Drengjalúðrasveit Keflavíkur (1961-71)

Drengjalúðrasveit Barnaskólans í Keflavík

Drengjalúðrasveit Keflavíkur

Drengjalúðrasveit Keflavíkur var ein öflugasta lúðrasveit drengja sem hér starfaði en eins og flestir vita var tónlistarlíf í Keflavík með því blómlegasta hérlendis á sjöunda áratugnum, sveitarfélagið kom eitthvað að fjármögnun sveitarinnar.

Lúðrasveitin var stofnuð vorið 1961 og var Herbert H. Ágústsson stjórnandi hennar frá upphafi en Gunnar Egilson og Jósef Magnússon voru einnig kennarar drengjanna sem þarna voru að læra á hljóðfæri sín, Gauja Guðrún Magnúsdóttir annaðist undirleik með sveitinni á köflum en hún spilaði víða þau ár sem hún starfaði, fór meðal annars í tónleikaferð í kringum landið með strandferðaskipinu Esju. Sveitin fór einnig í tónleikaferð um Suðurland og spilaði í sérstökum hálftíma löngum þætti sem Kanasjónvarpið gerði um hana.

Meðlimir Drengjalúðrasveitar Keflavíkur voru lengst af um tuttugu og fimm og voru á aldrinum tíu og ellefu ára en hópurinn var síðan endurnýjaður smám saman og þegar drengirnir voru orðnir eldri gengu þeir til liðs við Lúðrasveit Keflavíkur sem þá hafði starfað í allnokkur ár.

Lúðrasveitin var upphaflega kennd við Barnaskólann í Keflavík en heyrði síðan undir Tónlistarskóla Keflavíkur. Ekki liggur fyrir hversu lengi hún starfaði undir nafninu Drengjalúðrasveit Keflavíkur, sumar heimildir segja til 1969 en aðra 1971.

Sveitin ól af sér tónlistarmenn sem síðar gerðu garðinn frægan, þar má nefna Ólaf Garðarsson og Magnús Kjartansson, sem báðir áttu eftir að koma mjög við sögu íslensks tónlistarlífs.