Þuríður Pálsdóttir (1927-2022)

Þuríður Pálsdóttir 1945

Allir þekkja óperusöngkonuna Þuríði Pálsdóttur en hún var meðal þeirra allra fremstu hérlendis og söng í ótal mörgum óperuuppfærslum og við önnur tækifæri hérlendis. Þuríður var meðal frumherja kvensöngvara hérlendis, kenndi söng í áratugi, stuðlaði að varðveislu tónlistar s.s. í formi barnagæla og starfaði að ýmsum öðrum málum tengdum íslenskri tónlist, þá er jólaplata hennar frá 1959 löngu síðan orðin klassík og hefur margsinnis verið endurútgefin.

Þuríður fæddist í Reykjavík árið 1927, hún var af af miklu tónlistarfólki komin eins og kunnugt er en faðir hennar var Páll Ísólfsson tónskáld og orgelleikari rétt eins og afi Þuríðar, Ísólfur Pálsson. Þá var hún náskyld Katrínu og Jórunni Viðar, Pétri Guðjohnsen og fleira fólki af fyrstu og annarri kynslóð íslensks tónlistafólks ef svo mætti segja.

Það lá nokkuð fljótlega fyrir að Þuríður myndi feta tónlistarbrautina en hún lærði sem barn á píanó hjá frænku sinni Katrínu Viðar og síðan hjá Victor Urbancic, hún söng fyrst opinberlega í útvarpsleikriti undir stjórn Þorsteins Ö. Stephensen aðeins ellefu ára gömul, söng einnig eitthvað með kórum sem barn en var síðan sextán ára þegar hún ákvað að fara í söngnám og hóf nám hjá Sigurði Birkis.

Það var síðan haustið 1945 sem Þuríður fór átján ára gömul til Lundúna í Royal academy of music þar sem hún ætlaði sér stóra hluti. Námið þar varð þó endasleppt í þetta skipti þar sem hún uppgötvaði fljótlega eftir að út var komið að hún var þunguð en unnusti hennar hafði orðið eftir hér á landi. Það varð því úr að hún kom heim um miðjan vetur og óvíst var um framhaldið.

Þuríður eignaðist barnið og var raunverulega hætt söng enda ætlaði hún að helga sér móðurhlutverkinu, það varð þó úr að hún gekk til liðs við nýendustofnaðan Útvarpskórinn sem Róbert A. Ottósson setti á laggirnar haustið 1947. Sá kór söng yfirleitt í útvarpssal en í ársbyrjun 1949 hélt kórinn sínu einu opinberu tónleika (í Dómkirkjunni) og þar söng Þuríður einsöng og vakti mikla athygli.

Í kjölfarið varð Þuríður nokkuð þekkt og kom fram við ýmis tækifæri, á tónleikum sem einsöngvari og þá einnig með kórum eins og Tónlistarfélagskórnum sem hún hafði í raun sungið meira og minna með frá því hún var sextán ára, hún söng einnig dúetta með t.d. Magnúsi Jónssyni sem hún starfaði nokkuð með, og Guðrúnu Tómasdóttur. Einnig kom fyrir að hún syngi léttari tónlist s.s. í revíunni Bláu stjörnunni og fékk hvarvetna hina fínustu dóma.

Sem fyrr segir var Þuríður orðin vel þekkt söngkona hér heima og vildi gera aðra atlögu að söngnáminu, það varð því úr að hún hélt suður til Ítalíu vorið 1950 í námið og söng sitt fyrsta óperuhlutverk þar tæplega ári síðar. Það liðu tvö ár þar til hún birtist aftur hér á landi og ekki löngu síðar hélt hún sína fyrstu einsöngstónleika í heimalandinu og fékk frábæra dóma.

Þuríður í óperuhlutverki

Og Þuríður átti aftur eftir að fara utan til náms á Ítalíu, fyrst í upphafi árs 1953 og kom þá heim um haustið, aftur haustið 1957 en þá tók hún m.a. þátt í söngkeppni kennda við Bel Canto og vann þar til silfurverðlauna, og svo enn 1959. Aðal kennarar hennar á þessum árum voru Lina Pagliughi sem var þekkt söngkona í óperuheiminum, og Luigi Algergoni.

Hver stórsigurinn á fætur öðrum beið hér heima en Þuríður átti eftir að vera fremst meðal söngkvenna hérlendis ásamt Guðrúnu Á. Símonar allan sjötta og sjöunda áratuginn. Hún söng ótal óperu- og óperettuhlutverk og meðal annarra má nefna I Pagliacci, Cavalleria Rusticana, Kátu ekkjuna, Il trovatore, Paganini, Carmina Burana, Sígaunabaróninn, Rigoletto, Töfraflautuna og La Boheme. Hún tók einnig að sér léttari verkefni s.s. í kabarettnum Syngjandi páskum, söng einsöng með kórum eins og Karlakór Reykjavíkur, Þjóðleikhúskórnum, Einsöngvarakórnum og Útvarpskórnum, söng inn á plötur með kórum og einnig einsöng t.d. á plötu sem bar yfirskriftina Í birkilaut og hafði að geyma lög eftir Ísólfs Pálsson afa Þuríðar. Þá fór hún í söngferðalög um landsbyggðina og var m.a. að minnsta kosti tvö sumur meðal skemmtiatriða á héraðsmótum. Þess má geta að Þuríður frumflutti lagið Hvert örtstutt spor eftir Jón Nordal við ljóð Halldórs Laxness árið 1954 en það er auðvitað þekktast í flutningi Diddúar (Sigrúnar Hjálmtýsdóttur).

Fyrsta platan með söng Þuríðar kom út árið 1953 en það var 78 snúninga þriggja laga plata sem hafði að geyma lögin Blítt er undir björkunum, Hrosshár í strengjum og Sofðu unga ástin mín, Róbert A. Ottósson lék undir á píanó. Á safnplötunni Óskastundinni, sem kom út mörgum áratugum síðar er síðast nefnda lagið einnig að finna en þar er undirleikarinn Fritz Weisshappel.

Á næstu árum komu út nokkrar plötur til viðbótar, 1957 kom út plata með tónlistinni úr óperettunni Í álögum en tónlistin var eftir Sigurð Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson. Þar sungu auk Þuríðar, Guðrún Á. Símonar, Guðmundur Jónsson og Magnús Jónsson en kór og hljómsveit fluttu efnið með þeim undir stjórn Victor Urbancic. Upplagið mun hafa verið gallað að því leyti að það hafði verið pressað fyrir rangan hraða.

Jórunn Viðar og Þuríður Pálsdóttir

Ári síðar kom síðan þekktasta plata Þuríðar út, jólaplatan Jólasálmar en hún markar tímamót í íslenskri tónlistarsögu sem fyrsta íslenska jólaplatan í fullri lengd (LP). Jólasálmar nutu strax mikilla vinsælda og var endurútgefin í nokkur skipti en var síðan ófáanleg í áratugi, hún var þó gefin út á geislaplötuformi í fyrsta skipti árið 2001. Á plötunni leika með Þuríði Páll Ísólfsson faðir hennar á orgel og Björn Ólafsson á fiðlu. Platan hlaut mjög góða dóma í Vikunni.

1961 kom út fjögurra laga (45 rpm) jólaplatan A child is born in Betlehem en á henni voru lög sem höfðu verið á stóru jólaplötunni. Eftir titlinum að dæma var hún ætluð fyrir erlendan markað.

Þuríður var orðin þrjátíu og átta ára gömul þegar hún hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík haustið 1965 og tveimur árum síðar útskrifaðist hún sem tónmenntakennari frá skólanum fertug að aldri en það var fátítt að fólk á þeim aldri færi í nám.

Í kjölfarið hóf Þuríður að kenna söng við Tónlistarskólann og Barnamúsíkskólann og varð virtur söngkennari þar sem margir af þekktustu söngvurum þjóðarinnar nutu leiðsagnar hennar, þeirra á meðal má nefna Elínu Ósk Óskarsdóttur, Elísabetu F. Erlingsdóttur, Ingveldi Hjaltested og Jóhann Friðgeir Valdimarsson.

Þegar Söngskólinn í Reykjavík var settur á laggirnar árið 1973 af Garðari Cortes var Þuríður ráðin þangað sem yfirsöngkennari og þar kenndi hún uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir um miðjan tíunda áratuginn. Þuríður hafði þá átt lengi í bakmeiðslum sem rekja mátti til slyss þegar hún var barn að aldri.

Meðal annarra starfa Þuríðar má nefna að hún stjórnaði Árnesingakórnum um sjö ára bil, hún vann ýmis félagsstörf í þágu tónlistarfólks, var m.a. einn af stofnendum Félags íslenskra einsöngvara 1954 og formaður félagsins um tíma. Hún sat í Þjóðleikhúsráði í mörg ár og var formaður þess einnig, hún vann ennfremur lengi að viðamikilli tónlistarsögu en hún kenndi m.a. fagið í Tónlistarskólanum og stefndi alltaf að útgáfu þess efnis, það liggur þó enn í handritum. Þá var hún varaþingmaður sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á tíunda áratugnum.

Þuríður árið 1952

Þuríður annaðist dagskrárgerð í útvarpi fyrir börn snemma á sjöunda áratugnum ásamt frænku sinni Jórunni Viðar en þær fluttu í þeim fjölmörg barnalög sem síðan voru gefin út á tvöfaldri sextíu laga plötu sem fékk titilinn Fljúga hvítu fiðrildin og kom út á vegum Smekkleysu árið 2001. Ef ekki hefði verið fyrir þeirra framtak hefðu þessi lög mörg hver fallið í gleymskunnar dá en þau voru öll fengin úr Vísnabók frá 1946 sem Símon Jóhannes Ágústsson hafi tekið saman. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og DV.

Þuríður hafði sungið sitt síðasta óperuhlutverk árið 1983 og við það tækifæri var hún heiðruð af Íslensku óperunni fyrir þrjátíu ára starf á óperusviðinu en hún hafði komið einnig að stofnun Íslensku óperunnar 1978. Þuríður hlaut annars margvíslegar viðurkenningar fyrir framlag sitt til sönglistarinnar og má nefna Silfurmerki Félags íslenskra leikara, Riddarakross fálkaorðunnar fyrir ævistarfið og hina ítölsku Cavalieri dell‘ordine al merito della repubblica Italiana.

1986 kom út safnplata með efni úr fórum Ríkisútvarpsins, Íslensk einsöngslög, gefin út af bókaútgáfunni Forlaginu en um svipað leyti kom út hjá útgáfunni æviminningar Þuríðar, Líf mitt og gleði, skráðar af Jónínu Michaelsdóttur.

Önnur vegleg safnplata (þreföld), Minningabrot, kom út 2007 á vegum Ríkisútvarpsins og Þuríðar sjálfrar. Fyrsta platan hefur að geyma íslensk einsöngslög, önnur atriði úr óperum og óperettum og sú þriðja inniheldur erlend einsöngslög og kirkjulega tónlist.

Þá hafði komið út plata árið 1981, Endurminningar úr óperum, sem innihélt gamlar upptökur með þeim stöllum Þuríði og Guðrúnu Á. Símonar. Þuríður var ennfremur í veigamiklu hlutverki á plötu Guðrúnar, Fjörutíu ára söngafmæli Guðrúnar á Símonar (1979).

Að síðustu eru nefnda hér nokkrar safnplötur sem hafa að geyma söng Þuríðar; Gott um jólin (2004), 100 íslensk jólalög fyrir alla fjölskylduna (2006), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014), Jólaljós (1982), Óskastundin (2002), Óskastundin 4 (2005), Íslenskar söngperlur (1991) og Hvít jól (1985).

Þuríður lést sumarið 2022, 95 ára að aldri.

Efni á plötum