Afmælisbörn 11. mars 2023

Ísólfur Pálsson

Fjögur afmælisbörn í tónlistargeiranum eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni

Rósa Guðmundsdóttir er fjörutíu og fjögurra ára gömul í dag. Hún kemur upphaflega frá Vestmannaeyjum og er af tónlistarfólki komin en þar lærði hún á píanó, fiðlu og flautu. Hún starfaði m.a. með danshljómsveitinni Dancin‘ mania í Eyjum áður en hún kom upp á meginlandið og varð þá þekkt sem Rósa á Spotlight. Í dag er Rósa búsett í Bandaríkjunum og hefur starfað þar með hljómsveit sinni, Rósa & the Ultratight.

Tónlistarmaðurinn Ingi Garðar Erlendsson er fjörutíu og þriggja ára í dag. Ingi Garðar er í grunninn  básúnuleikari en leikur á fjölda annarra blásturhljóðfæra og reyndar flest hljóðfæri, hann hefur leikið með fjölda hljómsveita eins og Njúton, Stórsveit Reykjavíkur, Teiknistofu/hljómsveit, Stórsveit Nix Noltes, Quintet Sindra og Benna Hemm Hemm, og hefur þ.a.l. einnig leikið á fjölda útgefinna platna. Ingi Garðar er jafnframt mikill safnari 78 snúninga platna og hafsjór að fróðleik þegar kemur að þeim fræðum.

Þuríður Pálsdóttir óperusöngkona (f. 1927) og ein þekktasta söngkona íslenskrar tónlistarsögu hefði átt afmæli á þessum degi en hún lést 2022. Þuríður var dóttir Páls Ísólfssonar, lærði söng hér heima og síðan á Ítalíu og þar reis hennar söngferill einna hæst þótt hún hefði alltaf sungið hér heima líka. Fjölmargar plötur komu út hér heima með söng hennar og var plata hennar, Jólasálmar t.a.m. fyrsta íslenska jólabreiðskífan, frægt er líka samstarf hennar og Guðrúnar Á. Símonar. Þuríður sinnti einkum söngkennslu á síðari árum, og var yfirkennari Söngskólans í Reykjavík frá stofnun hans. Hún söng ennfremur í Þjóðleikhúskórnum og stýrði kórum eins og Árnesingakórnum um tíma.

Afi Þuríðar, Ísólfur Pálsson tónskáld, átti þennan sama afmælisdag en hann lést 1941. Ísólfur fæddist 1871 á Stokkseyri og bjó þar og starfaði framan af, hann var kórstjórnandi, tónlistarkennari og hljóðfærasmiður en fyrst og fremst tónskáld og samdi margar söngperlur, þekktust þeirra er án nokkurs vafa Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins).

Vissir þú að Lúðrasveit verkalýðsins fagnaði 70 ára afmæli nú í vikunni?