Leikhústónlist og kabarettlög

Ingveldur Ýr Jónsdóttir

Ingveldur Ýr Jónsdóttir

Búast má við mikilli dramatík og prímadonnustælum á síðustu hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vetur, þar sem leikhústónlist og kabarettlög úr smiðju Kurt Weill verða í aðalhlutverki. Þá mun Ingveldur Ýr Jónsdóttir flytja tónlist úr smiðju þýska söngleikjameistarans, en hún er þekkt fyrir að syngja jafnt óperutónlist sem söngleikja- og kabaretttónlist. Píanóleikari er Antonía Hevesi.

Tónleikarnir fram fara þriðjudaginn 2. júní kl. 12.15 í Norðurljósum í Hörpu. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis eins og að öllum hádegistónleikum Íslensku óperunnar. Á síðustu hádegistónleika komust færri að en vildu og er fólk hvatt til að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti.

Ingveldur Ýr Jónsdóttir hefur verið starfandi söngkona frá árinu 1991. Hún hefur komið fram víða um heim bæði á óperusviði og á tónleikapallinum. Ingveldur Ýr hefur fengið fjölda viðurkenninga og styrki fyrir flutning sinn og þátttöku í verkefnum ma. frá Reykjavíkurborg, Evrópusambandinu, FÍL, 92nd St. Y í New York og Meistersinger söngkeppninni í Graz. Ingveldur Ýr var um skeið fastráðin við óperuna í Lyon í Frakklandi og söng þar stór og smá hlutverk með stjórnendum á borð við Kent Nagano og Sir Neville Marriner. Við Bastilluóperuna söng Ingveldur Nornina í Hans og Grétu og hefur sungið á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Tanglewood-hátíðinni í Bandaríkjunum í Peter Grimes undir handleiðslu Maestro Seiji Ozawa.

Á íslensku óperusviði söng Ingveldur Ýr aðalhlutverk í uppfærslum á Évgení Ónegin, Niflungahringnum, Á valdi örlaganna, Così fan tutte, Z-Ástarsaga, Dido og Eneas, Sweeney Todd, Rake ́s Progress og Suor Angelica og nú síðast í Peter Grimes á Listahátíð. Ingveldur Ýr hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. í Guðrúnarkviðu eftir Jón Leifs; 9. sinfóníu Beethovens, Carmen, á Vínartónleikum og í D-dúr messu Dvořáks og syngur einnig með hljómsveitinni á diskinum Hafís í útgáfu BIS á verkum Jóns Leifs. Aðrar hljómplötuupptökur eru Íslenska einsöngslagið í útgáfu Gerðubergs og Fjólan í minningu Þórarins Jónssonar. Ingveldur Ýr gaf nýverið út einsöngsdiskinn Portrett með úrvali af lögum frá ferli sínum.

Meðfram starfi sínu sem söngkona hefur Ingveldur Ýr um árabil rekið sitt eigið söngstúdíó og staðið fyrir kennslu í raddbeitingu og söng af ýmsu tagi. Hún þjálfar sönghópa og kóra, m.a. sönghópinn Spectrum og lauk kórstjóraprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún kennir einnig raddbeitingu við Háskólann í Reykjavík. Ingveldur Ýr hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík eftir ballettnám í Listdansskóla Þjóðleikhússins. Átján ára fór hún utan til náms í söng og leiklist við Tónlistarskóla Vínarborgar og lauk mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York 1991. Einnig hefur hún lokið 2. stigi í raddfræðum hjá Jo Estill Voice Training, auk fjölda námskeiða og masterclassa.

Antonía Hevesi er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt- tónlistarakademíunni í Búdapest með M.A.-gráðu í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig stundaði hún orgelnám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Graz hjá Otto Bruckner. Antonía hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar um Evrópu og í Kanada. Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik og spilað inn á geisladiska. Í rúman áratug hefur Antonía verið listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar, og hefur hún ennfremur komið fram á flestum hádegistónleikum Íslensku óperunnar síðastliðin ár. Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á hátt í þrjátíu óperum, með Norðurópi, Óp- hópnum og hjá Íslensku óperunni, þar sem hún er fastráðin píanóleikari.