Í fjarlægð – hádegistónleikar Íslensku óperunnar

Kolbeinn Ketilsson

Kolbeinn Ketilsson

Tenórsöngvarinn Kolbeinn Jón Ketilsson flytur íslensk og ítölsk sönglög, auk aría úr óperum eftir Carl Maria von Weber og Richard Wagner á næstu hádegistónleikum Íslensku óperunnar í Norðurljósum í Hörpu, ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara.

Tónleikarnir fara fram þriðjudaginn 17. febrúar og hefjast kl. 12.15. Yfirskrift tónleikanna er  „Í fjarlægð“, en Kolbeinn mun hefja tónleikana á flutningi þessa þekkta lags Karls O. Runólfssonar.

Kolbeinn er einn okkar fremsti tenórsöngvari og hefur sungið mörg veigamestu tenórhlutverk óperubókmenntanna, m.a. Tristan, Florestan, Erik, Tamino, Max, Cavaradossi og Don José sem og titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns, Don Carlo, Parsifal, Tannhäuser og Lohengrin. Hjá Íslensku óperunni hefur hann m.a. sungið Alfredo í La Traviata, Rodolfo í La Bohème, Erik í Hollendingnum fljúgandi og Tenórinn í Ariadne á Naxos. Kolbeinn hefur komið fram í óperum á öllum Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og víðsvegar um Evrópu, m.a. í Staatsoper í München,  Parísaróperunni, óperunni í Genf og óperunni í Valencia, og starfað með mörgum frægustu  hljómsveitarstjórum heims, m.a. Antonio Pappano, Lorin Maazel, Kurt Masur, Kent Nagano og Zubin Metha. Hann söng Radames í Aidu í fyrstu uppsetningu nýja óperuhússins í Kaupmannahöfn árið 2005, og tenórhlutverkið í 9. sinfóníu Beethovens á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu undir stjórn Vladimirs Ashkenazy vorið 2011. Hann söng hlutverk Don José í uppfærslu Íslensku óperunnar á Carmen haustið 2013.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis eins og að öllum hádegistónleikum Íslensku óperunnar í vetur og eru gestir hvattir til að mæta tímanlega til að tryggja sér sæti, því jafnan er fullt út úr dyrum á þá.