Roof tops (1967-75)

Roof tops 1968

Roof tops 1968

Hljómsveitin Roof tops hafði nokkra sérstöðu í íslensku bítla- og hippasenunni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, sérstaðan fólst í því að sveitin lagði áherslu á ameríska soultónlist, svokallað tamlatónlist, og innihélt blásara sem ekki var beint móðins í þá tíð. Sveitin spilaði þó ekki soultónlistina eingöngu því smám saman blönduðust aðrar stefnur prógramminu.

Roof tops var stofnuð í árslok 1967. Í upphafi voru í sveitinni Ari Jónsson söngvari og trommuleikari, Guðni Pálsson saxófónleikari, bræðurnir Gunnar gítarleikari og Sveinn orgelleikari Guðjónssynir og Erlingur Garðarsson bassaleikari, allir höfðu þeir félagarnir utan Erlingur, verið í hljómsveitinni Alto. Þannig skipuð fór sveitin af stað og vakti þegar athygli, ekki síst vegna souláhrifanna. Glaumbær varð fyrsti áfangastaður Roof tops vorið 1968 og þeir áttu eftir að leika þar oftsinnis síðan.

Fyrstu mannabreytingar í sveitinni urðu á árinu 1968 þegar Jón Pétur bróðir Ara söngvara tók við bassanum af Erlingi en Jón Pétur hafði þá þegar getið sér orðspor sem einn meðlima Dáta. Hann hafði einnig verið áður með þeim félögum í Alto fyrrum svo þarna var hún í raun endurreist, um tíma að minnsta kosti.

Snemma árs 1969 fóru þeir Roof tops liðar að vinna að plötu og voru fjögur lög tekin upp í þeirri lotu, tvö íslensk og tvö bandarísk soullög við íslenska texta. Síðar þetta ár kom platan út á vegum Fálkans og naut lagið Söknuður strax mikilla vinsælda og hefur reyndar fyrir löngu öðlast sígildi. Platan fékk mjög góða dóma í Vikunni.

Roof tops1

Roof tops

Stefán G. Stefánsson sem samið hafði textann við Söknuð gerðist nú umboðsmaður Roof tops og lék sveitin nú víðs vegar um landið.

Sveitin sendi frá sér aðra smáskífu í upphafi árs 1970 með tveimur erlendum lögum við íslenska texta, Ástin ein og Lalena en sú plata vakti ekki þá athygli sem vonast hafði verið til, hún hlaut slaka dóma í Vikunni.

Í kjölfarið urðu mannabreytingar um vorið þegar þeir Sveinn og Guðni, sem hugðust fara í nám, yfirgáfu Roof tops en í þeirra stað komu þeir Guðmundur Haukur (Jónsson) sem getið hafði sér gott orð sem söngvari Dúmbó sextetts, og Halldór Fannar orgelleikari en hann átti síðar eftir að verða einn meðlima hljómsveitarinnar Fjötra á Litla Hrauni. Halldór Fannar staldraði ekki lengi við í bandinu, hætti um haustið 1970, en með tilkomu Guðmundar Hauks jókst fjölbreytnin í söngnum og gátu þeir félagar boðið upp á flóknari raddsetningar í lögum sínum. Samhliða því þyngdist tónlistin nokkuð í anda þeirrar tónlistar sem nú réði ríkjum meðal ungs fólks og til að mæta því bættist Vignir Bergmann gítarleikari í hópinn, sálartónlistin var á útleið. Vignir hafði áður leikið með hljómsveitinni Júdas.

1972 sendi Roof tops frá sér sína þriðju smáskífu, tveggja laga plötu með lögunum Lífið er leikur og Eitt lítið tár. Sú plata hafði ekkert cover, var seld á nærbuxunum einum saman eins og það var kallað. Fyrir vikið var hún lítið auglýst og fékk nánast enga athygli.

Roof tops2

Roof tops um 1970

Miklar hræringar voru í hljómsveitabransanum hér heima á þessum tíma, ofurgrúppan Trúbrot hafði verið mynduð úr Hljómum og Flowers vorið 1969 og gnæfði yfir aðrar hljómsveitir á þeim tíma, og það var því engin spurning fyrir þá Ara og Vigni haustið 1972 þegar þeir Trúbrots-liðar buðu þeim stöðu trommu- og gítarleikara.

Reyndar hafði Ari nokkru áður verið stuttan tíma í Trúbrot þegar Gunnar Jökull yfirgaf þá sveit snögglega 1970 en hann hafði snúið jafnharðan aftur í Roof tops að því loknu. Nú var hins vegar ljóst að vera hans yrði lengri í ofurgrúppunni og spreyttu nokkrir trymblar sig á hlutverkinu næstu mánuðina, fyrst Guðjón Hilmarsson, þá Halldór Olgeirsson og síðastur Hrólfur Gunnarsson. Í stað Vignis kom Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari úr Gaddavír sem hafði stuttan stans í Roof tops en við hans hlutverki tók fljótlega Bandaríkjamaðurinn Thomas R. Lansdown.

Fálkinn hafði gefið út fyrstu þrjár plötur Roof tops en þetta ár 1973 kom fjórða smáskífan út, á vegum Ámunda Ámundasonar í ÁÁ records. Það fór fyrir þeirri plötu eins og þeirri á undan að hún hlaut litla athygli, en hún hafði að geyma tvö lög eftir Lansdown. Það hafði kannski mest að segja að pressan á plötunni misheppnaðist og því var hljómurinn á henni ekki sem skyldi.

Sumarið 1973 hætti Trúbrot störfum og þá birtist Ari gamli trommarinn aftur bak við settið hjá Roof tops, enn áttu þó eftir að eiga sér mannabreytingar áður en yfir lyki þegar Lansdown yfirgaf sveitina en Akureyringurinn Gunnar Ringsted kom í hans stað, sá hafði m.a. verið í hljómsveitinni Óvissu norðan heiða.

Roof tops auglýsing

Roof tops – auglýsing í Morgunblaðinu fyrir jólin 1974

Þá kom loks að því að farið yrði í hljóðver til að taka upp stóra plötu en fyrrnefndur Ámundi stóð að baki þeirri útgáfu. Roof tops brá sér því til Oslóar í upptökur undir stjórn Gunnars Þórðarsonar í Roger Arnhoff hljóðverinu um vorið 1974. Platan sem síðan hlaut titilinn Transparency hafði að mestu að geyma lög eftir þá félaga.

Þegar Transparency leit dagsins ljós síðla árs 1974 eftir miklar tafir hlaut hún góðar viðtökur gagnrýnenda, til dæmis ágæta dóma í Alþýðublaðinu, en því miður fyrir Roof tops liða var sú einkennilega stefna í gangi hjá Ríkisútvarpinu á þessum tíma að spila ekki lög með íslenskum tónlistarmönnum ef þeir sungu á ensku. Því fór lítið fyrir vinsældum í útvarpi og drap það í raun niður alla almennilega sölu á henni, og varð sjálfsagt til þess að á endanum gáfust þeir félagar upp og hættu störfum árið eftir, 1975.

Þrátt fyrir að Roof tops hafi hætt störfum 1975 var sögu hennar þá ekki endanlega lokið. Sveitin kom saman á afmælistónleikum FÍH 1982 og er að finna lag með henni á tvöfaldri plötu tengdri þeirri afmælisveislu (FÍH 50 ára: 1932-1982) og ríflega þrjátíu árum eftir að Roof tops hætti (2006) kom út veglegt safn, Roof tops 1968-2006, sem hafði að geyma þrjár plötur og upptökur sem ekki höfðu komið út á plötum fyrr, en sveitin hafði verið dugleg að taka upp efni á þeim tíma sem hún starfaði. Þar er að finna ófáan gullmolann sem sýnir vel hvernig þessi fyrsta íslenska soulsveitin hljómaði á tónleikum og böllum, sem annars hefði glatast að eilífu. Í tilefni af útgáfunni kom sveitin saman og lék opinberlega.

Lög með Roof tops er einnig að finna á nokkrum safnplötum sem komið hafa út í gegnum tíðina, þar má nefna safnplöturnar Bítlar og blómabörn (1993), Aftur til fortíðar 1960-70 I (1990), Aftur til fortíðar 1970-80 II (1990), Óskalögin 3 (1999), Ástin er (1993), Blóm og friður (1992) og Svona var 1969 (2008).

Efni á plötum