Keflavíkurkvartettinn (1963-73)

Keflavíkurkvartettinn

Keflavíkurkvartettinn ásamt Jónasi Ingimundarsyni

Keflavíkurkvartettinn var eins konar útibú frá Karlakór Keflavíkur og starfaði um áratuga skeið á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar.

Tilurð kvartettsins varð með þeim hætti að hann var settur saman fyrir skemmtiatriði á tíu ára afmæli Karlakórs Keflavíkur vorið 1963, þá undir stjórn Herberts H. Ágústssonar. Uppákoman heppnaðist það vel að ákveðið var að halda áfram með hann og var hann æ síðan hluti af dagskrá karlakórsins en hélt einnig sjálfstæða tónleika. Kvartettinn fór til að mynda í söngferðalag um vestan- og norðanvert landið.

Meðlimir Keflavíkurkvartettsins voru þeir Guðmundur Haukur Þórðarson fyrsti tenór, Sveinn Pálsson annar tenór, Ólafur Ríkharð Guðmundsson fyrsti bassi og Jón Marinó Kristinsson annar bassi. Jónas Ingimundarson varð stjórnandi kvartettsins 1966 auk þess að vera undirleikari hans en áður hafði Ragnheiður Skúladóttir annast undirleikinn.

Keflavíkurkvartettinn starfaði til ársins 1973, með einhverjum hléum þó. 1968 kom út fjögurra laga plata á vegum kvartettsins en á þeirri plötu annaðist Þórir Baldursson útsetningar og hljómsveitarstjórn. Platan fékk ágæta dóma í Tímanum.

Efni á plötum