Kartöflumýsnar (1991-98)

Kartöflumýsnar

Kartöflumýsnar

Hljómsveitin Kartöflumýsnar var gæluverkefni nokkurra stúdenta við læknadeild Háskóla Íslands á tíunda áratug síðustu aldar.

Reyndar er allt eins hægt að kalla Kartöflumýsnar fjöllistahóp frekar en hljómsveit en sveitin var duglega að búa til myndbönd, og vakti reyndar einna mest athygli fyrir eitt slík sem sveitin strippaði í.

Meðlimir Kartöflumýsna voru ekki tónlistarmenn í þrengsta skilningi þess orðs en þessi um það bil tíu manna hópur kunni lítið á hljóðfæri en fékk í staðinn til liðs við sig nokkra hljóðfæraleikara í hljóðverið samhliða því að læra sjálf á hljóðfærin í hljóðverinu. Þannig var sveitin fyrst og fremst hljóðverssveit en lék þó einstöku sinnum á árshátíðum og slíkum lokuðum samkomum. Stofnár sveitarinnar mun hafa verið 1991.

Erfitt er að finna nákvæmar heimildir um hverjir skipuðu hópinn en fremstir þar í flokki voru þau Lýður Árnason og Íris Sveinsdóttir sem sömdu megnið af lögunum en einnig voru í hópnum Björn Hjálmarsson, Hafliði Gíslason, Kristín Leifsdóttir, Unnur Carlsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson. Sem fyrr segir skipuðu hópinn um tugur fólks en það mun eingöngu hafa verið svokallaður kjarni sveitarinnar svo að heildarfjöldi Kartöflumýsna verður sjálfsagt eitthvað á reiki enda hlutverk einstakra músa mis veigamikið.

Kartöflumýsnar gáfu út tvær plötur, sú fyrri kom út 1995 og bar heitið Kartöflumýsnar í lummubakstri. Platan sem kom út í litlu upplagi fór ekki hátt en tveir dómar birtust þó um hana í fjölmiðlum, bæði gagnrýnendur Morgunblaðsins og DV gáfu henni sæmilega dóma. Mikill fjöldi hljóðfæraleikara kemur við sögu á þessari plötu en erfitt er að henda reiður á hverjir voru í raun Kartöflumýs og hverjir gestir.

Síðari platan kom út 1998 en þá hafði hópurinn tvístrast nokkuð, Lýður starfaði þá til að mynda á Vestfjörðum og gæti Ólafur Ragnarsson (Óli popp) þá hafa verið einn meðlima sveitarinnar. Þeir tveir komu ári síðar við sögu Karlrembu-plötunnar þar vestra og hugsanlegt er að fleiri Kartöflumýs hafi verið viðloðandi þá plötu.

Seinni plata Kartöflumúsanna bar líklega nafn sveitarinnar og finnast afar litlar upplýsingar um hana.

Efni á plötum