KFUM & the andskodans (1992-2004)

kfum-and-the-andskotans

KFUM & the andskotans

Litlar upplýsingar er að finna um hljómsveitina KFUM & the andskodans (skammstöfunin KFUM stendur fyrir Klessukeyrt fólk undir mótorhjólum), en svo virðist sem um sé að ræða eins konar tónlistarklúbb innan bifhjólasamtakanna Sniglanna. Sveitin er þ.a.l. náskyld hljómsveitum á borð við Sniglabandinu, B P & þegiðu Ingibjörg, Með læti og Hress, sem allar eru angi af sömu rótinni. Fleiri sveitir mætti eflaust finna undir þeim skyldleika.

Sveitin kom fyrst fram undir þessu nafni 1992 og svo skaut henni reglulega upp á yfirborðið 1995-96, 1998, 2000 og 2004, en hún gæti þess vegna ennþá verið starfandi þótt það fari ekki hátt.

Einu útgefnu afurðir KFUM & the andskodans er að finna á safnplötunni Lagasafnið 5, sem út kom 1996. Annað lag sveitarinnar á plötunni var Einar áttavillti, en það hafði beina vísun í lagið Þú vilt ganga þinn veg sem Einar Ólafsson hafði flutt og gefið út á tveggja laga plötu 1973.

Meðlimir sveitarinnar á þessari safnplötuútgáfu eru Þorsteinn Marel [?] gítarleikari, Sigurður Kristinsson gítarleikari, Katrín Hildur Jónsdóttir söngkona, Arnar Stefánsson bassaleikari, Andri Hrannar Einarsson trommuleikari og Einar Rúnarsson hljómborðsleikari.

Reyndar voru ekki allir sáttir við meðhöndlan sveitarinnar á laginu um Einar áttavillta og eftirfarandi lesendabréf birtist í DV í kjölfarið: „Rétt nokkur orð um plötu eina [?] sem ég heyrði kynnta í RÚV nýlega. Hún hét að mig minnir „KFUM and the andskotans“. Aðra eins tónlist og svakalegri hef ég ekki heyrt lengi. Og nafnið, maður minn… Er Ríkisútvarpinu ekkert heilagt? Er þar tekið við hverju sem að þeim er rétt úr ræsinu, ef svo má að orði komast?“ Undir þetta ritaði Hannes.

Þrátt fyrir meðlimaskipan hér að ofan (fengna úr bæklingi Lagasafnsins 5) má gera ráð fyrir að ýmsar mannabreytingar hafi átt sér stað í sveit eins og þeirri sem hér um ræðir, til að mynda er í einni heimild talað um gítarleikarann Jonna gítarbrjót, og gæti sveitin ennfremur í upphafi hafa gengið undir nafninu KFUM & the andskodans Jonni.

Heimildir herma að m.a. hafi Bryndís Sunna Valdimarsdóttir sungið með sveitinni og Arnar Þór [?] hljómborðsleikari verið í henni einnig en allar upplýsingar um aðra hugsanlega meðlimi sveitarinnar má senda til Glatkistunnar.