Addi rokk (1933-2019)

Addi rokk

Addi rokk

Arnþór Kristján Jóhannes Jónsson (f.1933), betur þekktur sem Addi rokk, er einna kunnastur fyrir að skemmta með Stuðmönnum við ýmis tækifæri en hann á sér nokkuð merkilega sögu sem tónlistarmaður.

Addi sem var býsna skrautlegur karakter var kenndur við Möðrudal og kom víða við í tónlistar- og leiklistarlegum skilningi. Hann nam aldrei hljóðfæraleik utan þess að hafa lært örlítið á fiðlu og túbu en spilaði hins vegar á hin ýmsu hljóðfæri. Upphaflega tróð hann upp einn á sjötta áratug síðustu aldar og söng þá Presley lög undir listamannsheitinu Addi Presley en kom einnig fram og söng lög Als Bishop og Ivans Rebroff. Enn fremur söng hann stundum gamanvísur á skemmtunum. Hann starfrækti á árum áður nokkrar hljómsveitir en þekktastar þeirra eru sjálfsagt Tónatríóið og Tónabræður þar sem hann lék mestmegnis á gítar og söng. Einnig var hann í hljómsveitunum Jónsbörnum, Como, Ómum og sveitum sem kenndar voru við hann s.s. Tríó Adda rokk og Hljómsveit Arnþórs Jónssonar, einnig mun hann hafa leikið með ónefndri færeyskri sveit. Tónlistarferill Adda spannaði einkum sjötta og sjöunda áratuginn en á þeim áttunda varð hann meira áberandi á leiksviðinu og í kvikmyndum, í því samhengi má nefna að hann lék í söngleiknum Hárinu í Glaumbæ snemma á áttunda áratugnum og í kvikmyndum eins og Lénharði fógeta og Perlum og svínum svo dæmi séu tekin.

Addi komst á síður dagblaðanna í mars 1962 þegar hann var handtekinn af lögreglu þar sem hann gekk heim á leið eftir dansleik í Breiðfirðingabúð, hann hélt þá á gítarmagnara og var með gítar sinn á bakinu og hafði kosið að ganga heim í veðurblíðunni eftir ballið en laganna verðir stóðu í þeirri trú að hann hefði stolið hljóðfærinu og magnaranum. Þeir fóru með hann á lögreglustöðina þar sem Addi mátti dúsa uns hann gat sannað að hann væri eigandinn, það varð þó ekki fyrr en að Pétur Pétursson (útvarpsþulur) umboðsmaður hljómsveitar hans, hafði verið vakinn og gat hann staðfest hið rétta í málinu.

Addi rokk

1977 lenti Addi í alvarlegu umferðarslysi austur á fjörðum þar sem hann bjó og starfaði, og höfuðkúpubrotnaði. Í raun jafnaði hann sig aldrei eftir það, hann missti minnið og varð aldrei samur, bjó um tíma á dvalarheimili aldraðra á Höfn í Hornafirði á meðan hann reyndi að átta sig á lífinu á nýjan leik. Hann lenti í fleiri slysum, varð undir bjargi sem braut á honum annan fótinn og missti fingur við kjötiðnaðarstörf en lét slíka smámuni ekki trufla sig meira en svo að hann harkaði af sér og vann störf sín áfram. Hann hafði t.a.m. Fyrir höfuðkúpubrotið verið öflugur við virkjanaframkvæmdir í Sigöldu þar sem hann rak félagsmiðstöð með öllu fyrir starfsmenn, auk þess starfaði hann við ýmis verkamannastörf á árum áður.

Lítið bar á Adda næstu árin eftir slysið eða allt þar til Stuðmenn fengu hann til að troða upp með sér á dansleikjum tengdum Látúnsbarkakeppninni 1987 en þar söng Addi í Presley gallanum sínum og fór með aflraunir. Þegar plata með lögum úr keppninni kom út var þar að finna lagið Lóa litla á Brú í flutningi Adda en það er eina upptakan sem til er með honum útgefin. Samstarfi hans og Stuðmanna var þó hvergi nærri lokið því hann kom fram með sveitinni oft síðar, t.d. Þegar hljómsveitin fór í kringum landið undir merkjum Græna hersins 1999, þá langt genginn í sjötugt.

Jakob Magnússon Stuðmaður þekkti til Adda og markaði það upphaf samstarfs þeirra þegar Jakob ungur að árum fékk hann til að skemmta í heimablokk sinni í Hlíðunum á sjöunda áratugnum. Nokkrar sögur af Adda er einmitt að finna í ævisögu Jakobs, Með sumt á hreinu, sem út kom 2011.
Af ofangreindu má ráða að Addi rokk hefur verið skrautlegur og skemmtilegur karakter þótt slys hafi sett mark sitt á hann.

Addi rokk lést í febrúar 2019, fáeinum dögum fyrir áttatíu og sex ára afmælið