Aðalsteinn Ísfjörð (1947-)

Aðalsteinn Ísfjörð

Aðalsteinn Ísfjörð

Aðalsteinn Ísfjörð Sigurpálsson (f. 1947) er kunnur húsvískur harmonikkuleikari sem hefur komið víða við í tónlistarsköpun sinni og m.a. gefið út tvær plötur.

Aðalsteinn hóf að leika á harmonikku sjö ára gamall og þrettán ára var hann farinn að leika á dansleikjum í heimabyggð. Harmonikkan hefur alltaf verið hans aðal hljóðfæri en hann hefur leikið með ýmsum sveitum norðanlands s.s. Haukum[2] frá Húsavík, Hljómsveit Illuga, Nefndinni og Víbrum svo einhverjar séu nefndar en hann lék einnig á sínum í Lúðrasveit Húsavíkur. Aðalsteinn var einn af stofnendum Harmonikufélags Þingeyinga 1978 og var um skeið formaður þess félags, hann hefur einnig kennt á harmonikku við tónlistarskólann á Húsavík.

Fyrst lék Aðalsteinn inn á safnplötuna Líf og fjör með harmonikkuunnendum sem út kom 1980 og fjórum árum síðar kom út plata á vegum Pálma Guðmundssonar hjá Tónaútgáfunni á Akureyri, þar sem hann lék á harmonikku ásamt Jóni Hrólfssyni frá Kópaskeri. Þeir höfðu kynnst nokkru áður við vinnu á Raufarhöfn og hlaut plata þeirra titilinn Samspil. Á tíunda áratug síðustu aldar starfaði Aðalsteinn nokkuð með karlakórnum Hreimi og lék hann t.d. Undir á plötu með kórnum sem út kom 1999, tveimur árum fyrr hafði hann einnig leikið á plötu sem Harmonikufélag Þingeyinga gaf út.

Árið 2000 kom út önnur plata með honum en hún heitir í Ásbyrgi en sú plata var öllu blandaðri en fyrri platan, þar komu m.a. Við sögu karlakórinn Hreimur, hljómsveitin Gloría og fleiri gestir.

Þriðja plata Aðalsteins kom út 2013 og ber heitið Síðasti séns, þá hafði Aðalsteinn greinst með Alzheimer sjúkdóminn á frumstigi og ákvað hann því að ráðast í gerð plötu með þessu nafni. Hún hefur að geyma efni eftir hann sjálfan auk annarra.

Aðalsteinn hefur komið við sögu á fleiri plötum, s.s. plötu Hljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar (2006) en Friðjón hafði einmitt sungið á plötu Aðalsteins frá árinu 2000.

Aðalsteinn hefur sjálfur samið nokkuð af lögum sem hafa einmitt verið á plötum hans en einnig hafa lög eftir hann m.a. Unnið til verðlauna í lagakeppnum. Tónlistarferill Aðalsteins hefur þó alltaf verið meira tómstundagaman en starf þar sem hann starfar sem múrarameistari á Húsavík.

Efni á plötum