Viltu leggja Glatkistunni lið?

Glatkistan hefur nú verið aðgengileg almenningi síðan haustið 2014 og að langmestu leyti án utanaðkomandi stuðnings. Þúsundir lesenda nýta sér vefsíðuna í hverri viku og þess sem þar er að finna enda inniheldur gagnagrunnur síðunnar nú um 5000 umfjallanir um hljómsveitir, kóra, einstaklinga, útgáfufyrirtæki og hvaðeina sem tengist íslenskri tónlist, og auk þess er þar að finna vel á þriðja þúsund sönglagatexta og annað efni. Almenningur hefur verið duglegur að fylla upp í eyður, leiðrétta og gauka að síðunni ýmis konar efni s.s. fróðleik og myndir, og hafa viðtökurnar við síðunni svo til eingöngu verið jákvæðar – og hér er þakkað fyrir þær viðtökur af auðmýkt.

En klapp á bakið er eitt og sér ekki nóg til að halda Glatkistunni gangandi, það kostar sitt að reka vefsíðu og hér má ekki gleyma þeim tugþúsundum vinnustundum sem að baki hennar liggja, og þá er ógetið að síðuhaldari hefur þurft að sinna ýmsum öðrum (fyrirfram ófyrirséðum) verkefnum tengdum íslenskri tónlistarsögu s.s. við að svara fyrirspurnum, koma á tengslum o.s.frv. – og hefur reyndar ekkert látið það eftir sér.

En nú er semsagt komið að því að Glatkistan kallar eftir stuðningi frá almenningi svo hægt sé að halda sögu íslenskrar tónlistar áfram á lofti, stofnuð hefur verið Patreon styrktarsíða þar sem hægt er að leggja verkefninu lið – í boði eru þrenns konar upphæðir (5, 10 eða 15 evrur (af einhverjum ástæðum virðast einhverjir sjá upphæðirnar í dollurum)) sem skuldfærast mánaðarlega en auðvitað er alltaf hægt að hætta „áskriftinni“ – þá er einnig bent á aðrar stuðningsleiðir fyrir áhugasama einstaklinga og fyrirtæki hérna.