, sem orgelleikari. Sveitin sem lék þungt proggrokk líkt og var þá í tísku starfaði um nokkurt skeið en svo fór að flestir þeirra fóru til Englands að freista gæfunnar eftir að sveitin lenti í hálfgerðu stríði við STEF, og þar áttu þeir Jakob, Tómas og Þórður eftir að starfa næstu árin. Hér heima varð hins vegar til hljómsveit með þjóðlagaívafi nokkru síðar sem þróaðist upp úr öðrum svipuðum sveitum og hlaut nafnið Spilverk þjóðanna en í henni voru Valgeir, Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla.
Stuðmenn sem gert höfðu garðinn frægan meðal nemenda við MH voru auðvitað löngu gleymdir og grafnir þegar Jakob, sem þá starfaði í London og hafði leikið þar með nokkrum breskum sveitum, fékk Valgeir félaga sinn til að koma til Englands í janúar 1974 og hljóðrita fjögur lög undir Stuðmannanafninu samhliða öðrum verkefnum sem hann var að vinna fyrir Ámunda Ámundason en Ámundi var tilbúinn að gefa þau lög út á tveimur sjö tommu skífum undir merkjum ÁÁ-records. Valgeir sló til og félagarnir tóku upp fjögur lög í Majestic sound studios, sér til fulltingis höfðu þeir breska tónlistarmenn og þeirra á meðal var Long John Baldry sem söng bakraddir í upptökunum en Jakob starfaði um það leyti í hljómsveit hans í London.

Stuðmenn auglýstir í fyrsta sinn
Fyrri platan (Honey, will you marry me / Whoops scoobie doobie) kom svo út um vorið 1974 og fyrrnefnda lagið (sem hafði einmitt verið flutt á árshátíð MH 1970) naut strax mikilla vinsælda og var töluvert spilað í útvarpsþættinum Tíu á toppnum og óskalagaþáttum útvarpsins en á þeim tíma var aðeins ein útvarpsstöð starfandi hérlendis. Í allri kynningu á plötunni (sem Valgeir sá um enda bjó Jakob í London) var nöfnum þeirra félaga haldið leyndum en þeir voru kynntir undir nöfnum eins og Lars Himmelberg, Leó Löve, Elvis Eyþórsson og Jóhann Hrólfsson líkt og um fullmannaða sveit væri að ræða þó þeir væru í raun aðeins tveir. Síðar þetta sama ár tóku Lónlí blús bojs upp svipaða taktík þegar sú sveit var stofnuð upp úr Hljómum. Tónlist Stuðmanna á plötunni var í anda þess sem MH-útgáfa sveitarinnar hafði boðið upp á fjórum árum fyrr, létt gamaldags popp sem var gjörsamlega á skjön við þunga proggið sem þá naut ennþá nokkurra vinsælda – og það var e.t.v. einmitt ástæðan fyrir því hversu auðveldlega tónlistin höfðaði til landans sem auðsýnilega þráði léttmeti, Lónlí blú bojs (aka Hljómar) áttuðu sig einnig á því. Síðara lag plötunnar, Whoops scoobie doobie náði hins vegar engum hæðum og Stuðmenn hafa lýst því yfir að það sé versta lag sveitarinnar, skífan hlaut engu að síður ágæta dóma í Alþýðublaðinu og Morgunblaðinu.
Síðari platan (Draumur okkar beggja / Gjugg í borg) kom ekki út fyrr en í upphafi árs 1975 og gekk einnig ágætlega þannig að Jakob náði samningum við Ámunda um að gefa út breiðskífu með sveitinni sem yrði hljóðrituð í London. Í kjölfarið hélt Jakob á fund Valgeirs sem stakk upp á að þeir fengju Spilverksfélagana Egil og Sigurð að vera til aðstoðar í plötugerðinni því taka átti upp fjögur lög fyrir Spilverkið í leiðinni á safnplötuna Hrif 2 sem Jakob átti að stjórna upptökum á fyrir Ámunda.
Það varð því úr að Jakob, Valgeir, Egill og Sigurður flugu til Lundúna í febrúar 1975 og voru þar við upptökur í þrjár vikur en efnið á plötuna var að nokkru leyti samið á staðnum, Jakob og Valgeir voru þar auðvitað afkastamestir enda voru þeir í raun Stuðmennirnir en Egill og Sigurður Bjóla lögðu einnig í púkkið tvö lög hvor en alls urðu lögin þrettán. Fljótlega hafði verið lagt upp með konsepti í formi ferðalags sem menn ýmist túlkuðu síðar sem venjulegt djammkvöld eða sem sýruferðalag enda hlaut platan snemma titilinn Sumar á Sýrlandi í vinnuferlinu, titill sem upphaflega hafði komið frá Þórði Árnasyni nokkrum árum fyrr er hann horfði á nokkra illa áttaða hippa í miðbænum, þá varð honum að orði „sumar á sýru“ sem Egill umorðaði síðar í titil plötunnar.
Á þessum tíma voru fjölmargir íslenskir tónlistarmenn staddir í höfuðborg Englands og sumir þeirra tóku þátt í plötugerðinni, þar á meðal voru Change-liðarnir Tómas Tómasson bassaleikari, Sigurður Karlsson trommuleikari, Birgir Hrafnsson gítarleikari og Björgvin Halldórsson söngvari sem söng einmitt lagið Tætum og tryllum, fjölmargir enskir tónlistarmenn tóku einnig þátt í ferlinu og meðal þeirra var áðurnefndur Long John Baldry sem söng She broke my heart, eina lagið sem sungið var á ensku en einnig var þar eitt tökulag, Top box lagið The Letter sem Jakob snaraði yfir á dönsku undir titlinum Giv mig et billede. Þá er ónefnd revíusöngkonan Steinunn Bjarnadóttir sem þá hafði búið í London um nokkurra ára skeið eftir að hafa flúið Ísland eftir voðaatburð vestur á fjörðum, Steinunn eða Steinka eins og hún var jafnan kölluð var fengin til að syngja lagið Strax í dag. Þannig varð vinnsla plötunnar samstarfsverkefni þeirra fjölmörgu sem komu að henni en þó undir stjórn Jakobs sem vissulega hafði fengið hugmyndina, samið um útgáfuna við Ámunda, bókað hljóðverið og annast upptökustjórn.

Stuðmenn
Þegar upptökum lauk kom babb í bátinn, í ljós kom að fjárhagsstaða Ámunda var ekki sem best og hann hafði ekki fjármagn til að leysa út upptökurnar og gefa út plötuna, það varð því úr að Jakob samdi við Steinar Berg um að gefa hana út en það varð upphafið að farsælum útgáfuferli Steinars. Sumar á Sýrlandi kom því út um vorið 1975 og skemmst er frá því að segja að hún sló strax í gegn meðal landsmanna og flest lög hennar urðu feikivinsæl, hér má nefna áðurnefnd Strax í dag, She broke my heart, Tætum og tryllum og Giv mig et billede en einnig Fljúgðu, Út á stoppistöð, Söngur dýranna í Týról, Á Spáni og Í bláum skugga sem öll urðu aufúsugestir óskalagaþátta útvarpsins og voru spiluð í partíum og víða allt það sumar – og hafa reyndar fyrir löngu orðið að sígildum dægurlagaperlum. Engar upplýsingar var að finna um hljómsveitina á umslagi plötunnar nema að Jakob var þar titlaður upptökustjóri, enda voru Stuðmenn „leynihljómsveit“ sem fyrr segir.
Skýringuna á þessum miklu vinsældum má sjálfsagt rekja beint til þorsta ungdómsins eftir auðmeltu poppi á íslensku eftir nokkurra ára tónlistartímabil þar sem tormelt progg á ensku réði ríkjum enda spratt áðurnefnd Lónlí blúbojs fram á sjónarsviðið með svipaða formúlu með létta íslenska texta, Stuðmenn fluttu þó ólíkt þeirri sveit frumsamið efni – hallærislegt jaðarpopp eins og einhver talaði um, og með texta sem endurspegluðu samfélagið á skemmtilegan hátt. Sumar á Sýrlandi seldist því strax gríðarlega vel og hlaut jafnframt frábæra dóma í Alþýðublaðinu, Tímanum, Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og Vísi en reyndar miður góða í tímaritinu Stéttabaráttunni en gagnrýnandi blaðsins sagði Stuðmenn „boðbera niðurlægingar íslenskrar æsku, talsmenn eiturlyfja og vesaldóms“.
Hlutirnir gerðust nú afar hratt, Ámundi sem var umboðsmaður Stuðmanna (þó hann næði ekki að gefa plötuna út) sá strax að sveitin myndi gera það gott á sveitaböllum um sumarið í kjölfar velgengni plötunnar og bókaði hana á dansleik á föstudagskvöldi um hvítasunnuhelgina í Stapa í Grindavík en þá um helgina var haldin útihátíð sem hafði hlotið nafnið Svartsengishátíðin. Stuðmönnum var í raun engum greiði gerður með þessu uppátæki Ámunda, t.d. var engin hljómsveit til sem hét Stuðmenn heldur aðeins þeir Jakob og Valgeir sem auk þess voru búsettir í sitt hvoru landinu. Það fór þó svo að Jakob kallaði til mannskap í verkefnið í London og hér heima biðu svo Valgeir, Egill og Sigurður auk Þórðar sem hlaut það hlutverk að leika á bassa. Jakob hafði aukinheldur með í för hljómsveit Long John Baldry þar sem Stuðmenn höfðu ekki ballprógram fyrir heilt ball og lagði hópurinn í hann frá London að morgni föstudagsins en sú ferð átti eftir að verða hin svaðalegasta. Á leið sveitarinnar á flugvöllinn lenti leigubíll þeirra félaga í árekstri með þeim afleiðingum að Freddie Smith sem átti að tromma með sveitinni, slasaðist og komst ekki með, Preston Ross Heyman hljóp í skarðið en hópurinn missti af flugvélinni fyrir vikið. Þá varð úr að Ámundi leigði litla flugvél undir hópinn sem loks komst í loftið en hreppti snarvitlaust veður yfir Atlantshafið á leið til Íslands, nær frávita af hræðslu yfir veðurhamnum þar sem vélin kastaðist til og frá sturtaði sveitin í sig koníaki og þegar hún náði loks landi í Keflavík (orðin tæp af eldsneyti líka) var hljómsveitin orðin ofurölvi og vissi varla í þennan heim né annan. Tollvörðum þeim sem tóku á móti vélinni í Keflavík leist ekki betur en svo á mannskapinn að þeir kyrrsettu allar græjur hljómsveitarinnar og farið var í að redda lánsgræjum svo sveitin gæti leikið í Stapa þar sem um 1300 gestir voru farnir að ókyrrast í bið eftir að heyra stórsmellina sem voru búnir að tröllríða öllu vikurnar á undan.

Stuðmenn 1975 á stofutónleikum
Eins og hægt er að ímynda sér varð þetta fyrsta Stuðmannaball ekki mikil frægðarför, útúrdrukknir og úttaugaðir tónlistarmenn með lánshljóðfæri sem aldrei hafði æft saman spiluðu sig í gegnum gisið prógrammið og voru aukinheldur með grímur fyrir andlitunum sem höfðu verið gerðar eftir teikningum Malcolm Livingstone á umslagi plötunnar þannig að listamennirnir sáu ekki einu út um þær – og kannski breytti það engu. Á þessu fyrsta „alvöru“ Stuðmannaballi var sveitin líklega (eftir því sem hægt er lesa úr heimildum) skipuð þeim Jakobi, Valgeiri, Agli, Sigurði Bjólu og Þórði auk Alan Murphy á gítar og Árna Vilhjálmssyni á trommur (en ekki Preston Ross Heyman sem fyrr er getið).
Kvöldið eftir léku sveitirnar tvær í Hellubíói ásamt Mánum og helgina eftir í Selfossbíói, og gekk spilamennskan á þeim dansleikjum af augljósum ástæðum mun betur. Þess má og geta að sveitin lék á einum einkatónleikum um sumarið því að einu eintaki plötunnar hafði fylgt aðgangsmiði að stofutónleikum heima hjá þeim heppna kaupanda, og mættu Stuðmenn, grímuklæddir að sjálfsögðu á staðinn og héldu nokkrum miðaldra húsmæðrum tónleika.
Í ágúst þetta sama sumar kom sveitin aftur saman og lék þá á nokkrum dansleikjum víða um norðan- og austanvert landið ásamt The White Bachman trio (Hvítárbakkatríóinu) sem Jakob starfrækti úti í Bretlandi en þá var Steinunn Bjarnadóttir einnig með í för og söng m.a. slagarann Strax í dag við miklar vinsældir, sá balltúr var skipulagður af umboðsskrifstofu sem stóð sig reyndar hvergi nógu vel í skipulagningunni, auglýsti skemmtikrafta eins og Baldur Brjánsson og diskótek sem áttu að skemmta í pásu en voru svo ekki á staðnum. Það olli töluverða óánægju meðal ballgesta t.a.m. á Hofsósi og í Skjólbrekku í Mývatnssveit og lesendabréf þess efnis birtust í dagblöðunum. Þær uppákomur urðu síðar uppspretta senu í kvikmyndinni Með allt á hreinu þar sem ballgestir spurðu um Dýrleifi með töfrabrögðin, svipuð uppákoma hafði reyndar átt sér stað nokkrum árum áður í Bolungarvík hjá hljómsveitinni Rifsberju. Í ofanálag hirti umboðsskrifstofan megnið af innkomunni svo sveitirnar fengu sáralítið í sinn hlut, það eitt og sér leiddi til pirrings innan Stuðmanna og ekki bætti úr skák að Jakob hvarf á braut til Bandaríkjanna strax eftir túrinn svo aðrir meðlimir urðu fullir tortryggni í garð hans vegna peningamála – bæði vegna balltúrsins og plötusölunnar en þeir félagar fengu þau svör hjá útgefandanum að Jakob væri búinn að fá allar greiðslur. Spilverkshluti sveitarinnar (Valgeir, Egill og Bjólan) var enn fremur ósáttur við það alvald sem Jakob hafði tekið sér en hann hafði t.d. bætt við eigin lagi á plötuna án þeirrar vitundar – Andafundinn mikla, sem þeir höfðu verið sammála um færi ekki á hana. Og í raun litu blokkirnar tvær ólíkum augum á samstarfið, Valgeir, Egill og Bjólan sáu sveitina sem samstarfsverkefni þar sem allir hefðu jafnan rétt en Jakob leit á hana sem sína sveit þar sem hann væri við stýrið enda hefði hann séð um upptökustjórn, bókað hljóðver og session menn og fjármagnað verkefnið. Þarna myndaðist sprunga í samstarfinu sem hefur síðan verið til staðar, en ýmist gliðnað eða þrengst eftir aðstæðum hverju sinni.

Grímuklæddir Stuðmenn
Það var því ekkert undarlegt að Valgeir segði aðspurður í blaðaviðtali að hann gerði ekki ráð fyrir að Stuðmenn störfuðu áfram en Jakob var hins vegar á öndverðu máli þegar náðist í hann. Þá urðu Stuðmenn allir fremur ósáttir við að blaðamaður Morgunblaðsins opinberaði við lok ágúst-túrsins hverjir skipuðu sveitina en þeir félagar höfðu leikið bak við grímur sínar sem leynihljómsveit fram að því, þótt ýmsa væri auðvitað farið að gruna hverjir væru á bak við sveitina (enda var Spilverkið orðið töluvert þekkt um þetta leytið) – margir höfðu þó ekki hugmynd um það og héldu jafnvel að þar væru Lónlí blúsbojs/Hljómar á ferð. Um haustið týndust grímurnar og hafa líklega ekki sést síðan.
Spilverk þjóðanna fór af stað á nýjan leik eftir Stuðmannaævintýrið um sumarið og gaf út sína fyrstu plötu sem gengur iðulega undir nafninu „brúna platan“ og eitt af lögunum (Lemon song) sem tekin höfðu verið upp í London og áttu að fara á Hrif 2 safnplötuna endaði á henni en þar léku Stuðmenn í raun og þykir lagið einkar Stuðmannalegt. Í kjölfarið komu út tvær plötur með Spilverkinu árið 1976 (CD nærlífi og Götuskór), sem strangt til tekið fóru í beina samkeppni við Stuðmenn því þegar mestallur misskilningur hafði verið leiðréttur í innbyrðis deilum Stuðmanna og málin settluð milli Jakobs og annarra meðlima var ákveðið að ráðast í gerð nýrrar plötu enda hafði Sýrlandsplatan selst í hátt í 8000 eintökum um áramótin 1975-76 sem þótti æði gott, Steinar Berg var tilbúinn að gefa plötuna út og því var ekkert að vanbúnaði að hefja vinnuna en ákveðið var að upptökur færu fram um sumarið í London.
Fullar sættir tókust því að sinni og samið var um að Egill og Bjólan yrðu fullgildir meðlimir Stuðmanna auk Valgeirs og Jakobs, sá síðast taldi hélt sig líklega örlítið til hlés við gerð plötunnar og fyrir vikið var hún töluvert Spilverks-legri en Sýrlandsplatan. Þeir félagar (ásamt Þórði Árnasyni) fóru akandi austur á Seyðisfjörð og sigldu svo með Norrænu þaðan til Bretlandseyja, ferðalagið tók nokkra daga og urðu nokkur laganna til á leiðinni, þá hafði komið fram hugmynd frá Sigurði Bjólu um að helga plötuna Tívolíinu í Vatnsmýrinni sem varð þar með þema hennar en lög og textar voru fleytifull af skírskotunum til þeirra tíma sem það starfaði á árunum 1946-63. Nokkuð færri session leikarar komu að gerð þessarar plötu en hinnar fyrri en þangað mætti sem fyrr Tómas bassaleikari og svo Gunnar Þórðarson og Þorkell Jóelsson en þrír breskir trommuleikarar mættu í hljóðverið til að leika á upptökunum. Annars settu erfiðar aðstæður svip sinn á gerð plötunnar, hitabylgja gekk yfir London og þeir félagar voru auk þess staurblankir þar sem Steinar útgefandi hafði lent í tímabundnum lausafjárerfiðleikum, þannig nánast sultu þeir félagar í öllum hitanum.
Tívolí kom út um haustið 1976 og fékk hvarvetna frábærar viðtökur eins og Sumar á Sýrlandi, lög eins og Hveitibjörn, Hr. Reykjavík, Söngur fjallkonunnar, Ólína og ég, Frímann flugkappi, Svarti Pétur og titillagið Tívolí (sem var upphaflega Spilverks-lag, samið af Sigurði Bjólu) urðu vinsæl og þar með höfðu hátt í tuttugu lög af plötunum tveimur orðið að sígildum poppsmellum hjá sveitinni – á rétt rúmu ári.

Stuðmenn á leið til Lundúna 1976
Tívolí hlaut jafnframt glimrandi dóma hjá poppskríbentum dagblaðanna, s.s. í Tímanum, Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Dagblaðinu og Vísi, og ágæta einnig síðar í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar reyndar eins og Sumar á Sýrlandi áður. Platan seldist einnig vel og var komin í gullsölu (5000 eintök) í byrjun desember. Reyndar skoraði sveitin og platan hátt í ársuppgjöri blaðamanna Dagblaðsins en sveitin var þar kjörin sviðshljómsveit ársins, og Tívolí plata ársins hjá Tímanum.
Þegar komið varð að því að kynna plötuna síðsumars var Þórður gítarleikari orðinn fastur liðsmaður í sveitinni sem og Tómas bassaleikari og þar með var kominn að mestu leyti sá kjarni sem skipaði sveitina hvað lengst, reyndar var enginn fastur trymbill í sveitinni og Sigurður Karlsson lék með henni á tónleikum á Lækjartorgi þar sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari og flugmaður dreifði karamellum úr lofti yfir mannfjöldann að hætti tívolí-áranna, reyndar með þeim afleiðingum að megnið af karamellunum lentu í þakrennum Héraðsdóms Reykjavíkur. Ragnar Sigurjónsson tók svo við trommuleiknum um haustið en Sigurður hafði leikið úlnliðsbrotinn með sveitinni, og lék Ragnar með sveitinni fram yfir áramótin 1976-77 þar sem þeir félagar fóru víða um samkomuhús landsins með ballprógramm sitt ásamt dönsurunum Sæma rokk og Diddu og fleirum. Reyndar er til skemmtileg saga af samstarfi Stuðmanna við Sæma rokk en hann starfaði sem lögregluþjónn að aðalstarfi. Eitt sinn er sveitin var að leika á grímudansleik í Sigtúni við Austurvöll hafði Tómas látið Sæma hafa boðsmiða en Sæmi var þá á lögregluvakt og komst ekki, þegar sveitin var svo að spila fyrir dansi á ballinu birtist allt í einu Zorro klæddur maður uppi á sviði og hóf að dansa á fullu með tónlistinni. Stuðmenn kipptu sér ekkert upp við það enda var maðurinn alveg til friðs og auk þess frábær dansari. Fljótlega eftir það fór sveitin í pásu og niðri í búningklefanum var Sæmundur þar að klæða sig úr Zorro gallanum og í lögreglubúninginn – þá hafði greinilega verið fremur rólegt á vaktinni.
Stuðmenn komu fram í sjónvarpsþætti um haustið 1976 og myndbönd voru gerð við lögin Hr. Reykjavík og Svarti Pétur en síðar var tekið yfir þau myndbönd í Ríkissjónvarpinu eins og títt var hjá þeirri stofnun fyrrum. Það var Tómas sem söng lagið um Hr. Reykjavík og hefur í seinni tíð verið talað um það sem fyrsta gay-lagið og fyrsta gay-myndbandið, og því mikill missir af því.

Stuðmenn 1976
Bjólan fór ekki með Stuðmönnum í balltúrinn en þeim Jakobi sinnaðist og í kjölfarið varð aftur innansveitarpirringur í bandinu, Valgeir og Egill stóðu með sínum Spilverksmanni og sá fyrrnefndi kláraði ekki túrinn með sveitinni af þeim sökum og sagðist svo í blaðaviðtali á nýju ári líta svo á að sveitin væri hætt – enn einu sinni, reyndar munu þeir félagar og fóstbræður Valgeir og Jakob hafa deilt um réttinn á nafninu í kjölfarið þegar Jakob starfrækti sveitina eitthvað áfram með þeim Tómasi, Þórði og Ragnari áður en þeir svo hættu. Sá hluti sveitarinnar lék svo á plötu Steinku Bjarna (Stínu stuð) sem kom út sumarið 1977 og bar titilinn Á útopnu en tæplega væri hægt að telja það verkefni til Stuðmanna.
Það væri fróðlegt að vita hvert Stuðmenn hefðu þróast hefði sveitin á þessum tíma haldið áfram störfum því meðlimir hennar voru þarna í raun á hátindi sköpunar sinnar og fóru á næstu árum með himinskautum hvað það varðar. Ekki hafði fram að þessu verið nein lognmolla í kringum Spilverk þjóðanna en sveitin átti þó enn eftir að bæta við sig á næstu tveimur árum plötunum Sturlu, Á grænum náttkjólum (ásamt Megasi), Íslandi (grænu plötunni svokölluðu) og Bráðabirgðabúgí, Egill stofnaði svo ásamt Tómasi, Þórði og Ásgeiri Óskarssyni trommuleikara Þursaflokkinn sem gaf út fimm plötur, Egill og Valgeir voru meðal Hrekkjusvínanna sem gaf út plötuna Lög unga fólksins og Jakob fór til Los Angeles þar sem hann átti eftir að starfa næstu árin og senda frá sér fönkaðar sólóplötur.
Tíminn leið og ekki leið langur tími þar til þeir félagar fóru að tala saman aftur, Jakob var um tíma í forsvari Íslendingafélags þarna á vesturströnd Bandaríkjanna og hann fékk t.a.m. Þursaflokkinn til að spila þar á samkomu félagsins og síðar einnig Stuðmenn en þá hafði hann fengið þá hugmynd að gera söngleik um tívolíið – síðar þróaðist hugmyndin enn frekar og varð að kvikmyndinni Með allt á hreinu sem tengdist tívolíhugmyndinni ekki á neinn hátt. Menn voru því farnir að hittast aftur og þeir Valgeir, Tómas, Þórður og Bjóla flugu m.a. vestur um haf til að semja og forvinna tónlist og þróa hugmyndina um efnið sem þá hafði fengið styrk úr kvikmyndasjóði, þetta var sumarið 1980 og Stuðmenn tróðu upp á lýðveldishátíð þar vestra 17. júní, reyndar án Egils sem kom aðeins síðar vegna vinnu við kvikmyndina Jón Oddur og Jón Bjarni, á lýðveldishátíðinni lék trommuleikarinn Winnie Colaiuta með sveitinni og til stóð að stórsöngvarinn Haukur Morthens kæmi fram með þeim félögum en hann missti röddina og gat hvergi komið frá sér hljóði og sólbrann svo illa í kjölfarið í Kaliforníusólinni. Stuðmenn reyndu að gera gott úr þessu, buðu honum að syngja lag í myndinni (Örlög mín, samið sérstaklega fyrir hann) en hann afþakkaði og Egill söng það svo að lokum. Annars gerðist það á umræddri lýðveldishátíð að frú sú sem átti að fara með ræðu fjallkonunnar hafði fengið sér ótæpilega neðan í því og var óvinnufær með öllu þannig að Jakob leigði bjarndýrsbúning sem Sigurður Bjóla klæddi sig í og átti að fara með ræðuna en þá reyndist kjaftur dýrsins vera kirfilega saumaður saman svo ekkert heyrðist í Bjólunni. Að endingu kraup Valgeir fyrir aftan bjarndýrið og fór með textann meðan bjarndýrið „mæmaði“ – og þá senu má einmitt sjá í nokkuð breyttri útfærslu í Með allt á hreinu þar sem búktalari og dúkka hans koma í stað bjarndýrsins. Þess má geta að þetta sumar voru plöturnar Sumar á Sýrlandi og Tívolí endurútgefnar saman í pakka hér heima en skífurnar tvær höfðu þá verið ófáanlegar um tíma.

Stuðmenn 1982
Fyrirtækið Bjarmaland var stofnað utan um kvikmyndaverkefnið, Ágúst Guðmundsson var fenginn til að leikstýra myndinni og hann kom með hugmynd um að hafa tvær hljómsveitir, karla- og kvennasveit sem berðust um athyglina og þar með kom hljómsveitin Grýlurnar með Ragnhildi Gísladóttur í broddi fylkingar inn í dæmið, sem gekk reyndar undir nafninu Gærurnar í myndinni. Handritið eða það sem var fyrirfram skrifað fyrir myndina krafðist þess að Stuðmenn (og Grýlurnar) spiluðu á dansleikjum og því var blásið til nokkurra dansleikja sumarið 1982 þar sem Stuðmenn komu fram á Íslandi í fyrsta skipti síðan 1976. Þá kom Ásgeir Óskarsson trommuleikari til sögunnar en það varð ekki fyrr en þarna að Stuðmenn eignuðust trommuleikara, Sigurður Bjóla hvarf hins vegar aftur á braut og var ekki með í myndinni þrátt fyrir að hafa komið nokkuð við sögu við undirbúninginn.
Sumarið 1982 var því æði annasamt hjá Stuðmönnum, sveitin lék fyrst á skemmtunum Íslendingafélaga í Osló og Kaupmannahöfn og þar voru fyrstu atriðin kvikmynduð, síðan lék hún hér heima á dansleikjum á milli þess sem leiknu senurnar voru skotnar og reyndar voru mörg samtalanna spunnin á staðnum – Eggert Þorleifsson í hlutverki vitgranns rótara var þar áberandi en hann og Egill voru í raun þeir einu sem höfðu einhverja reynslu af leik, tónlistin var jafnframt hljóðrituð og kláruð auk annarra tengdra verkefna s.s. við hljóðvinnslu en þar voru Tómas, Þórður og Júlíus Agnarsson fyrirferðarmestir. Jakob fór einnig mikinn sem framkvæmdastjóri verkefnisins og hann fékk því m.a. framgengt að Eyjamenn frestuðu þjóðhátíð sinni um eina helgi þannig að Stuðmenn gætu verið þar en sveitin var hins vegar í Atlavík um verslunarmannahelgina, lék þar á útihátíð sem átti eftir að gefa tóninn næstu árin en slíkar hátíðir höfðu verið í nokkurri lægð árin á undan. Reyndar kom babb í bátinn í Vestmannaeyjum því Eyjamenn vildu ekkert með Grýlurnar hafa, að lokum tókst að landa því með aðstoð Finns Torfa Stefánssonar tónlistarmanns og lögmanns sem þá starfaði fyrir FÍH svo sveitirnar tvær gátu kvikmyndað senur sínar á sviðinu, sem og önnur Eyjaatriði. Þetta sumar (1982) gaf nokkuð tóninn fyrir næstu ár hjá Stuðmönnum og á þessum tímapunkti var fyrst farið að tala um sveitina sem „hljómsveit allra landsmanna“.

Með allt á hreinu
Tónlistin úr kvikmyndinni kom út á plötu um haustið og varð strax vinsæl, og myndin sjálf Með allt á hreinu var frumsýnd 18. desember. Hún fór ágætlega af stað í bíóhúsunum en það var svo upp úr miðjum janúar þegar öllu jólastússi var lokið og dimmur veturinn tók við að aðsóknin rauk upp úr öllu valdi og myndin gekk fyrir fullum húsum fram á vorið 1983, sló algjörlega í gegn en um 125 þúsund manns munu hafa séð myndina í kvikmyndahúsunum sem er Íslandsmet því engin önnur íslensk kvikmynd hefur nokkru sinni fengið svo mikla aðsókn – sem dæmi má t.d. nefna að 1400 manns sáu hana á Siglufirði, nokkuð fleiri en íbúar bæjarins voru þá. Reyndar hefur Með allt á hreinu öðlast slíkan sess í hugum landsmanna að kynslóðir í dag eru enn að horfa á hana enda þekkja allir og hafa alist upp við tónlistina í myndinni, margir geta farið með heilu samtölin og jafnvel megnið af myndinni, orð fyrir orð. Í myndinni eru hljómsveitirnar tvær, Stuðmenn og Grýlurnar auðvitað fyrirferðarmestar og sérstaklega hvað tónlistina varðar en senuþjófurinn var þó Eggert Þorleifsson í hlutverki rótarans Dúdda – þess má og geta að Gylfi Kristinsson, einn af stofnendum sveitarinnar 1969 kemur fyrir í myndinni í hlutverki fisksala og hann syngur eitt laganna – Franskar (sósu og salat).
Stuðmenn nýttu meðbyrinn og spilaði mikið enda naut tónlistin mikilla vinsælda og lög eins og Slá í gegn, Ástardúett, Úti í Eyjum, Íslenskir karlmenn, Haustið ´75, Taktu til við að tvista og Sigurjón digri lifa enn góðu lífi, í síðast talda laginu naut sveitin aðstoðar Flosa Ólafssonar sem þar túlkaði geðstirðan húsvörð sem byggður var á persónu Ragnars Björnssonar húsvarðar í Sindrabæ á Höfn í Hornafirði.
Platan með tónlistinni fékk prýðilegar viðtökur, seldist vel og hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, DV og Tímanum. Hún hefur nú áratugum síðar selst hátt í tuttugu þúsund eintökum.
Í myndinni voru Stuðmenn ófeimnir við að gera grín að sjálfum sér og hinum karllæga ballbransa og m.a. er þar að finna senur þar sem búningamál sveitarinnar eru áberandi og menn ekki á eitt sáttir um þá búninga sem Frímann (Jakob) lætur þá klæðast líkt og gerðist iðulega hjá Stuðmönnum í raunveruleikanum – sérstaklega mun Þórði hafa verið illa við þær múnderingar sem boðið var upp á. Í einu atriði myndarinnar klæðist sveitin búningum sem litu út eins og frystipakkningar Iceland Seafood Corporation sem þá var í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) sem Jakob hafði gert munnlegan samning við um að styrkja gerð myndarinnar, ýmsar fleiri skírskotanir voru í Sambandið, t.a.m. lagið Í sambandi sem innihélt m.a. textalínuna „sambandi, ég verð að ná sambandi“, þá má einnig nefna nafn Hörpu Sjafnar (Ragnhildar Gísladóttur) en Sjöfn var málningarverksmiðja Sambandsins, umboðsmaður Gæranna (Grýlnanna) hét Hekla (saumastofa Sambandsins) og allir þekkja auðvitað sönglínuna „Samband þeirra er frá öllum hliðum séð – stórfínt“ og þannig mætti áfram telja – Allt varð þetta þó til einskis því Stuðmenn fengu ekki krónu frá Sambandinu þegar á reyndi. Þess má geta að einnig má finna falda vísbendingu um kynhneigð Tómasar bassaleikara í myndinni en í frægu kynningaratriði með hljómsveitinni er persóna hans, Baldvin Roy Pálmason sagður vera ekki allur þar sem hann er séður en Tómas var samkynhneigður eins og kunnugt er þótt ekki væri hann kominn út úr skápnum þá.

Stuðmenn og Grýlurnar (Gærurnar)
Nú höfðu Stuðmenn fyllilega áttað sig á að hljómsveitin væri eitthvað meira en venjuleg hljómsveit, breiðskífurnar þrjár höfðu getið af sér fjölda stórsmella sem þjóðin kunni utan að og bara það að sex ár liðu milli platna án þess að vinsældir hennar döluðu nema síður væru, var staðfesting þess að bandið væri ekki hljómsveit einnar kynslóðar heldur hljómsveit allra landsmanna. Það fór því enginn í fýlu eftir Með allt á hreinu enda hafði kvikmyndin skilað fyrirtæki þeirra stórgróða og menn voru fullir sjálfstrausts, sigurgleði og nýjum hugmyndum. Alla langaði að gera aðra bíómynd sem fyrst og línur voru strax lagðar, ekki yrði þó um framhaldsmynd að ræða heldur gerðust menn nú metnaðarfullir og hugðust gera „alvöru“ mynd – það gerðist þó ekki strax því menn vildu vanda til verka.
Þegar árið 1983 gekk í garð reyndist Stjörnumessan, uppgjörshátíð DV Stuðmönnum heldur betur örlát á verðlaun því sveitin var kjörin hljómsveit ársins, var með plötu ársins, Ragnhildur og Egill söngvarar ársins eftir frammistöðuna í myndinni og lagið Úti í Eyjum varð svo í öðru sæti yfir lag ársins á eftir Draumaprinsinum sem Ragnhildur söng reyndar. Og fleira var að gerast innan sveitarinnar, þau Jakob og Ragnhildur fóru að skjóta sér saman um vorið og um svipað leyti fór sveitin í hljóðver og tók upp nýtt efni, m.a. lögin Það jafnast ekkert á við jazz sem músíkalska parið Jakob og Ragnhildur sungu saman, Blindfullur og Grái fiðringurinn en síðast talda lagið var titillag sex laga plötu sem Stuðmenn sendu frá sér um sumarið. Blindfullur kom upphaflega úr smiðju Valgeirs og Sigurðar Bjólu en þeir gáfu um þetta leyti út plötu undir nafninu Jolli og Kóla. Í raun munu flest lögin á plötunni hafa verið afgangsefni frá því að Stuðmenn fóru vestur um haf að semja fyrir Með allt á hreinu. Grái fiðringurinn gekk þokkalega þótt ekki væri hún skífa í fullri stærð, platan fékk góða dóma í Þjóðviljanum, þokkalega í tímaritinu Samúel og Poppbók Jens Guð en heldur síðri í Morgunblaðinu.

Stuðmenn 1983 í Miðopnu Vikunnar
Og svo var sumarið 1983 keyrt á fullu á sveitaballamarkaðinn sem hafði þá verið daufur um nokkurra ára skeið eftir að Bubba-byltingin skall á en með Stuðmönnum fékk hann nokkurt líf á nýjan leik og má e.t.v. segja að sveitin hafi bjargað sveitaböllunum því hún fór mikinn næstu árin í kjölfar velgengni Með allt á hreinu. Auk þess að leika á sveitaböllum tóku Stuðmenn einn vikutúr með MS Eddu sem sigldi m.a. til Newcastle og Bremerhaven, og svo var sveitin fremst í flokki í Atlavík um verslunarmannahelgina og startaði þar hljómsveitakeppni sem átti eftir að njóta vinsælda næstu árin. Mikil aðsókn var að böllum þeirra enda voru þeir þarna án nokkurs vafa vinsælasta hljómsveit landsins, en jafnframt fór að kvisast út að þeir verðlegðu sig hátt og það átti eftir að loða við sveitina – hins vegar áttu þeir það fyllilega inni miðað við vinsældirnar. Þær Grýlu-stöllur Ragnhildur og Linda Björk Hreiðarsdóttir komu eitthvað fram með Stuðmönnum síðsumars en þær höfðu báðar komið við sögu á Gráa fiðringnum.
Jakob og Ragnhildur voru sannkallað músíkalskt par og um haustið gekk Ragnhildur til liðs við hljómsveit sem Jakob hafði þá starfrækt um skeið ásamt tveimur Bandaríkjamönnum, synthasveitina Bone symphony en sveitin lék hér á landi um þetta leyti og gaf þá m.a. út lagið It´s a jungle out there.
En Stuðmenn voru með fleiri hugmyndir til að ráðstafa ágóðanum af Með allt á hreinu heldur en aðra kvikmynd því bókaútgáfa var fyrirhuguð fyrir jólin 1983, þeir félagar fengu ungan blaðamann, Illuga Jökulsson til að rita sögu sveitarinnar (undir bókatitlinum Draumur okkar beggja) og reyndar gott betur því þar er í raun ágrip af tónlistarsögu heillar kynslóðar á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið óx reyndar í höndunum á Stuðmönnum því menn vildu gera vel, grafískir hönnuðir þess tíma fóru mikinn í að hanna bókina (sem reyndar varð fyrir vikið illlæsileg á köflum) og varð hún í raun prentsmiðjulegt afrek sem fjöldi manns vann að, hreint listaverk. Og hafi það ekki verið nóg fylgdi fyrsta upplagi bókarinnar Stuðmannaspilið Slá í gegn og fjögurra laga tíu tommu platan Tórt verður til trallsins: læf, á þeirri plötu var að finna tónleikaupptökur frá því um sumarið, m.a. úr Sigtúni. En hér kom fyrsta floppið, bókin varð afar dýr í framleiðslu auk þess sem spilið og platan kostuðu sitt en um 5000 eintök þurfti að selja til að dæmið gengi upp – það var langur vegur frá því að það tækist því aðeins innan við þúsund eintök seldust af henni. Lagerar af bókinni og plötunni poppuðu víða upp næstu árin en spilið er afar sjaldséð og er í dag safngripur.

Stuðmannaspilið Slá í gegn
Stuðmenn lögðust í dvala eftir áramótin 1983-84 en sveitin hafði leikið á áramótadansleik í Þjóðleikhúsinu, þeim dansleik var útvarpað á Rás 2 en útvarpsstöðin var þá nýtekin til starfa. Um vorið birtust þeir félagar aftur og sveitin hóf sumartúrinn með 17. júní dansleik í Laugardalshöllinni ásamt fleiri sveitum þar sem um 6000 manns mættu en kvöldsins er þó einkum minnst fyrir mikil drykkjulæti og skemmdarverk. Í kjölfarið lék sveitin um allt land og kom Ragnhildur fram með henni víðast hvar – líkt og árin tvö ár undan voru Stuðmenn í Atlavík um verslunarmannahelgina í samstarfi við UÍA en nokkuð fór um Jakob og félaga þegar spurðist út að útihátíð yrði haldin í borgarlandinu, nánar til tekið í Viðey þá helgina og gerðu eins og margir aðrir ráð fyrir að straumur ungmenna höfuðborgarsvæðisins lægi fremur yfir sundið út í eyju heldur en að taka sér ferð yfir allt landið á útihátíð. Þeir höfðu því allar klær úti með að útvega skemmtikrafta sem hefðu aðdráttarafl og lönduðu bítlinum Ringo Starr sem heiðraði Atlavíkurgesti með nærveru sinni, afhenti hljómsveitinni Fásinnu verðlaun í hljómsveitakeppninni og barði svo sneriltrommu með Stuðmönnum í laginu Johnny B. Goode – sem vel að merkja hefur aldrei verið á prógrammi Stuðmanna hvorki fyrr né síðar eftir því sem best er vitað. Áhyggjur Stuðmanna af Viðeyjarhátíðinni voru reyndar algjörlega ástæðulausar því aðeins tvö til þrjú hundruð manns mættu þangað á meðan um 6000 manns voru í Atlavík. Stuðmenn prófuðu nýtt efni á dansleikjum sumarsins, þeirra á meðal voru auðvitað lög úr væntanlegri kvikmynd sem unnið var að hörðum höndum um sumarið austur á Seyðisfirði en þetta sumar var einnig á lista sveitarinnar lag sem hlaut nafnið Energí og trú, sem kom reyndar ekki út á plötu fyrr en þremur árum síðar.

Stuðmenn og Bubbi Morthens
Um haustið kom forsmekkurinn að myndinni almenningi fyrir sjónir þegar tónlistin úr henni kom út á plötu sem fékk titilinn Kókostré og hvítir mávar, þá var frumsýnt myndband við lagið Come on pretty baby to the go go party sem gaf nokkur fyrirheit um myndina sem ráðgert var að frumsýna í febrúar. Nokkur laganna á plötunni náðu miklum vinsældum og einkum þegar myndin var komin í sýningu en platan fékk ekki alveg eins jákvæða dóma og fyrri skífur sveitarinnar, hún fékk þó þokkalega dóma í Morgunblaðinu, Helgarpóstinum og DV og ágæta í Þjóðviljanum, hljóðgervlar voru nokkuð meira áberandi á þessari plötu en þeim fyrri og þar var lagið Búkalú einkum „vélrænt“ ef svo mætti að orði komast. Það lag varð gríðarlega vinsælt en einnig lög eins og áðurnefnt Come on pretty…, Stórir stór, Út í veður og vind og Hringur og bítlagæslumennirnir en það lag fjallaði um Ringo Starr og heimsókn hans í Atlavík. Þar var einnig að finna nýja útgáfu af laginu Honey will you marry me sem hafði komið út á fyrstu smáskífu sveitarinnar en Draumur okkar beggja sem einnig hafði komið út á upphafsárum sveitarinnar hafði einmitt verið í nýrri útgáfu í Með allt á hreinu þó að sú útgáfa kæmi ekki út á plötu fyrr en löngu síðar. Eitt lag í viðbót úr myndinni varð nokkuð þekkt en rataði af einhverri ástæðu ekki inn á plötuna, reyndar hafði greinilega verið gert ráð fyrir því lagi því á plötuumslaginu má sjá hvar krotað hefur verið snyrtilega yfir titil lagsins með svörtu – það var lagið Skipulagt kaos sem var stemmingslag sungið af Stuðmönnum og Flosa Ólafssyni leikara sem hafði einmitt sungið Sigurjón digra í Með allt á hreinu, Flosi átti eftir að koma enn meir við sögu sveitarinnar síðar. Ragnhildur söng lítillega á plötunni (m.a. í Skiplagt kaos) en varð fastur liðsmaður sveitarinnar á nýju ári. Platan seldist vel og varð í öðru sæti yfir söluhæstu plötur ársins 1984 á eftir einsöngvaraplötu Kristins Sigmundssonar. Stuðmenn voru sigursælir sem fyrr í uppgjöri fjölmiðlanna um áramót þar sem sveitin keppti aðallega við Das Kapital.
Stuðmenn léku nokkuð í kringum jól og áramót 1984, leigðu t.a.m. skemmtistaðinn Sigtún í tvær vikur og settu þar upp poppminjasafn tímabundið í samstarfi við Óskar Jónasson (síðar kvikmyndaleikstjóra o.fl.) og þar lék sveitin ásamt Oxsmá og Kuklinu líklega ein tíu kvöld síðla árs, árinu lauk svo með áramótadansleik sem var sjónvarpað en þar leiddi Jakob sendiherra Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, Marshall Brement og Evgeniy Kosarev saman í söng í laginu Nótt í Moskvu – en Brement og eiginkona hans höfðu einmitt verið við tökur á Stuðmannamyndinni um haustið.
Kvikmyndin Hvítir mávar var frumsýnd í mars 1985 en sú mynd varð ekki sá gullmoli sem fyrri myndin var enda allt annars eðlis og unnin á allt annan hátt. Jakob var leikstjóri, Valgeir annaðist handritaskrifin að mestu og Egill var í aðal hlutverkinu ásamt Tinnu Gunnlaugsdóttur eiginkonu sinni en nokkur fjöldi þekktra leikara kom fram í henni auk annarra Stuðmanna sem voru þó í smærri hlutverkum. Hvítir mávar var því í grunninn miklu alvarlegri bíómynd en Með allt á hreinu þrátt fyrir allt að því súrrealískar senur inni á milli, hún gerist austur á landi og fjallar um samband hjóna þar sem inn í blandast áhugaleikfélag á staðnum og tilraunir bandaríska hersins með veðurgeisla. Myndin hlaut ekki nærri því eins góðar viðtökur og gagnrýni og fyrri myndin, miklu minni aðsókn og því varð nokkurt tap á henni. Gróðinn af Með allt á hreinu var því að engu orðinn og Stuðmenn urðu stórskuldugir. Hvítir mávar voru síðar gefnir út á myndbandi en kom aldrei út á dvd-formi og er í dag sjaldgæfur gripur.
Þrátt fyrir þessi áföll spýttu liðsmenn sveitarinnar í lófana enda höfðu fasteignir verið veðsettar í aðdraganda myndarinnar, Stuðmenn fóru því á fullt í spilamennsku og svo einnig í auglýsingatónlist en margir muna sjálfsagt enn eftir auglýsingum Iðnaðarbankans (Með á nótunum) svo dæmi séu nefnd. Jakob og Ragnhildur starfræktu sem fyrr Bone Symphony en voru einnig að gera tónlist tvö saman, og Valgeir var um þetta leyti einnig farinn að troða upp einn síns liðs.

Stuðmenn
Um sumarið 1985 var talið í balltúr eins og áður og að þessu sinni var með í för senegalskur ásláttarhópur sem auglýstur var undir nafninu Blámenn frá Senegal, þegar þeir afrísku áttuðu sig á þeirri nafngift urðu þeir eðlilega ósáttir en Stuðmenn báðust afsökunar og sættir tókust. Hópurinn kom m.a. fram á svokallaðri Húnavershátíð sem haldin var í júlí þar sem Megas kom fram með sveitinni og svo var enn og aftur haldið austur á Hérað um verslunarmannahelgina og leikið í Atlavík. Sveitin keyrði nokkuð á tónlistinni úr Hvítum mávum auk eldri tónlistar en síðsumars lagðist hún tímabundið í híði og liðsmenn sveitarinnar sinntu öðrum verkefnum s.s. Bone symphony en Ragnhildur sendi einnig frá sér lagið Fegurðardrottning sem þau Jakob unnu saman en það kom út á safnplötu fyrir jólin og varð nokkuð vinsælt.
Fyrir jólin kom einnig út eins konar safnplata Stuðmanna, Í góðu geimi sem annars vegar hafði að geyma nokkur vinsæl lög með sveitinni frá árunum 1982-84 en einnig lög sem höfðu orðið afgangs þegar platan með tónlistinni úr Með allt á hreinu kom út – það voru lög eins og Grikkir, Örlög mín og ÚFÓ. Þá voru einnig þrjú ný lög á plötunni, Segðu mér satt (sem naut nokkurra vinsælda), Ég vildi að ég væri og Sur la plage du souvenir en Ragnhildur söng í síðast talda laginu á einhvers konar tilbúinni frönsku. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og DV.
Stuðmenn komu saman aftur fyrir jólin og léku þá á nokkrum dansleikjum, m.a. á áramótadansleik Ríkissjónvarpsins í beinni útsendingu en fór svo strax í kjölfarið og lék ásamt Pax Vobis, Rikshaw og Herberti Guðmundssyni á stórdansleik í Laugardalshöllinni þar sem skemmdarverk og unglingadrykkja settu svip á samkomuna.
Fljótlega á nýju ári (1986) bárust fréttir í Þjóðviljanum að Stuðmenn væru jafnvel á leið til Kína í tónleikaferð en þá hafði breski dúettinn Wham farið fyrstir vestrænna tónlistarmanna nokkru fyrr. Upphaflega var það þó þannig að ferðin stóð Ragnhildi og Jakobi einum til boða en fljótlega kom upp sú hugmynd að sveitin færi öll og eftir nokkrar samningaviðræður við Kínverjana var ákveðið að Stuðmenn færu utan um vorið. Um leið kom upp sú hugmynd frá Valgeiri að sveitin yrði heilsárs hljómsveit – hún myndi starfa á heils árs grundvelli og í stað þess að leggja áherslu á sumarvertíðina og ballmarkaðinn hér heima gæti hún róið á erlend mið með alþjóðlegan frama í huga. Sú hugmynd var samþykkt og um leið sögðu Jakob og Ragnhildur skilið við Bone symphony sem hætti í kjölfarið og olli það nokkrum leiðindum hjá hinum tveimur meðlimum þeirrar sveitar enda var þar ýmsum möguleikum á alþjóðlegri frægð kastað fyrir róða.

Stuðmenn 1986
Það var því mikið í gangi hjá Stuðmönnum árið 1986 og sveitin starfaði samfleytt þetta ár, auk þess að leika á dansleikjum fór sveitin í hljóðver í London til að taka upp efni á ensku áður en haldið var til Kína en sú ferð krafðist gríðarlega mikils undirbúnings enda vissu menn auðvitað ekki nákvæmlega út í hvað þeir voru að fara, t.d. var erfitt að fá svör frá kínverskum yfirvöldum um tæknileg atriði og svo fór að Stuðmenn með Júlíus Agnarsson fremstan meðal hljóð- og tæknimanna fluttu með sér þrjú tonn af græjum, þar á meðal voru rafstöðvar ef ekki fengist nægt rafmagn. Í byrjun maí var svo haldið í ferðalagið og um leið höfðu Stuðmenn tekið sér nýtt nafn fyrir alþjóðlega markaðinn – Strax en það var í raun eins konar skammstöfun á Stuðmenn og RAX, sem er eitt gælunafna Ragnhildar. Platan sem unnin var á ensku var aldrei tekin með til Kína enda hafði þá komið í ljós að enginn markaður væri fyrir vínyl hljómplötur í landinu en þeim mun meiri markaður fyrir kassettur.
Stuðmenn dvöldu í ríflega tvær vikur í Kína og svo í Hong Kong, léku á fjórtán tónleikum í sjö borgum m.a. í Peking og Shanghai, yfirleitt fyrir um 3-5000 manns og allt upp í 12000 áhorfendur, og lenti þar í ýmsum ævintýrum sem voru tíunduð í blaðaviðtölum og ferðasögum þegar heim var komið aftur, BBC vann jafnframt að heimildarmynd um ferðina og var hún síðar sýnd í sjónvarpi. Hljómsveitinni Strax er gerð ítarlegri skil í sér umfjöllun á Glatkistunni enda þróaðist sú útgáfa í aðra átt og starfaði í nokkur ár og gaf út þrjár breiðskífur og nokkrar smáskífur, sveitin varð í raun síðar að annarri sveit þeirra Ragnhildar og Jakobs, starfaði t.a.m. um tíma sem tríó og svo dúett undir lokin – hennar verður þó áfram getið hér eftir því sem tilefni er til.
Þegar heim var komið tók við nokkuð sleitulítil spilamennska um sumarið, sveitin lék mest á sveitaböllunum og þar á meðal í Grímsey í fyrsta sinn, hvarvetna fyrir fullu húsi en að þessu sinni var sveitin í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina en þar hafði hún síðast leikið á þjóðhátíð árið 1982 þegar henni hafði verið frestað um viku, engin hátíð var þá haldin í Atlavík til að hlífa þar gróðri og skóglendi. Um ellefu þúsund gestir mættu í Herjólfsdalinn sem þá var met og enn er talað um listaverk Stuðmanna, risakolbrabbann sem gnæfði yfir stóra sviðið á þeirri hátíð. Og fleiri stórhátíðir voru þetta sumar, Reykjavíkur-borg hélt upp á 200 ára afmæli sitt með veglegum hætti og skemmtu Stuðmenn ásamt vinsælustu hljómsveitum landsins á Arnarhóli þar sem öllu var sjón- og útvarpað beint.

Stuðmenn
Um þetta leyti var Einar Örn Benediktsson (síðar kenndur við Sykurmolana, Smekkleysu o.m.fl.) ráðinn framkvæmdastjóri Stuðmanna til að halda utan um mál sveitarinnar erlendis þ.e. Strax og hann átti eftir að gegna því starfi um tveggja ára skeið. Og þegar fréttir bárust þess efnis að leiðtogafundur stórveldanna USA og USSR yrði haldinn hér á landi í október með aðeins fárra vikna fyrirvara voru Stuðmenn fljótir að taka við sér og sendu frá sér nýtt lag sem unnið var upp úr öðru eldra lagi sem upphaflega hafði átt að vera í Með allt á hreinu, en lagið mun hafa verið fullunnið á um sólarhring og kom út undir titlinum Moscow Moscow undir merkjum Strax, sem var þá fyrsta útgefna skífan undir því nafni. Lagið naut nokkurra vinsælda um haustið og fyrir jólin kom svo fyrsta plata Strax á markaðinn hér á landi og bar nafn sveitarinnar en lögin á henni voru sungin á ensku rétt eins og smáskífan Moscow Moscow. Look me in the eye varð nokkuð vinsælt og platan hlaut þokkalega dóma í tímaritinu Samúel, DV og Morgunblaðinu en gagnrýnendur spurðu réttilega „hvar eru Stuðmenn?“ enda þótti mörgum búið að skera stuðmennskuna hressilega af tónlistinni í skiptum fyrir alþjóðlegt og dauðhreinsað popp. Hún seldist þó í 7-8000 eintökum og kom svo út á Norðurlöndunum og í Bretlandi með einu aukalagi (Keep it up = Segðu mér satt) á vegum sænska útgáfufyrirtækisins Grammofon AB Electra árið 1987, á meðan var Stuðmanna-armurinn lítið virkur hér heima um veturinn þótt sveitin spilaði reyndar í nokkur skipti í lok árs, enda var það eins konar sumar-útgáfa sveitarinnar sem starfaði hér heima.
Um þetta leyti fóru aftur að myndast brestir í sambandinu, ósætti tók sig upp að nýju nú eftir að mesta velgengnin var að baki og orðið var rólegra í spilamennskunni. Valgeir tók þátt í undankeppni Eurovision-keppninnar hér heima í upphafi árs 1987 (hafði einnig tekið þátt í keppninni árið á undan þegar hún var haldin í fyrsta sinn) og sigraði þá keppni með lagið Hægt og hljótt, heimildir herma að öðrum Stuðmönnum hafi þótt keppnin lítið merkileg sem sýnir kannski svart á hvítu hvernig mórallinn var þá innan sveitarinnar. Sveitin fór þó í hljóðver þegar nær dró vori og í kjölfarið kom næsta plata sveitarinnar út, Á gæsaveiðum og fór mikinn um sumarið svo fáa óraði fyrir að einhver átök væru innan bandsins. Reyndar var Valgeir lítið með sveitinni megnið af sumrinu en hann var þá staddur í Bandaríkjunum en eftir á að hyggja var ástæðan líklega sú að hann var að yfirgefa sveitina, hann átti þó stórsmell sumarsins – Popplag í G-dúr sem kyrjað var í öllum græjum og skúmaskotum landsins um sumarið og var lengi á toppi Vinsældalista Rásar 2 og Bylgjunnar (sem hafði tekið til starfa haustið á undan). Af öðrum vinsælum lögum sveitarinnar á þessari plötu má nefna Energí og trú, Út í kvöld, Staldraðu við og Leitin að Látúnsbarkanum en síðasti lagatitillinn vísar til söngvarakeppni sem sveitin hélt utan um í kringum balltúrinn um sumarið en þar kepptust fulltrúar kjördæmanna í undankeppnum og síðan var lokakeppni haldin í Tívolíinu í Hveragerði þar sem Bjarni Arason 16 ára gamall Árbæingur sigraði. Í kjölfarið var síðsumars gefin út plata með söng þeirra Látúnsbarka sem kepptu til úrslita með undirleik Stuðmanna, en sú plata leysti Á gæsaveiðum af hólmi yfir söluhæstu skífurnar það sumarið. Bjarni sló þar í gegn með lögunum Í Réttó (In the ghetto við íslenskan texta Þórðar gítarleikara) og Bara þú og ég en flest lög plötunnar voru Stuðmannalög – á henni er einnig að finna lagið Lóa litla á Brú í flutningi Adda rokk (Arnþórs Jónssonar) sem kom fram með sveitinni sem skemmtiatriði þetta sumar en hann átti síðar eftir að starfa meira með Stuðmönnum.

Stuðmenn á sviði
Platan Á gæsaveiðum fékk ágætar viðtökur gagnrýnenda, góða dóma í Morgunblaðinu, Þjóðviljanum og DV, og seldist einnig ágætlega enda keyrði sveitin af hörku á sveitaböllin til að fylgja henni eftir, þannig léku Stuðmenn t.d. í Logalandi um hvítasunnuhelgina og þar tjölduðu ballgestir einnig, en um verslunarmannahelgina var hljómsveitin aðal númerið á alræmdri sukkhátíð í Húsafelli en þar hafði þá ekki verið haldin útihátíð um nokkurt skeið. Eins og í Atlavík héldu Stuðmenn utan um hljómsveitakeppni sem sveit af höfuðborgarsvæðinu, Nýdönsk sigraði. Ragnhildur söngkona kom fram með sveitinni þá um helgina með nýfædda stúlku þeirra Jakobs sem hafði fæðst um tíu dögum fyrr en þar var á ferð fyrsta hreinræktaða Stuðmannabarnið – Bryndís Jakobsdóttir sem síðar átti reyndar eftir að taka lagið oftsinnis með sveitinni. Í Húsafelli sýndi Ásgeir trommuleikari á sér nýja hlið þegar hann kom þar fram einn með gítar og söng eigin tónlist en hann átti eins og flestir Stuðmenn eftir að gefa út sólóefni á plötum, þar kom einnig fram hljómsveit sem þau Jakob og Ragnhildur starfræktu undir nafninu Leyniþjónustan.
Valgeir kom fram með Stuðmönnum í Húsafelli en var þá í raun alveg hættur í sveitinni og þegar málin eru skoðuð í baksýnisspeglinum má giska að andinn í sveitinni hafi verið ekkert ósvipaður og hjá Bítlunum um það leyti sem sú sveit var að hætta – Á gæsaveiðum hafði verið að mestu unnin í hljóðveri af Tómasi bassaleikara sem var við stjórnvölinn þar en aðrir komu einir síns liðs inn í stúdíóið til að spila sína parta og fóru svo nema Jakob og Ragnhildur sem unnu sín lög að mestu sjálf, e.t.v. átti það líka sinn þátt að meðlimir sveitarinnar voru uppteknir í öðrum verkefnum en Valgeir vann t.a.m. að tónlist fyrir söngleikinn Síldin kemur, síldin fer og hóf svo í kjölfarið farsælan sólóferil.
Brotthvarf Valgeirs úr sveitinni var ekki einungis erfitt vegna þess að Stuðmenn voru orðnir risabatterí, fyrirtæki með fasteignir, rútu (langferðabíl), hljóðver og starfsfólk í vinnu, heldur líka vegna þess að hugmyndin hafði upphaflega komið frá honum að gera Stuðmenn út á heilsárs grundvelli og Jakob og Ragnhildur höfðu fórnað Bone symphony í staðinn – menn voru því eðlilega sárir.
Stuðmenn fóru í pásu um haustið eins og gera mátti ráð fyrir en þá var Strax breiðskífan að koma út í Skandinavíu auk smáskífu sem hafði að geyma lögin Keep it up / Black and white, um svipað leyti kom svo önnur skífa Strax út hér heima undir nafninu Face the facts – nokkuð hafði þá kvarnast úr sveitinni og komu Egill, Ásgeir og Tómas ekkert við sögu á plötunni, Þórður fremur lítið og Valgeir aðeins sem lagahöfundur en Jakob og Ragnhildur skipuðu í raun sveitina með session mönnum. Platan hlaut fremur dræmar viðtökur og aðeins tvö laganna fengu útvarpshlustun, Strange faces og titillagið Face the facts. Heimildamyndin um Strax í Kína var svo sýnd í sjónvarpi um áramótin. Fyrir jólin kom Á gæsaveiðum út á geisladisk sem þá var nýtt form, fyrst Stuðmannaplatna og hafði að geyma aukalögin Baktal og Spilaðu lag fyrir mig.
Valgeir hafði sagt í blaðaviðtali að ólíkleg væri að Stuðmenn myndu spila á árinu 1988 og sú spá gekk að nokkru leyti eftir því sveitin lék lítið og ekkert fyrr en um verslunarmannahelgina þegar hún lék í Atlavík en þar voru í leiðinni haldin undanúrslit fyrir Látúnsbarkakeppnina sem haldin var annað árið í röð en úrslit þeirrar keppni voru svo um miðjan ágúst á Hótel Íslandi og bar Arnar Freyr Gunnarsson sigur úr býtum. Valgeir kom ekki fram með Stuðmönnum í Atlavík og Egill ekki nema hluta helgarinnar. Strax kom einnig fram í Atlavík sem sýnir svart á hvítu að sú var orðin að allt annarri sveit sem sendi frá sér sína þriðju plötu um haustið – á íslensku og bar hún nafnið Eftir pólskiptin, hún var þá tríó Jakobs, Ragnhildar og Egils en Egil var reyndar hvergi að sjá þegar platan var kynnt síðla hausts en þess í stað voru session menn með þeim á sviði. Egill, Valgeir og Sigurður Bjóla áttu þó efni á plötunni auk Jakobs og Ragnhildar svo ekki var sambandið alslæmt þeirra í millum, það var þó eðlilegt að fjölmiðlamenn spyrðu spurninga eins og hvort Stuðmenn væru hættir. Platan vakti ekki mikla athygli en fékk þó ágæta dóma og tvö lög hennar, Havana og Niður Laugaveg fengu nokkra spilun í útvarpi, heimildir herma að skífan hafi einnig átt að koma út á ensku og byrjað var að vinna hana með það í huga en sú útgáfa kom aldrei út af einhverjum ástæðum.

Stuðmenn 1989
Ekkert spurðist til Stuðmanna eftir Látúnsbarkakeppnina og fólk fór hvert í sína áttina, nokkuð óvænt birtust þó fréttir í lok maí 1989 að von væri á nýrri Stuðmannaplötu í júlí og að sveitin myndi koma fram á nokkrum dansleikjum um sumarið. Platan birtist svo undir nafninu Listin að lifa og kenndi þar ýmissa grasa og jafnvel óvæntra, Valgeir lagði t.d. til efni á hana þótt hann væri ekki með að öðru leyti og Þórður spratt fram á sjónarsviðið sem fullmótaður og skemmtilegur textasmiður, einnig birtist Sigurður Bjóla með eigin lag (Í nótt) sem hann söng sjálfur. Nokkur laganna nutu vinsælda um sumarið og hafa orðið síðar að sígildum Stuðmannalögum, hér má nefna Í háttinn klukkan átta, Betri tíð, Bara ef það hentar mér og Leysum vind. Þá birtist einnig gamall hálfgildings Stuðmaður sem gestasöngvari á plötunni, sjálfur Flosi Ólafsson sem lagði til texta og söngrödd í laginu Fiddi bátsmaður og Birna sprettur. Platan fékk þó nokkuð misjafna dóma, t.a.m. fremur slaka í Degi, þokkalega í DV en góða í tímaritinu Þjóðólfi, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum en sveitin þótti vera að nálgast „fyrri Stuðmenn“ á nýjan leik með þessari plötu.
Stuðmenn fór mikinn á dansleikjum í júlí og ágúst og um verslunarmannahelgina steig sveitin á stokk í Húnaveri ásamt Strax, Bubba Morthens, Síðan skein sól, Nýdanskri og fleirum. Sveitin lék þetta sumar undir þeim formerkjum að um miðnæturtónleika væri að ræða og því bæri henni ekki að greiða virðisaukaskatt af skemmtunum sínum enda væri enginn greinarmunur á því að leika á tónleikum og dansleikjum, hið opinbera var ekki sammála þessari túlkun Stuðmanna þótt sveitin fengi undanþágu t.d. um verslunarmannahelgina og í hönd hófst styrjöld milli sveitarinnar og norðlenskra sýslumanna sem náði hámarki sumarið 1990 þegar sýslumaðurinn í Skagafirði breytti tónleikaleyfinu í dansleikjaleyfi á meðan „miðnæturtónleikunum“ stóð. Heilmikil blaðaskrif og umræða fór fram um þetta mál og sýndist sitt hverjum.
Stuðmenn spiluðu eitthvað fram á haustið 1989 en fóru þá í pásu, sveitin lék þó eitthvað á höfuðborgarsvæðinu í desember og fram á nýtt ár. Ekki var um heilt gróið milli Stuðmanna og Valgeirs og síðla árs hafði birst viðtal við hann í DV þar sem fyrirsögninni „Sumir hætta að reykja, ég hætti í Stuðmönnum“ var slegið upp, nokkuð víst er að þessi fyrirsögn hefur farið illa í hljómsveitina og einhver slík skot fóru manna í millum í gegnum fjölmiðla.
Eftir nokkurra mánaða pásu komu Stuðmenn enn fram á sjónarsviðið um vorið 1990 en þá kom sveitin fram á tónleikum í Borgarleikhúsinu í tilefni af sextugs afmæli Vigdísar Finnbogadóttur forseta, í kjölfarið hófst sumartúr sveitarinnar sem að þessu sinni var nokkuð í skugga stríðsins við skattayfirvöld en Jakob kallaði túrinn krossför gegn skattheimtu hins opinbera, hátt í þrjátíu miðnæturtónleikar voru því haldnir víða um land þetta sumar og hápunktinum var svo náð í Húnaveri um verslunarmannahelgina.
Plata kom einnig út þetta sumar en hún hafði verið hljóðrituð um vorið, hún bar titilinn Hve glöð er vor æska og hafði að geyma stórsmellinn Ofboðslega frægur sem margir voru fljótir að tengja við Valgeir Guðjónsson, þ.e. að texti lagsins væri um hann. Líklega var það ekki meinið en Stuðmenn gerðu þó lítið til að leiðrétta málið, einhverjir hafa talað um að Megas sé sá sem rætt er um í textanum. Nokkur önnur lög plötunnar fengu útvarpsspilun s.s. Sumar í Reykjavík, Berum út dívanana og Brattabrekka en platan telst líklega ekki meðal þekktustu skífna sveitarinnar, Þórður var nú orðinn afkastamestur textasmiða Stuðmanna. Hve glöð er vor æska fékk prýðilega dóma, ágæta í Morgunblaðinu, DV og tímaritinu Þjóðólfi og mjög góða í Þjóðviljanum.

Hljómsveit allra landsmanna 1997
Eftir þess sumarvertíð árið 1990 hægðist heldur betur um hjá sveitinni en Jakob og Ragnhildur fluttust þá tímabundið til Akureyrar og um vorið 1991 bauðst Jakobi sendifulltrúastaða í London tímabundið og fluttu þau Ragnhildur utan í kjölfarið, síðar gegndi hann stöðu menningarfulltrúa Íslands í Bretlandi og bjuggu þau hjónin í London til ársins 1999. Eðli málsins samkvæmt starfaði sveitin lítið næstu árin enda var Stuðmannavélin einkum knúin af drifkrafti Jakobs. Stuðmenn komu samt sem áður saman um verslunarmannahelgina 1991 í Húnaveri og lék einnig eitthvað í einkasamkvæmum það sama ár og við sérstök tilefni s.s. þegar nýr þjóðbúningur karla var frumsýndur á Hótel Borg vorið 1994, en sendi ekkert nýtt efni frá sér næstu árin og reyndar litu flestir svo á að sveitin væri hætt störfum – Egill lét t.d. hafa það eftir sér en hann sendi frá sér tvær sólóplötur og eina dúettaplötu á næstu árum, Ásgeir gaf út sína fyrstu sólóplötu og músíkalska parið í Bretlandi sendi frá sér plötur undir nöfnunum Human body orchestra og Ragga and the Jack magic orchestra, auk þess sem Ragnhildur sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu þannig að ekki er hægt að segja að Stuðmenn hafi setið auðum höndum þótt sveitin væri ekki starfandi.
Landsmenn voru minntir á Stuðmenn með reglulegum hætti, t.d. voru Sumar á Sýrlandi og Tívolí endurútgefnar árið 1992 og þá í fyrsta sinn á geisladisk, og haustið 1993 kom út safnplata sem bar einfaldlega nafnið Stuðmenn, sú útgáfa þótti þó fremur snubbótt hvað lagaval varðaði og upplýsingar takmarkaðar í bæklingnum sem fylgdi.
1997 varð tímamótaár í sögu Stuðmanna því sveitin hóf þá störf aftur eftir svo gott sem sex ára samfleytt hlé, hið lengsta í sögu sveitarinnar. Samstarfið hófst þegar sveitin kom saman á 30 ára afmæli Menntaskólans við Hamrahlíð, þ.e. allir nema Valgeir, og í kjölfarið sendi hún frá sér nýtt lag síðsumars sem hlaut nafnið Ærlegt sumarfrí. Plata með sama nafni kom út í beinu framhaldi með undirtitilinn „Grái fiðringurinn í góðu geimi“ en það voru einmitt titlar platnanna tveggja frá 1983 og 85 sem aldrei höfðu komið út á geisladisk þannig að um safnplötu var að ræða með einu nýju lagi, á sama tíma kom svo Kókostré og hvítir mávar (frá 1984) út á cd-formi. Lagið Ærlegt sumarfrí náði nokkrum vinsældum og sveitin lék á Hótel Íslandi fyrir troðfullu húsi um haustið og þar steig enginn annar en Valgeir Guðjónsson á stokk með henni. Þetta kveikti neistann í Jakobi sem ræsti vélina svo um munaði og næsta ár á eftir var margt á döfinni hjá hljómsveit allra landsmanna.
Um haustið 1997 hafði Árni Harðarson stjórnandi karlakórsins Fóstbræðra sett sig í samband við Jakob með þá hugmynd að halda sameiginlega tónleika kórsins og Stuðmanna, Magnús Guðmundsson faðir Jakobs hafði verið í Fóstbræðrum á sínum tíma (og reyndar einnig Fjórtán Fóstbræðrum) svo Jakob þekkti ágætlega til starfsins þar. Úr varð að kórinn og sveitin hófu æfingar og efndu síðan til sameiginlegs tónleikahalds í Háskólabíói snemma árs 1998. Hugmyndin mæltist það vel fyrir að uppselt var á tónleikana enda um stórviðburð að ræða, og svo einnig á nokkra tónleika í viðbót, þar söng kórinn nokkur af lögum Stuðmanna auk hefðbundinna karlakóralaga í útsetningum Árna við undirleik og flutning sveitarinnar, tíu manna blásarasveitar, píanóleikara og nokkurra einsöngvara. Tónleikarnir voru hljóðritaðir og svo gefnir út á geisladisk og myndbandi um vorið undir nafninu Íslenskir karlmenn. Platan rétt eins og tónleikarnir sló í gegn og seldist í um 25 þúsund eintökum, hún hlaut jafnframt þokkalega dóma í DV og ágæta í Degi.

Stuðmenn með augum Gunnars Karlssonar 1998
Tónninn var sleginn og Stuðmenn voru komnir af stað á nýjan leik og lék nú á nokkrum skólaböllum fram á vorið.
Fljótlega eftir síðustu Fóstbræðratónleikana (í mars) höfðu Stuðmenn haldið til London þar sem Jakob og Ragnhildur bjuggu ennþá (en þau voru þá um það leyti að skilja) og þar var plata með nýju efni tekin upp sem og hér heima á Íslandi. Forsmekkinn af henni mátti heyra á fjögurra laga smáskífu sem bar einfaldlega heitið Ep+ og kom út um vorið um það leyti sem sveitin var að leggja í sumartúr. Á plötunni voru m.a. lögin Ég er bara eins og ég er og Við hér í sveitinni sem voru nokkuð vinsæl í sumarbyrjun en lögin fjögur voru einnig instrumental á skífunni auk þess sem ýmis konar margmiðlunarefni var að finna á henni.
Þó svo að dansleikjamenningin hefði tekið nokkrum breytingum frá því Stuðmenn voru síðast á ferð snemma á tíunda áratugnum var nokkuð vel mætt á böll sveitarinnar um sumarið, þar fyrir utan lék sveitin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Reyndar gekk sá orðrómur þetta sumar um að Rolling stones væru á leiðinni til landsins og að Stuðmenn myndu hita upp fyrir þá en eins og kunnugt er var enginn fótur fyrir þeim orðrómi og nokkuð víst er að sú sveit kemur ekki hingað til lands úr þessu.
Breiðskífan kom svo út um haustið 1998 og bar titilinn Hvílík þjóð, skífan var tólf laga og á henni voru nokkur lög sem urðu vinsæl síðla árs s.s. Splunkunýtt lag, Þú manst aldrei neitt og Hverjum kemur það við? til viðbótar við áðurnefnd lög af smáskífunni. Þórður var sem fyrr öflugur í textagerðinni en sveitin naut einnig aðstoðar hljómborðs- og slagverksleikarans Eyþórs Gunnarssonar við útsetningar og hljóðfæraleik á plötunni og svo fór að hann gekk til liðs við sveitina og starfaði með henni með hléum í framhaldinu, þ.e. þegar hann var ekki upptekinn í öðrum verkefnum eins og með hljómsveitinni Mezzoforte. Stuðmenn léku fram að jólum og Eyþór lék með sveitinni þegar platan var kynnt en aðrir liðsmenn sveitarinnar voru Jakob, Ragnhildur, Tómas, Egill, Þórður og Ásgeir. Hvílík þjóð fékk ágæta dóma í Degi en fremur slaka í DV.
Stuðmenn fóru í nokkurra mánaða frí í byrjun árs 1999 og birtust á nýjan leik í apríl þegar sveitin lék á stórtónleikum sem Baugur stóð fyrir, þá voru Jakob og Ragnhildur flutt heim til Íslands. Um þetta leyti hafði komið upp sú hugmynd að stofna til umhverfisátaks og tengja dansleikjatúr Stuðmanna um sumarið við það, átakið hlaut nafnið Græni herinn og í kjölfarið tókst hljómsveitin á við ýmis hreinsunar- og gróðursetningarstörf á um tuttugu stöðum víðs vegar um landið og naut aðstoðar alls um 1500 sjálfboðaliða sem tókust á við verkefnin með meðlimum sveitarinnar, ýmis fyrirtæki og stofnanir lögðu verkefninu lið en alls tók það um sextán vikur og varð mun stærra en ætlað var í upphafi. Þannig var ræst af stað snemma á morgnana og unnið við átakið fram undir kvöld þegar dansleikirnir tóku við, það var því ekki að furða þótt sumarið 1999 tæki sinn toll af Stuðmönnum en þeir voru með auka skemmtikrafta með sér til að dreifa álaginu, þeirra á meðal voru áðurnefndur Addi rokk og Úlfur skemmtari (Úlfur Eldjárn). Sveitin sendi frá sér nýtt lag – Komdu með, í byrjun sumars á safnplötunni Svona er sumarið ´99 sem var þá í leiðinni hvatningarsöngur til fólks að vera með í Græna hers-átakinu. Lagið heyrðist því víða spilað á viðkomustöðum sveitarinnar um sumarið, m.a. í Hrísey þar sem sveitin var að leika í fyrsta sinn, og naut það töluverðra vinsælda. Stuðmenn hlutu reyndar óvenju góða kynningu og auglýsingar þetta sumar því sjónvarpsþættir voru gerðir í kringum Græna herinn og voru sýndir á besta útsendingatíma Ríkissjónvarpsins. Um verslunarmannahelgina léku Stuðmenn á þjóðhátíð í Eyjum sem svo oft fyrr þar sem sveitin mun hafa spilað til rúmlega átta á mánudagsmorgninum.
Stuðmenn fóru í stutt hlé um haustið til að hlaða batteríin fyrir aldamótin en sveitin hafði bókað Laugardalshöllina með löngum fyrirvara til að tryggja sér húsið fyrir risa aldamótadansleik, þangað mætti auðvitað fjölmenni. Í kringum aldamótin var alls kyns aldamótauppgjör í gangi eins og vera ber og voru Stuðmenn þar víða á listum, til að mynda var sveitin kjörin ballsveit aldarinnar á stórri uppgjörshátíð sem haldin var í Háskólabíói.

Stuðmenn undir lok aldarinnar
Stuðmenn lokuðu 20. öldinni með glans í Laugardalshöll en þegar ný öld gekk í garð dró sveitin sig í hlé um tíma, Jakob sinnti umhverfismálum af fullum krafti og Jakob, Ragnhildur, Egill og Ásgeir sinntu einnig sólóverkefnum sínum og gáfu út plötur næstu árin. Tvennt varð hins vegar til að minna á Stuðmenn þetta ár, annars vegar kom út um vorið 2000 „tribute“ plata þar sem ýmist þekkt tónlistarfólk og hljómsveitir heiðruðu kvikmyndina Með allt á hreinu með flutningi á lögum úr myndinni með sínum hætti en platan hlaut heitið Með allt á hreinu: óður til kvikmyndar, reyndar hafði láðst að nefna þetta við Stuðmenn en nokkur laganna urðu vinsæl um sumarið og þeirra á meðal var lagið Æði sem Skítamórall flutti á plötunni en það hafði aldrei komið út á plötu með Stuðmönnum. Og hins vegar kom út ljósmyndabók Þórarins Óskars Þórarinssonar (Agga), Í bláum skugga en hann hafði fylgt sveitinni eftir á dansleikjum árin á undan. Bókinni sem jafnframt var textasafn sveitarinnar frá upphafi og fram á þann dag, fylgdi einnig geisladiskurinn Mímósa: ástarkveðja frá Íslandi en á honum var að finna sjö Stuðmannalög leikin á skemmtara, engar upplýsingar er að finna um flytjendur efnisins á disknum en hér er giskað á að Úlfur Eldjárn (Úlfur skemmtari) eigi þar hlut að máli en Kristján Eldjárn bróðir hans og Árni Þórarinsson rituðu inngangsorð að bókinni.
En auðvitað kom að því fyrr en síðar að Stuðmenn yrðu ræstir á nýjan leik, það gerðist undir lok ársins 2000 þegar sveitin kom fram í dagskrá tileinkaðri Andreu Jónsdóttur útvarpskonu og í hönd fór líklega samfelldasta starfstímabil sveitarinnar þótt ekki væri það endilega það gjöfulasta eða farsælasta. Sveitin hóf svo almennilega leik í febrúar 2001, lék á nokkrum skólaböllum fram á vorið og síðan almennum dansleikjum um sumarið, m.a. vortónleikum á Broadway og á hinni alræmdu Eldborgarhátíð um verslunarmannahelgina. Sveitin spilaði því töluvert þetta ár og m.a. tróð leikarinn Stefán Karl Stefánsson upp með henni í forföllum Egils Ólafssonar en Stefán Karl hafði einmitt sungið hlutverk Sigurjóns digra með hljómsveitinni Landi og sonum á heiðursplötunni Með allt á hreinu sumarið á undan. Stefán Karl átti síðar eftir að koma fram oftsinnis með Stuðmönnum jafnvel þótt Egill væri nærstaddur.
Stuðmenn sendu ekki frá sér nýtt efni árið 2001 en hins vegar kom um haustið út vegleg tvöföld safnplata frá Íslenskum tónum undir nafninu Tvöfalda bítið, á henni var að finna alls fjörutíu lög og þeirra á meðal voru tvö gömul lög, Með allt á hrein (titillagið úr samnefndri mynd) og Heví metal maður en bæði lögin voru þó nýhljóðrituð í tilefni útgáfu safnplötunnar, fyrrnefnda lagið var svo notað í auglýsingaherferð Íslandsbanka um svipað leyti. Í fyrsta sinn kom nú út alvöru safnplata með Stuðmannalögum, sem sveitin lagði blessun sína yfir en menn höfðu ekki verið að fullu sáttir við þá sem kom út 1993, mönnum reiknaðist til á þessum tíma að sveitin hefði sent frá sér um hundrað og fimmtíu lög á plötum.
Sveitin lék töluvert um haustið og um það leyti fór hún í fyrsta og alls ekki síðasta skipti til Þýskalands til að leika fyrir þarlent fólk en áhugi hafði kviknað þar í landi fyrir sveitinni eftir að þýsk blaðakona Claudia J. Koestler kynntist henni hér heima og gerðist í kjölfarið umboðskona sveitarinnar í Þýskalandi. Sveitin spilaði í nokkur skipti víðs vegar um Þýskaland á næstu árum af því er virðist við ágætan orðstír, m.a. á fyrri hluta árs 2002 en þá um vorið var sveitin heiðruð á 70 ára afmæli FÍH. Það ár fór sveitin ekki á fullt við spilamennsku hér heima fyrr en um sumarið, spilaði þá á fáum en stórum dansleikjum víðs vegar um landið (var t.d. í Galtalæk um verslunarmannahelgina og á Gay pride hátíðinni í Reykjavík síðsumars) og sendi frá sér lagið Hvernig sem ég reyni á safnplötunni Svona er FM sumarið 2002 – það lag fékk einhverja útvarpsspilun en telst tæplega til sígildra smella sveitarinnar, einnig áttu Stuðmenn efni á safnplötunni Eldhúspartý FM 957: lævogönplöggd.
Í byrjun október héldu Stuðmenn tvenna stórtónleika í Þjóðleikhúsinu ásamt fjölda aðstoðarhljóðfæraleikara og söngtríóinu Borgardætrum auk þess sem Valgeir kom nú fram með sveitinni í fyrsta sinn til fjölda ára. Tónleikarnir voru haldnir fyrir fullu húsi en selst hafði upp á þá á örskammri stund án þess að lagt hefði verið í einhverja sérstaka auglýsingaherferð. Þar flutti sveitin fjölda laga sem hún hafði ekki endilega haft á ballprógramminu hingað til s.s. Á skotbökkum, Reykingar og Láttu mig gleyma, þá voru einnig flutt sex ný lög og þeirra á meðal voru lög eftir Tómas bassaleikara og Ásgeir trymbil en þeir höfðu ekki verið áberandi lagasmiðir innan sveitarinnar. Eitt nýju laganna, Manstu ekki eftir mér sló rækilega í gegn þegar plata með upptöku frá tónleikunum kom út fyrir jólin en það lag kom síðan fyrir í kvikmyndinni Stella í framboði. Platan sem var átján laga og bar nafnið Stuðmenn á stóra sviðinu: Þjóðleikhúsið 1. og 2. október 2002 fékk ágæta dóma í Fókusi og Morgunblaðinu og þokkalega í tímaritinu Sándi.

Stuðmenn 2002
Í kjölfarið lék sveitin eitthvað áfram á dansleikjum um veturinn og nokkuð samfleytt fram á vorið 2003 en þá kom út nýtt lag, Halló, halló, halló á samnefndri sumarsafnplötu en þar var jafnframt að finna gamla smellinn Tívolí í nýrri útgáfu. Halló-lagið náði nokkrum vinsældum um sumarið en sveitaballamarkaðurinn var nú vart nema skugginn af því sem hann var áður og því léku Stuðmenn aðeins á fáum slíkum böllum og voru bæjarhátíðirnar fyrirferðamestar tengt þeirri spilamennsku en um verslunarmannahelgina komu Stuðmenn fram á Akureyri og í Neskaupstað.
Þarna um sumarið 2003 spurðist út að sveitin hefði fengið styrk úr kvikmyndasjóði og að fyrirhugað væri að gera þriðju Stuðmannamyndina, að þessu sinni yrði róið á sömu mið og í Með allt á hreinu, þ.e. sama uppleggið – sama hljómsveitin og sömu persónurnar en tuttugu árum síðar. Myndin hafði þá þegar hlotið nafnið Í takt við tímann og samhliða spilamennsku um sumarið var kvikmyndafyrirtækið Bjarmaland endurreist og vann sveitin að undirbúningi fyrir myndina, sem ráðgert væri að yrði frumsýnd árið 2004 eða 05.
Sveitin var vel virk síðsumars, lék m.a. á Arnarhóli á Menningarnótt og nokkuð óvænt kom svo út plata um haustið en hún hafði verið hljóðrituð eftir vinnuferð á Búðum á Snæfellsnesi. Platan, tólf laga bar titilinn Stuðmenn á Hlíðarenda og hafði sveitin lítinn tíma til að fylgja henni eftir því hún var þá komin á fullt í kvikmyndatökur, og fór m.a. til Kaupmannahafnar til að taka upp senu fyrir myndina, þar sem hún lék í Tívolíinu fyrir um þúsund manns – mest Íslendinga sem keyptu pakkaferðir í röðum til að sjá Stuðmenn í Köben. Upp seldist á tónleikana á mettíma og hefði auðveldlega verið hægt að bæta við tónleikum, slík var ásóknin í miða. Stuðmenn á Hlíðarenda hlaut varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu og lögin á henni hafa ekki lifað nema e.t.v. Hef ég heyrt þetta áður en einnig voru á henni lög sem áður höfðu komið út á safnplötum.
Árið 2004 var haldið áfram við gerð myndarinnar og samhliða þeirri vinnu var einhver spilamennska einnig, Þýsklands-verkefnið hafði undið nokkuð upp á sig og var nú orðið stærra en mönnum óraði nokkru sinni fyrir, svo fór að lokum að eins konar safnplata með Stuðmönnum kom út í Þýskalandi en þar í landi mun sveitin hafa gengið undir nafninu Gaudiburschen (sem er lausleg snörun á Stuðmannahugtakinu), platan fékk nafnið Six Geysirs & a bird / Sechs Geyser und ein Vogel og var gefin út af BMG þar í landi, hún innihélt fjórtán Stuðmannalög frá ýmsum tímum sem ýmist voru sungin á íslensku, þýsku, ensku eða frönsku. Um það leyti sem platan var að koma út voru nokkrir þýskir blaðamenn staddir hér á landi sem óskuðu eftir að fá að sjá Stuðmenn á sviði, það var þó ekki gerlegt þar sem sveitin var umrætt kvöld að leika í einkasamkvæmi (árshátíð lögfræðinga) – því var brugðið á það ráð að Stuðmenn fengu að hita upp fyrir hljómsveitina Í svörtum fötum sem sama kvöld voru að leika á dansleik í NASA við Austurvöll og mun það vera í fyrsta og eina skiptið sem Stuðmenn hafa hitað upp fyrir einhverja aðra sveit. Og svo fór að sveitin fór enn eina ferðina til Þýskalands til að sinna þeim markaði, sem reyndar seinkaði tökum á Í takt við tímann.

Stuðmenn 2003
Annars voru Stuðmenn önnum kafnir við ballspilamennsku um sumarið en auk almenns dansleikja- og bæjarhátíðaspils lék sveitin einnig á Landsmóti UMFÍ og Vopnaskaki, og svo á Neistaflugi um verslunarmannahelgina, þá sömu helgi lék sveitin í fyrsta sinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardalnum fyrir 17-20 þúsund manns en það átti hún eftir að gera margoft næstu árin og við miklar vinsældir. Sérstakur gestur kom fram með sveitinni í Laugardalnum en það var enginn annar en Long John Baldry sem hafði sungið She broke my heart með sveitinni á Sýrlandsplötunni árið 1975. Stuðmenn sendu frá sér eitt lag (Skál) um sumarið sem kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2004 en það var eitt laganna úr myndinni og bar undirtitilinn Ottó vann í lottó.
Auk enn einnar Þýskalands ferðarinnar var ferðinni einnig heitið til Rússlands til að taka upp senu fyrir kvikmyndina, nánar til tekið til St. Pétursborgar, þetta var auðvitað bara stutt vinnuferð en á þeim stutta tíma sem sveitin dvaldist í borginni urðu þau vör við að byrjað var að selja sjóræningja-útgáfur (bootlegs) af plötum þeirra strax daginn eftir að þeir seldu eintök af plötum sínum þar (sem þeir höfðu haft meðferðis), þar var ekki borin mikil virðing fyrir höfunda- og útgáfurétti.
Platan með tónlistinni úr myndinni kom út fyrir jólin 2004 undir nafninu Í takt við tímann, á henni voru alls sautján lög sem mörg hver fengu að hljóma í útvarpi áður en myndin var svo frumsýnd á annan í jólum. Við frumsýningu myndarinnar var Jakob bjartsýnn og talaði um að þau vildu gera fleiri myndir og eftirvænting var nokkur enda hafði Með allt á hreinu fyrir löngu síðan plantað sér rækilega í þjóðarsálina þótt vissulega gerðu menn ekki ráð fyrir að toppa það verkefni. Blaðamenn voru aukinheldur duglegir að rifja upp sögu sveitarinnar, sigra hennar og átökin innan hennar enda var löngu ljóst að Valgeir kæmi ekkert við sögu hinnar nýju myndar – þá giskaði blaðamaður á í úttekt á sveitinni að hún hefði leikið u.þ.b. tólf hundruð sinnum síðan hún hóf störf.
Sem fyrr segir átti nýja myndin að gerast um tveimur áratugum eftir að fyrri myndinni lauk og hverfðist um samband þeirra Hörpu Sjafnar (Ragnhildar) og Kristins (Egils) en einnig lék Höskuldur Ólafsson (Quarashi) stórt hlutverk í myndinni, aðrir Stuðmenn léku einnig í henni sem og Eggert Þorleifsson í hlutverki Dúdda eins og áður en nýr liðsmaður Stuðmanna, Eyþór Gunnarsson sem þarna hafði leikið nokkuð með sveitinni síðustu árin kom ekkert fyrir í henni en kom þó að tónlistinni. Fjölmörgum leikurum, tónlistarfólki og öðru þekktu fólki brá fyrir í myndinni í ýmsum aukahlutverkum.
Í takt við tímann hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda og bíógesta þótt ekki væru þær í líkingu við Með allt á hreinu, aðsóknin var auðvitað bara brot af því sem fyrri myndin fékk og ósanngjarnt að ætla að bera þær saman en um 30 þúsund manns höfðu séð hana í lok febrúar 2005 og sú tala átti eftir að hækka upp í 35 þúsund. Platan hlaut jafnframt góðar viðtökur en hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og í Popplandi á Rás 2, lagið Fönn, fönn, fönn, Látum það vera, Afi minn og amma mín og titillagið Í takt við tímann fengu ágæta útvarpsspilun og nutu vinsælda.

Stuðmenn 2005 ásamt Hildi Völu
Fleiri stór verkefni voru handan við hornið því að Stuðmenn héldu tónleika í Royal Albert Hall í London um miðjan mars og á þá mættu um þrjú þúsund gestir sem flestir voru auðvitað Íslendingar, á þeim tíma má segja að „góðærið“ fyrir hrun hafi verið að ná hámarki og Stuðmenn komu fram á mörgum árshátíðum og einkasamkvæmum sem stórfyrirtæki héldu jafnan erlendis. Tónleikarnir í Royal Albert Hall voru síðan gefnir út á dvd-diskum en ekki finnast heimildir um að tónlistin hafi verið gefin út sérstaklega á geisladisk.
En blikur voru á lofti og kannski var álagið orðið of mikið, mikil vinna síðustu árin við stórtónleika- og dansleikjahald, plötuupptökur, kvikmyndagerð og ferðalög tengt þessu öllu hafði e.t.v. magnað upp óánægju innan sveitarinnar eða að sveitarliðar vildu prófa eitthvað nýtt. Alltént sagði Ragnhildur skilið við Stuðmenn að tónleikum í Royal Albert Hall loknum og um svipað leyti magnaðist sá orðrómur að Egill væri ekki sáttur en sá orðrómur fékk byr undir báða vængi þegar þeim Þórði gítarleikara lenti saman á sviði í Bolungarvík, hvort sem um álag eða aðrar ástæður að ræða. Fljótlega var skarð Ragnhildar í Stuðmönnum fyllt en það gerði kornung söngkona, Hildur Vala Einarsdóttir en hún hafði þá nýverið sigrað fyrstu Idol söngvarakeppnina sem hafði verið vinsælt sjónvarpsefni á Stöð 2, hún kom inn í sveitina um miðjan apríl og fljótlega var hún drifin í hljóðver með Stuðmönnum þar sem lagið Segðu já var tekið upp og kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2005. Hildur Vala söng því með sveitinni á dansleikjum sumarsins en átti ekki heimangengt þegar sveitin fór til Ítalíu og lék þar í þýskum sjónvarpsþætti en Stuðmenn voru þá enn að gæla við heimsfrægð í Þýskalandi, Bryndís Ásmundsdóttir og Björn Jörundur Friðbjörnsson komu fram með sveitinni í þeim sjónvarpsþætti.
Jakob var brattur og bjartsýnn sem fyrr og var með plön um að Stuðmenn myndu standa fyrir ferð til Sýrlands sumarið 2006 og myndu halda þar tónleika en um þetta leyti yrðu þrjátíu ár liðin frá því að platan Sumar á Sýrlandi kæmi út, þetta var hugsað sem ferð í anda þeirrar sem boðið var upp á í Royal Albert Hall og hafði Jóhanna Kristjónsdóttir verið ráðin til að vinna í þessu fyrir sveitina. Sýrlandsferðin var þó aldrei farin og komst aldrei á það stig að verða formlega auglýst þannig að ekki liggur fyrir hvort mörg hundruð Íslendingar hefðu keypt Stuðmannaferð til Damaskus höfuðborgar landsins.
Um verslunarmannahelgina 2005 léku Stuðmenn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum líkt og árið á undan og þar kom Valgeir Guðjónsson fram með sveitinni, og reyndar kom upprunaleg útgáfa sveitarinnar fram opinberlega í fyrsta sinn síðan á árshátíðinni frægu í MH 1970 (en hafði reyndar komið fram í afmælisveislu árið 2004), þeir Valgeir, Jakob, Gylfi Kristinsson og Ragnar Danielsen komu nú fram fyrir 8000 gesti í Laugardalnum undir nafninu Frummenn og áttu reyndar eftir að starfa um tíma undir því nafni í framhaldinu og gefa út plötu með frumsömdu efni.
Stuðmenn spiluðu fram á haust en drógu sig nokkuð í hlé um það leyti enda hafði Hildur Vala einungis verið ráðin yfir sumartímann þannig að söngkonumálin voru enn óleyst, Bryndís Ásmundsdóttir var eitthvað að koma fram með sveitinni en einnig kom upp sú hugmynd að Stuðmenn yrðu kvenmannslausir. Það var því ekki að furða þótt sá kvittur kæmi enn og aftur upp um að sveitin væri að hætta störfum.
Þarna voru sem fyrr segir liðin þrjátíu ár frá útgáfu Sumars á Sýrlandi og um haustið kom út viðhafnarútgáfa af plötunni hlaðin aukaefni, sem voru lögin fjögur af smáskífunum sem komu út fyrst og höfðu aldrei verið gefin út á geisladiski, auk tveggja laga af Tórt verður til trallsins (sem fylgdi Stuðmannabókinni 1983), þá voru einnig þrjú lög frá tónleikunum í Royal Albert Hall á plötunni sem bar titilinn Sumar á Sýrlandi: 30 ára afmælisútgáfa. Sams konar afmælisútgáfa kom út árið eftir af plötunni Tívolí með sambærilegu aukaefni. Fyrir jólin 2005 komu svo fyrrnefndir tónleikar sveitarinnar í Royal Albert Hall út á dvd en þar var einnig að finna aukaefni s.s. frá tónleikunum í Tívolí í Kaupmannahöfn 2003 og tónleikunum í Þjóðleikhúsinu 2002.

Stuðmenn 2006
Enn magnaðist bruðlið í þjóðfélaginu og Stuðmenn voru vinsælir þegar stórfyrirtækin vildu ráða vinsæla skemmtikrafta og gátu nánast sett upp hvaða verðmiða sem þeim sýndist, þannig hafði sveitin m.a. leikið fyrir 200 Íslendinga í Feneyjum og svo á árshátíð í Kaupmannahöfn í upphafi árs 2006, Egill fór ekki með í þá ferð en Valgeir fór í staðinn og einnig Birgitta Haukdal, Stefán Karl og Ellen Kristjánsdóttir (eiginkona Eyþórs), og þarna um veturinn var sveitin í raun bara starfrækt þegar stór verkefni komu í hendurnar á þeim, kannski mætti segja að þetta hafi verið eins konar stórhljómsveit Jakobs Magnússonar sem átti lítið skylt við Stuðmenn eins og þegar þeir voru upp á sitt besta en þó skipuð sama kjarnanum – Jakobi, Tómasi, Þórði, Ásgeiri og Valgeiri einnig um tíma. Sveitin sinnti sumarvertíðinni 2006 með nýjum söngvurum, Andrea Gylfadóttir hafði leyst söngkonuhlutverkið í upphafi árs og svo sungu Birgitta og Stefán Karl með sveitinni um sumarið og þá komu enn út safnplötulög, Á röltinu í Reykjavík sungið af Birgittu á Svona er sumarið 2006 og Ég á heima í Reykjavík á Pottþétt 40 en það var sungið af Stefáni Karli. Um verslunarmannahelgina lék sveitin bæði í Galtalæk og í Eyjum, og svo í Laugardalnum venju samkvæmt á sunnudagskvöldinu en þar komu ýmsar Stuðmannatengdar hljómsveitir fram – Spilverk þjóðanna (og Megas), Rifsberja, Þursaflokkurinn og Frummenn. Þegar haustaði tók Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir við sönghlutverkinu að einhverju leyti þegar Stefán og Birgitta hurfu á braut.
Stuðmenn störfuðu lítið um veturinn, léku þó auðvitað á stórum árshátíðum og einkasamkvæmum innan lands og utan þar sem Guðmundur Pétursson gítarleikari leysti Þórð af hólmi sem þá var við það að fá nóg af samstarfinu, og sveitin komu einnig lítillega við sögu á 90 ára afmælistónleikum karlakórsins Fóstbræðra í lok október en um það leyti var gert heyrinkunnt að Stuðmenn og Sálin hans Jóns míns myndu leika á enn einum stórtónleikunum í Cirkusbygningen í Kaupmannahöfn síðasta vetrardag í apríl 2007, þar kom fjöldi auka tónlistarmanna fram með sveitinni, Birgitta, Valgeir og Björgvin Halldórsson voru meðal þeirra en um tólf hundruð manns sóttu tónleikana, mest Íslendingar sem voru að gera vel við sig í anda góðærisins sem þarna var í hámarki.
Sumarið 2007 lék sveitin á nokkrum bæjarhátíðum, á Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina og svo í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, og á Arnarhóli á Menningarnótt. Birgitta Haukdal söng með sveitinni þetta sumar og Guðmundur Pétursson var nú orðinn fastur liðsmaður Stuðmanna í stað Þórðar sem var endanlega horfinn á braut. Það var því ekki nema von að ýmsir glottu þegar „hinir einu sönnu Stuðmenn“ voru auglýstir en í þá einu sönnu sveit vantaði oftar en ekki Ragnhildi, Þórð, Valgeir og Egil sem nú virtist einnig vera á útleið. Þar fyrir utan fjölluðu sumir fjölmiðlar orðið um sveitina með fremur neikvæðum hætti, hún ætti að þekkja sinn vitjunartíma, væri löngu orðin úr takti við tímann og í þá áttina – það breytir því þó ekki að sveitin skemmti enn kynslóðum fólks eldri en 35 ára og flestir hinna yngri þekktu einnig gömlu lögin sem þeir höfðu alist upp við og því var ekkert eðlilegra en að Stuðmenn mjólkuðu markaðinn eins og hægt var.

Stuðmenn og Bryndís Jakobs
Einn stakur viðburður síðsumars 2007 varð til þess að upp úr sauð í Stuðmönnum og margir aðdáendur sveitarinnar fengu þá einnig nóg, Kaupþing bauð þá til stórtónleika á Laugardalsvellinum þar sem megnið af vinsælustu hljómsveitum landsins tróð upp fyrir tugi þúsunda gesta sem mættu í Laugardalinn, tölur þar voru eitthvað á reiki en talað var um að áhorfendur hefðu verið á bilinu 25 til 50 þúsund talsins. Stuðmenn, gítarleikara- og söngkonulausir stigu síðastir á svið íklæddir búningum sem einhver blaðamaðurinn vildi meina að minnti helst á einkennisbúninga nasista. Þeir voru eingöngu vopnaðir hljóðgervlum og rafmagnstrommusetti og fluttu tónlist sína þannig, uppstillt eins og þýska sveitin Kraftwerk. Uppákoman fékk vægast sagt misjöfn viðbrögð áhorfenda og þeir streymdu unnvörpum af svæðinu eftir örfá lög. Björgvin Halldórsson tók eitt lag með sveitinni og var hann kynntur inn á sviðið sem Gesta-Bó, það var því nokkuð eðlilegt að fólki brygði í brún.
Egill hætti í kjölfarið, Þórður var hættur og Ragnhildur var hætt, Valgeir kom stöku sinnum fram með Stuðmönnum en Jakob, Ásgeir og Tómas skipuðu sveitina undir stjórn þess fyrst talda (sem mun eiga réttinn á nafninu) og sóttu sér aðstoð eftir þörfum næstu vikurnar, Guðmundur Pétursson lék á gítar og söngkonurnar Birgitta Haukdal og jafnvel Ragnheiður Gröndal önnuðust kvensönginn það sem lifði árs.
Skipan sveitarinnar var með svipuðum hætti árið 2008 en hún var ekki áberandi það árið og birtist ekki almenningi fyrr en í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um verslunarmannahelgina, eitthvað var þó verið að vinna í nýju frumsömdu efni en fleiri spurðu sig hvort Stuðmenn væru yfirhöfuð enn starfandi þegar jafnvel Egill væri horfinn á braut, – um það leyti virtust þeir Egill og Jakob tjá sig meira í gegnum fjölmiðla en maður á mann.
Um haustið 2008 tók Concert yfir umboðs- og kynningarmál Stuðmanna en nánast á sama tímapunkti skall „hin svokallaða kreppa“ á og í kjölfarið má segja að menningarviðburðir hafi verið settir að nokkru á ís í landinu. Stuðmenn léku þó eitthvað um veturinn, Jón Jósep Snæbjörnsson (Jónsi Í svörtum fötum) og Hara systur (Rakel og Hildur Magnúsdætur) komu fram með sveitinni en Stuðmenn komu m.a. fram á samstöðutónleikum í Laugardalshöll sem báru yfirskriftina Áfram með lífið, sem voru haldnir til að þjappa þjóðinni saman í kreppuástandinu. Guðmundur Pétursson og Eyþór Gunnarsson voru sem fyrr innan handar þegar þeir gátu auk Ómars Guðjónssonar gítarleikara, og Stefanía Svavarsdóttir hóf svo einnig að syngja með sveitinni en hún var einungis 16 ára gömul, ung og efnileg söngkona. Þess má geta að Egill og Valgeir héldu síðla árs tónleika saman, unnir fyrir útvarp þar sem þeir fluttu m.a. Stuðmanna-lög, og voru þá jafnvel í samkeppni við Stuðmenn þótt flutningurinn væri auðvitað gjörólíkur.
Á árinu 2009 kom sveitin fram í nokkur skipti þótt ekki væri hún mjög virk, Stefanía söng þá með sveitinni og einnig annar ungur og efnilegur söngvari, Eyþór Ingi Gunnlaugsson sem m.a. söng lag um Rúnar Júlíusson sem Stuðmenn fluttu á minningartónleikum um hann en Rúnar var þá nýlátinn, lagið bar heitið Rúnni Rúnni. Þá sendi sveitin einnig frá sér lag til stuðnings landsliðinu í handbolta, Samstaða til stuðnings en það fór ekki hátt og um sumarið kom enn eitt lagið frá Stuðmönnum, Við gefum skít í allt ruglið, eftir Valgeir sem kom svo fram með sveitinni m.a. í Laugardalnum um verslunarmannahelgina þar sem sveitin lék nú í sjötta sinn. Þetta sama ár sendu Stuðmenn svo frá sér smáskífu á netinu sem bar titilinn Icesave en þar syngur Jakob lagið á ensku – litlar sem engar upplýsingar er að finna um þessa skífu. Í viðtali sagði Jakob Stuðmenn vera að vinna að plötu sem myndi koma út á árinu 2009 en sú útgáfa leit aldrei dagsins ljós, nokkuð lög höfðu þó þá þegar verið hljóðrituð.
Nú fór í hönd um tveggja ára tímabil sem Stuðmenn virðast alls ekki hafa verið starfandi en þar með er ekki sagt að sveitin hafi ekki verið í sviðsljósinu, hún var t.a.m. heiðruð á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2011 fyrir framlag sitt til textasmíði en sveitin hefur alltaf þótt semja góða og skemmtilega texta. Um líkt leyti kom út bók Jakobs skráð af honum og Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur, Með sumt á hreinu, þar sem hann talar tæpitungulaust um Stuðmenn og sögu sveitarinnar. Og Stuðmenn birtust öllum á óvörum rétt fyrir jólin 2011 á skemmtistaðnum Ob-la-di Ob-la-da við Frakkastíg en þar var Tómas bassaleikari tónlistarstjóri. Valgeir Guðjónsson var þar bókaður með tónleika og þá birtust aðrir Stuðmenn skyndilega á sviðinu, svo skyndilega að jafnvel Valgeir vissi ekki af uppátækinu. Auk Tómasar, Jakobs og Ásgeirs voru Þórður og Egill með í för en Ragnhildur var upptekin og komst ekki. Hér hafði fríið og hvíldin hver frá öðrum greinilega gert mönnum gott.

Auglýsing fyrir Með allt á hreinu tónleika
Í kjölfarið risu Stuðmenn nokkuð öflugir upp frá dauðum og kombakk hófst, árið 2012 fagnaði Valgeir 60 ára afmæli og blásið var til tónleikaveislu þar sem Stuðmenn komu fram, tengt þeim tímamótum kom út þreföld ferilsafnplata með lögum Valgeirs – Spilaðu lag fyrir mig, og á henni voru Stuðmenn eðlilega fyrirferðarmiklir en af þeim sjötíu lögum sem á plötunni voru, voru um þrjátíu þeirra með Stuðmönnum.
Þá átti kvikmyndin Með allt á hreinu 30 ára afmæli á árinu einnig og í tilefni af því var blásið til afmælisveislu í Hörpu um haustið, þar voru fernir tónleikar á tveimur dögum haldnir fyrir fullu húsi og seldist á þá hratt og örugglega, þeir voru hljóðritaðir og svo gefnir út á geisladisk og dvd í kjölfarið undir titlinum Hinir einu sönnu Stuðmenn á stórtónleikum í Hörpu: Með allt á hreinu. Þórður gítarleikari var ekki með í þessari tónleikaveislu en aðrir Stuðmenn fóru þar á kostum ásamt ýmsum gestum, meðal þeirra voru Eggert Þorleifsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson og karlakórinn Fóstbræður. Það varð reyndar að fréttaefni hversu glaðir tónleikagestir voru á tónleikunum en fréttir þess efnis að miðaldra fólk hefði verið ælandi um alla Hörpuna, ælt yfir næstu sætaröð fyrir framan og að engu líkara væri en að þær kynslóðir væru aftur komnar í Atlavík um verslunarmannahelgi. Tónleikarnir sjálfir hlutu hins vegar almennt mjög góða dóma fjölmiðlafólks en sveitin frumflutti á þeim tvö ný lög.
Á sama tíma kom svo út viðhafnarútgáfa af tónlistinni úr myndinni undir nafninu Astralterta: Með allt á hreinu, afmælisgáfa en þar var á ferð þriggja platna útgáfa (fyrsta upplagið) – ein með tónlistinni endurhljóðblandaðri, önnur með aukefni – m.a. demó-upptökum og lögum sem heyrast í myndinni en höfðu ekki áður komið út á plötu, og svo í þriðja lagi dvd diskur með sjálfri myndinni. Platan fékk frábæra dóma í Fréttablaðinu og DV og ágæta einnig í Morgunblaðinu. Afmælisins var minnst með margvíslegum hætti hjá fjölmiðlum, Stöð 2 gerði heimildamynd um sveitina og Ríkisútvarpið flutti þáttaröð um hana einnig.
Stuðmenn voru aftur sameinaðir að mestu og hafði líklega verið tekin sú ákvörðun að spila takmarkað og mestmegnis á tónleikum, þannig kom sveitin saman sumarið 2013 og lék þá að líkindum nánast einvörðungu síðsumars, þ.e. á Þjóðhátíð og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um verslunarmannahelgina og svo á dagskrá Menningarnætur seinni partinn í ágúst, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina um það leyti. Ári síðar (haustið 2014) var svo blásið til tvennra tónleika í Hörpu þar sem Tívolí platan var heiðruð og Stuðmenn héldu svo dansleik að þeim loknum þannig að sveitin stóð á sviðum Eldborgar (og Silfurbergs á eftir) frá klukkan 19:30 til 3 um nóttina. Á þeim tónleikum voru allir meðlimir sveitarinnar með nema Þórður en Guðmundur Pétursson tók sæti hans, Valgeir og Sigurður Bjóla komu þar líka við sögu en prógrammið var ekki eingöngu bundið við Tívolí plötuna heldur var farið víðar um völl. Tónleikarnir voru svo gefnir út netrænt á Spotify plötu en hefur að öllum líkindum aldrei komið út efnislega. Sveitin fór einnig norður yfir heiðar og lék í Sjallanum á Akureyri, að öðru leyti fór lítið fyrir Stuðmönnum árið 2014 en Friðrik Karlsson leysti gítarleikarastöðuna þegar Guðmundur gat ekki verið með. Og Stuðmenn komu við sögu á fleiri plötum þetta haust því rokksveitin Grísalappalísa heiðraði sveitina með tveggja laga sjö tommu smáskífu þar sem lögin Strax í dag og Reykingar fengu að hljóma í þeirra eigin útsetningum, sem voru harla ólíkar upprunalegu útgáfunum.
Hljómsveitin fór enn á stjá sumarið 2015 og virtist það áðurnefnda fyrirkomulag að leika á fáum en stórum viðburðum henta sveitarmeðlimum prýðilega hvað samkomulag og álag snerti. Í júní léku Stuðmenn á þrennum Eldborgartónleikum í Hörpu í tilefni af 40 ára útgáfuafmæli plötunnar Sumar á Sýrlandi, hugmyndafræðin var svipuð og haustið á undan en leikin voru lög plötunnar og fyllt upp í með sígildum perlum úr safni sveitarinnar og leikþáttum með Dúdda (Eggerti Þorleifssyni), þá var myndbandi af Long John Baldry varpað á tjald þar sem hann söng She broke my heart, við undirleik Stuðmanna en söngvarinn breski hafði látist sumarið 2005, u.þ.b. ári eftir að hann tróð upp með Stuðmönnum í Laugardalnum. Sami háttur var hafður á með upptökur og útgáfu á tónleikunum og með Tívolí tónleikana haustið á undan, þ.e. gefnir út á Spotify en um sama leyti var platan Sumar á Sýrlandi endurútgefin á vínylplötuformi í tilefni 40 ára afmælisins. Allir Stuðmenn nema Þórður og Ragnhildur (sem var vant við látin) voru með á þessum viðburði en Ágústa Eva Erlendsdóttir söng í Ragnhildar stað og sló í gegn. Sveitin starfaði áfram um sumarið, kom fram á Tónaflóði Rásar 2 á Arnarhóli á Menningarnótt og svo á tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði og Gamla bíó undir yfirskriftinni Stuðmenn koma naktir fram (sem er skírskotun í lagið Slá í gegn, eins og flestir ættu að vita) en þar söng Bryndís Jakobs- og Ragnhildardóttir með sveitinni og þótti lík móður sinni, en Bryndís er eins og áður segir fyrsti hreinræktaði Stuðmaðurinn. Þess má og svo geta að fyrir jólin kom út bókin Egils sögur – á meðan ég man, eins konar ævisaga Egils Ólafssonar skráð af Páli Valssyni, í henni er eins og í bók Jakobs varpað ljósi á ýmislegt í sögu Stuðmanna en auðvitað frá öðrum sjónarhóli.

Stuðmenn í Eldborg 2020
Næstu árin á eftir fór minna fyrir Stuðmönnum og tónleikahald í Hörpunni var lokið – í bili að minnsta kosti. Sveitin kom þó fram stöku sinnum árið 2016, t.a.m. á Hammond-hátíðinni á Djúpavogi og á styrktartónleikum fyrir Stefán Karl sem þá glímdi við krabbamein (en hann lést sumarið 2018) en einnig lék sveitin á dansleik í Vestmannaeyjum og e.t.v. víðar, Bryndís söng nú orðið mest með sveitinni og virðist skipan sveitarinnar hafa verið nokkuð fastmótuð. Yfir vetrartímann lá sveitin í dvala en birtist aftur um vorið 2017 töluvert virkari, lék þá m.a. á toppi Úlfarsfells, Kótilettunni á Selfossi og á Secret Solstice hátíðinni svo dæmi séu nefnd. Og meðferðis var nýtt lag, Vorið (Vor fyrir vestan) sem Bryndís söng með sveitinni og varð það töluvert vinsælt í kjölfarið.
Og nokkuð óvænt sendu Stuðmenn frá sér plötu um haustið 2017 þótt um eiginlega plötu væri ekki að ræða, hún var í formi „kubbs“ – Astraltertukubbs og bar nafn trommuleikarans Ásgeirs Óskarssonar. Umbúðirnar voru því kubbur sem hægt var að opna og þá blöstu við fjórir pýramídar sem einnig voru opnanlegir en í þeim var að finna ýmsar upplýsingar um efni plötunnar, ljósmyndir, mungát, ilmefni, te og síðast en ekki síst upplýsingar um hvernig nálgast mætti tónlistina á tölvutæku formi (download kóða) – nýstárleg leið til að miðla tónlist en líklega ekki alveg hentug öllum. Vor fyrir vestan var á plötunni og tíu önnur lög en ekkert þeirra náði almennri hylli og telst Astraltertukubbur: Ásgeir Óskarsson líklega sú plata Stuðmanna sem minnsta athygli hefur vakið. Hún hlaut þó ágæta dóma í Popplandi Rásar 2.
Stuðmenn léku eitthvað um haustið til að fylgja plötunni eftir en í byrjun nýs árs 2018 bárust þær sorgarfregnir að bassaleikari sveitarinnar Tómas M. Tómasson væri látinn en hann hafði þá um tíma glímt við krabbamein. Fáeinum vikum síðar hlutu Stuðmenn heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og Samtóns fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar, og tileinkaði sveitin Tómasi þau verðlaun. Þá reistu vinir Tómasar honum minnisvarða í trjálundi norður í Svarfaðardal en sá lundur gengur undir nafninu Tómasarlundur.
Um þetta leyti var settur á fjalirnar söngleikur í Borgaleikhúsinu undir nafninu Slá í gegn, en hann var byggður á tónlist Stuðmanna. Það var síður en svo í fyrsta sinn sem tónlist Stuðmanna er römmuð inn í söngleik eða leikrit enda höfðu áhugamannaleikhús og nemendafélög grunn- og framhaldsskóla gert það oft áður með ágætum árangri, þetta var þó í fyrsta sinn sem svo stór sýning var smíðuð utan um lög Stuðmanna og sýnir e.t.v. fyrst og fremst á hvaða stall Stuðmenn eru.
Stuðmenn hættu ekki þótt Tómas væri fallinn frá og lifa að líkindum meðan Jakob lifir, og þegar voraði 2018 steig sveitin enn fram á sjónarsviðið og lék sem fyrr á ýmsum bæjarhátíðum og viðburðum eins og Secret Solstice, þá voru Stuðmenn á Neistaflugi og í Laugardalnum um verslunarmannahelgina auk þess að leika nokkuð í einkasamkvæmum sem aftur voru á uppleið eftir nokkra lægð. Þá héldu Stuðmenn upp á 100 ára afmæli fullveldis Íslands með tvennum tónleikum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu undir yfirskriftinni Stuðmenn í öllu sínu fullveldi. Sveitin var nú skipuð þeim feðginum Bryndísi og Jakobi, Valgeiri, Ásgeiri og Agli, Guðmundi á gítar og við hlutverki Tómasar hafði bassaleikarinn Ingibjörg Elsa Turchi tekið en hún hefur verið bassaleikari Stuðmanna síðan Tómas lést. Þannig hefur sveitin verið skipuð síðan og þegar sveitin fagnaði 50 ára afmæli með tónleikum í Eldborgarsal Hörpu í febrúar 2020 mætti Þórður eftir því sem heimildir herma og lék með sínum gömlu félögum, til stóð að aðrir tónleikar yrðu haldnir um vorið en þá hafði Covid-faraldurinn skollið á af fullum þunga með þeim afleiðingum að nánast allt tónleikahald lá niðri, aukatónleikarnir voru loks á dagskránni haustið 2021.
Þótt tónleikahaldið í tengslum við 50 ára afmæli Stuðmanna gengi ekki að fullu eins og var ráðgert, var þó hálfrar aldar afmælis sveitarinnar einnig fagnað með útgáfu safnplötu, annars vegar þrefaldrar vínylútgáfu með 41 lagi og hins vegar með tvöföldum geisladiski með 46 lögum – safnútgáfurnar fengu titilinn Lög allra landsmanna. Þá var tónlistin úr Með allt á hreinu endurútgefin á tvöföldum vínyl haustið 2022 (einnig lituðum) þar sem aukaefni var jafnframt að finna. Báðar fyrrgreindar útgáfur komu út á vegum Öldu music.
Stuðmenn eru enn starfandi en nýlegar fréttir þess efnis að Egill Ólafsson hafi dregið sig í hlé vegna veikinda hlýtur að vekja upp spurningar um hvort saga sveitarinnar sé að lokum komin. Síðustu misserin virðist nokkur sátt hafa ríkt innan sveitarinnar eftir nokkuð neikvætt umtal þar á undan og sveitin hafði verið bókuð í fjölmörg verkefni á haustmánuðum 2022 sem blásin voru af í kjölfar veikinda Egils. Meðlimir Stuðmanna hafa hætt áður, Ragnhildur, Valgeir og Þórður – og Tómas er látinn, og hingað til hafa öll skörð verið fyllt með tímabundnum lausnum, óljóst er hins vegar hvað gerist þegar frontmaður á borð við Egil hverfur á brott úr sveitinni og tíminn einn verður að leiða það í ljós. Þar til er engin ástæða til að setja einhvern formlegan endapunkt við þessa umfjöllun um Stuðmenn, sem er líklega, með fullri virðingu fyrir öðrum hljómsveitum, magnaðasta popphljómsveit Íslandssögunnar – hljómsveit allra landsmanna.