Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um tónlistarviðburð sem Dýrfirðingar héldu um árabil í kringum páskahátíðina undir yfirskriftinni Syngjandi páskar, líkast til var hátíðin haldin fyrst haldin árið 1980 og svo árlega til 1986 að minnsta kosti, hugsanlega jafnvel mun lengur.
Það mun hafa verið Tómas Jónsson skólastjóri og sparisjóðsstjóri sem var aðal hvatamaðurinn og drifkrafturinn í því að þessi tónlistarhátíð var sett á laggirnar á Þingeyri við Dýrafjörð en hann var allt í öllu í tengslum við þær, stjórnaði kórum, lék sjálfur á hljóðfæri, skipulagði og dreif aðra með sér í verkefnið. Fjöldinn allur af tónlistarfólki tók þátt í uppákomunum, kórar, söngkvartettar, söngsextettar, hljómsveitir, harmonikkuleikarar og -hljómsveitir af ýmsu tagi bæði í klassíska og léttari kantinum, þar var mest um að ræða heimamenn en einnig kom þekkt tónlistarfólk „að sunnan“ til að taka þátt í hátíðinni og líklega voru að minnsta kosti skemmtanir tvívegis í hvert skipti.
Stór hluti Þingeyinga koma að Syngjandi páskum á hverju ári, ýmist sem þátttakendur í tónlistinni, við skipulag hátíðarinnar eða sem áhorfendur en viðburðurinn setti mikinn svip á tónlistarlífið á Þingeyri og var ómissandi partur af menningarlífi þeirra Dýrfirðinga.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um Syngjandi páska, m.a. hversu lengi fram á níunda áratuginn hún stóð.