Dísella Lárusdóttir á hádegistónleikum Íslensku óperunnar

Dísella1

Dísella Lárusdóttir

Ást í öllum litum er yfirskrift hádegistónleika Dísellu Lárusdóttur hjá Íslensku óperunni þriðjudaginn 28. apríl kl. 12.15 í Norðurljósum í Hörpu. Dísella, sem er búsett á Íslandi um þessar mundir eftir að hafa starfað við Metropolitan-óperuna í New York undanfarin ár, mun flytja valdar aríur og sönglög sem henni eru kær, aríur úr óperum eftir W. A. Mozart, Giuseppe Verdi og Igor Stravinsky, auk þriggja söngljóða eftir Maurice Ravel. Í haust snýr hún svo aftur til New York og mun meðal annars æfa titilhlutverkið í óperunni Lulu eftir Alban Berg undir stjórn James Levine, sem frumsýnd verður í Metropolitan-óperunni í nóvember.

Píanóleikari er Antonía Hevesi og er aðgangur að tónleikunum ókeypis.

EFNISSKRÁ:

W. A. Mozart (1756-1791): Ach, ich fühl’s, es ist verschwunden – aría Pamínu úrTöfraflautunni

Maurice Ravel (1875-1937): Cinq mélodies populaires grecques

Giuseppe Verdi (1813 – 1901): Ah, fors’ è lui…Sempre libera – aría Víólettu úr La traviata

Igor Stravinsky (1882-1971): No word from Tom… – aría Anne úr Flagara í framsókn

UM FLYTJENDUR:

Dísella Lárusdóttir þreytti frumraun sína hjá Metropolitan-óperunni í New York í mars 2013 þar sem hún söng hlutverk Garsendu í óperunni Francesca da Rimini eftir ítalska tónskáldið Riccardo Zandonai. Síðan þá hefur hún fengið að spreyta sig í fimm öðrum óperuuppfærslum á þessu  merka sviði; sem Woglinde í óperum Richards Wagner,Rheingold og Götterdämmerung, 2. þjónn í Frau Ohne Schatten eftir Richard Strauss, 1. skógarálfur í Rusölku eftir Antonin Dvorák og Lísa í La Sonnambula eftir Vincenzo Bellini. Undanfarið ár hefur hún starfað við óperuna með eins árs fastráðningu en aðeins 10 manns fá slíka ráðningu ár hvert og var Dísella eina sópransöngkonan. Þess má geta aðFrancesca da Rimini og Rusalka voru sýndar í beinni útsendingu um allan heim í svokallaðri HD Live sýningu. Vorið 2013 kom Dísella fram sem einsöngvari í Vesperae Solennes de Confessore eftir Mozart í Carnegie Hall og síðastliðið sumar söng hún annað einsöngshlutverkið í Stabat Mater eftir Giovanni Battista Pergolesi í Disney Hall í Los Angeles. Þá kom hún fram á tónlistarhátíðum í Madison, Wisconsin og í Breckenridge, Colorado. Árið 2009 söng hún hlutverk Adinu í Ástar­drykknum eftir Donizetti í Íslensku óperunni. Hún kom fram sem einsöngvari á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands ásamt Garðari Thór Cortes nú í janúar síðastliðnum. Í haust snýr hún svo aftur til New York og mun meðal annars æfa titilhlutverkið í óperunni Lulu eftir Alban Berg undir stjórn James Levine, sem frumsýnd verður í Metropolitan-óperunni í nóvember.

Antonía Hevesi er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt- tónlistarakademíunni í Búdapest með M.A.-gráðu í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig stundaði hún orgelnám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Graz hjá Otto Bruckner. Antonía hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar um Evrópu og í Kanada. Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik og spilað inn á geisladiska. Í rúman áratug hefur Antonía verið listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar, og hefur hún ennfremur komið fram á flestum hádegistónleikum Íslensku óperunnar síðastliðin ár. Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á hátt í þrjátíu óperum, með Norðurópi, Óp-hópnum og hjá Íslensku óperunni, þar sem hún er fastráðin píanóleikari.