Tónatríóið [1] (1950-76)

Tónatríóið

Tónatríóið

Hljómsveitin Tónatríóið (einnig nefnt Tríó Arnþórs Jónssonar / Tríó Adda rokk) starfaði allan sjötta áratug tuttugustu aldarinnar og eitthvað fram á þann áttunda undir styrkri stjórn Arnþórs Jónssonar (Adda rokk) söngvara en hann lék líklega einnig á gítar eða bassa. Yfirleitt var um tríó að ræða en stundum var sveitin þó skipuð fjórum mönnum. Þá léku þeir undir nafninu Tónabræður[3].

Fjölmargir ku hafa komið við sögu þessarar sveitar auk Arnþórs, m.a. bræðurnir Ellert Borgar og Haukur Þorvaldssynir framan af en einnig hafa verið nefndir til sögunnar Kristján Ingvarsson og Guðmundur R. Jónsson (1967-68), Guðmundur Sigurjónsson, Halldór Fannar og Steinþór Steinþórsson en þá var Jakob Jónsson söngvari (1969-71), og Guðmundur Haukur orgelleikari og Magnús Magnússon trommuleikari. Ekki er þó ljóst hvenær þeir síðast töldu voru í sveitinni en þeir munu hafa verið mjög ungir að árum, reyndar svo mjög að Arnþór var gagnrýndur fyrir. Félagarnir úr Föxum/Tárinu, Páll Dungal bassaleikari, Sven Arve Hovland gítarleikari og Þórhallur Sigurðsson (Laddi) söngvari störfuðu með honum upp úr 1970. Ennfremur hafa þeir Ingimar Guðjónsson harmonikkuleikari og Þórir Magnússon trommuleikari verið nefndir í þessu samhengi.

Árið 1970 komst Tónatríóið á síður dagblaðanna þegar út spurðist að sveitin notaði amerískan „róbot-trommara“ eða trommuheila sem þá var nýlunda hérlendis. Græjan sem var útbúin átta mismunandi trommutöktum, mun þó ekki alltaf hafa virkað eins og til stóð og trommaði ýmist alltof hratt eða alltof hægt, og stóð hljómsveitarstjórinn stundum sveittur yfir henni til að reyna að tjónka við gripinn á meðan félagar hans í sveitinni reyndu að fylgja hraða vélarinnar og spila þekkt lög við framandi trommutakta.

Svo virðist sem Tónatríóið hafi legið að mestu í dvala á árunum 1972-76 en þá birtist sveitin aftur, Arnþór á bassa og þeir Gunnlaugur Melsteð á gítar og Jón Erlings Jónsson á hljómborð. Jón hefur sagt söguna af því þegar Arnþór hafði samband við hann og vildi fá hann til að leika með sér og Gunnlaugi, í kjölfarið æfðu þeir upp tuttugu laga prógramm á tveimur kvöldum þar sem Gunnlaugur lék á gítar, Arnþór á bassa, Jón á hljómborð og trommuheilinn sitt hlutverk. Þegar á hólminn var komið og fyrsta giggið var að byrja bað hljómsveitarstjórinn Gunnlaug um að fá að skipta á hljóðfærum við sig í byrjun til að koma sér í stuð. Gunnlaugur lét Arnþóri það eftir og svo var dregið frá, í stuttu máli sagt sleppti Addi rokk ekki gítarnum allt kvöldið og Gunnlaugur þurfti að sætta sig við að leika á bassann. Í ofanálag var ekkert laganna sem þeir höfðu æft tekið heldur lét Arnþór þá leika allt önnur og óæfð lög.

Þessi síðasta útgáfa Tónatríósins mun hafa starfað hátt í ár áður en sveitin lagði endanlega upp laupana.