Dýrið gengur laust (1989-91)

Dýrið gengur laust

Í upphafi

Dýrið gengur laust er sú íslenska hljómsveit sem hvað lengst hefur farið yfir strikið hvað textagerð varðar, og verður hennar e.t.v. fyrst og fremst minnst fyrir það – jafnvel eingöngu.

Sveitin var líklega stofnuð í upphafi árs 1989 fremur en í lok ársins 1988, upp úr leifum hljómsveitanna Tregablandinni lífsgleði og Sogblettum. Bjarni „móhíkani“ Þórðarson fyrrum meðlimur Sjálfsfróunar mun hafa verið aðal hvatamaður að stofnun sveitarinnar, og einnig umboðsmaður hennar.

Meðlimir Dýrsins í upphafi voru Jón Júlíus Filippusson (Jón kvefpest) söngvari, Pétur Þórðarson gítarleikari og Jóhann Ágúst Sigurðarson trommuleikari. Fljótlega bættist Gunnþór Sigurðsson bassaleikari (Q4U) í hópinn en hann var nokkrum árum eldri og hafði verið stór partur af pönksenunni upp úr 1980 á meðan hinir þrír töldust fremur til síðpönksins, tónlist sveitarinnar var þannig hrátt pönkrokk.

Sveitin vakti fljótlega athygli fyrir líflega spilamennsku og strax fengu áhorfendur á tónleikum að heyra frumsamið en eitt laga sveitarinnar varð strax frægt en það var innblásið af lögum Megasar, Drengirnir í Bangkok og Litlir sætir strákar, og fjallaði um meinta „kynvillu“ Megasar, Bubba Morthens og Harðar Torfa og náið kynferðislegt samband þeirra í millum.

Dýrið gengur laust 1989

Dýrið gengur laust 1989

Þegar lagið var tekið upp og gefið út í tveimur útgáfum á lítilli plötu um sumarið 1989, hlaut það nafnið Bláir draumar (eftir plötu sem Bubbi og Megas höfðu gefið út árið áður) og var það samstundis bannað á útvarpsstöðvunum. Sagan segir að Skúli Helgason hefði leikið lagið í þætti sínum á Rás 2 og verið tekinn á teppið í kjölfarið hjá útvarpsstjóra. Í umfjöllun Pressunar fáeinum árum síðar yfir dónalegustu og grófustu plötur íslenskrar tónlistarsögu kom platan upp í fyrsta sæti en þar var hún sögð hafa verið seld undir borðum í plötubúðunum.

Bláir draumar voru pressaðir upphaflega í takmörkuðu upplagi í bláan vínyl en svo virðist sem annað upplag hafi verið pressað (í svörtu) svo samtals fóru um þúsund eintök í sölu, en platan er að sjálfsögðu löngu ófáanleg.

Textinn við Bláa drauma þótti það grófur að hann verður ekki hafður eftir hér en í lesendabréfi sem birtist í Morgunblaðinu mátti lesa eftirfarandi orð: „… þeim virtist vera alveg sama hvort börn, unglingar eða fullorðið fólk væri að hlusti á þann sora sem þeir létu útúr sér, og vil ég ekki hafa eftir þeim hér það sem mátti skilja í textunum á milli hávaða og ópa í hljómsveitarmeðlimum. Er rétt að láta ómótuð börn og unglinga, sem eru kannski á viðkvæmu þroskastigi, hlusta og alast upp við þvílíkan sora og hávaða sem hljómsveitir líkt og Dýrið gengur laust láta frá sér.”

Dýrið gengur laust 2

Dýrið gengur laust

Reyndar gengu þær sögur að Bubbi hefði gengið á eftir hljómsveitarmeðlimum og lamið þá í klessu en á sama tíma hefði Megas glott yfir tiltækinu – það voru einungis sögusagnir. Síðar sagði Jón söngvari, sem samdi textann, að hann hefði dauðséð eftir þessu. Bjarni móhíkani, sem hafði staðið að útgáfu plötunnar, hafði einnig samband við Megas og Hörð að minnsta kosti, og baðst afsökunar á tiltækinu.

Um haustið höfðu orðið mannabreytingar í sveitinni en þá voru Gunnþór og Jóhann horfnir á braut en í þeirra stað komnir Ari Eldon bassaleikari sem þá lék einnig með Bless, og Jónbjörn Valgeirsson (Jónbi) trommuleikari sem hafði verið í Sjálfsfróun áður.

Lítið heyrðist til sveitarinnar næstu mánuðina utan þess að hún auglýsti eftir hljóðfæraleikurum um vorið 1990.

Um haustið birtist Dýrið aftur og þá skipuð nýjum meðlimum að öllu leyti utan Jóns söngvara en hann var þá eini upprunalegi meðlimurinn. Hinir nýju meðlimir sveitarinnar voru Guðni Finnsson (síðar í Ensími o.fl.) sem þá var ungur og efnilegur bassaleikari nýfluttur austan frá Norðfirði og Hreinn Stephensen gítarleikari en hann átti síðar eftir að leika með Risaeðlunni. Ekki er ljóst hvort Jónbjörn var þarna ennþá trymbill sveitarinnar eða hvort nýr hafði tekið sæti hans.

Veturinn 1990-91 lék Dýrið gengur laust eitthvað á tónleikum sem fyrr og fór síðan í hljóðver líklega í kringum áramótin en um vorið 1991 bárust þær fréttir að sveitin væri hætt störfum.

Snælda kom þó út 1991 með efninu sem tekið hafði verið upp, auk tónleikaupptaka, alls um klukkustundar langt efni undir titlinum Harðasta rokkið í dalnum vol. 1. Eigið útgáfufyrirtæki Tvöföld stinning, gaf snælduna út í fimmtíu eintökum en litla platan hafði einnig verið gefin út af sveitinni sjálfir undir útgáfumerkinu Saurgatið.

Ennfremur hafði safnplatan World domation or death komið út 1990 en á geislaplötuútgáfu hennar voru nokkur aukalög, þar á meðal lag með Dýrinu.

Efni á plötum