Syngjandi páskar [1] [tónlistarviðburður] (1956-58)

Auglýsing fyrir Syngjandi páska

Syngjandi páskar var yfirskrift tónlistarskemmtana sem Félag íslenzkra einsöngvara stóð fyrir á sjötta áratug síðustu aldar en þær nutu gríðarlegra vinsælda.

Félag einsöngvara hafði verið stofnað árið 1954 til að efla hag einsöngs hér á landi og snemma árs 1956 kom upp sú hugmynd að stofna til tónlistarskemmtunar um páskana af léttara taginu svo almenningur fengi ekki þá einhæfu óperuímynd af einsöngvurum sem þá var að myndast. Í því skyni var sett saman dagskrá þar sem einsöngvarar á borð við Guðrúnu Á. Símonar, Jón Sigurbjörnsson, Kristinn Hallsson, Þuríði Pálsdóttur Ketil Jensson, Guðmundu Elíasdóttur og fleiri kæmu fram og syngju léttari aríur í bland við jafnvel dægurtónlist sem þá var að ryðja sér til rúms, við undirleik bæði píanóleikara og hljómsveitar Björns R. Einarssonar sem þá var ein allra vinsælasta hljómsveit landsins. Jafnframt var boðið upp á skemmtikrafta á borð við eftirhermur auk þess sem allar kynningar voru léttar og nýstárlegar og báru að nokkur leyti yfirbragð kabarett- og revíusýninga sem þá voru einmitt mjög vinsælar.

Sýningin hlaut nafnið Syngjandi páskar, fór fram í Austurbæjarbíói og sló samstundis í gegn, svo rækilega að efna þurfti til aukasýninga svo alls urðu þær sex þarna um páskana 1956.

Frá sýningu í Austurbæjarbíói

Tiltækið þótti gefa það góða raun að leikurinn var endurtekinn árið eftir með nokkurn veginn sama mannskapnum auk þess sem Björn R. Einarsson og félagar léku undir söngnum. Að þessu sinni sló aðsóknin öll met og margoft þurfti fjöldi manns frá að hverfa, tólf sýningar voru haldnar í Austurbæjarbíói og síðan var farið til Njarðvíkur, Sandgerðis, Akureyrar og Selfoss svo að sýningarnar urðu samtals tuttugu um páskana 1957.

Farið var af stað með Syngjandi páska í þriðja sinn vorið 1958 með svipuðu fyrirkomulagi en færri sýningar og mun nýjabrumið þá hafa verið farið af skemmtuninni sem hafði náð hámarki vinsælda sinna árið á undan. Þá höfðu jafnframt orðið nokkrar breytingar á fyrirkomulagi í reykvísku skemmtanalífi, rokk- og dægurlagamenningin var að ryðja sér til rúms meðal þeirra yngri og einsöngsatriði á borð við það sem Syngjandi páskar bauð upp á voru á undanhaldi. Þessar skemmtanir urðu þó klárlega til að vekja athygli á að óperusöngvarar gætu einnig sungið léttari tónlist og varð Guðrúnu Á. Símonar klárlega hvatning til að gefa út dægurlög eins og Little things mean a lot á plötu en það hafði hún sungið fyrst á Syngjandi páskum.