Kiðlingarnir (1999-2003)

Kiðlingarnir

Kiðlingarnir

Kiðlingarnir var hópur krakka sem starfaði sem söngflokkur og um tíma sem hljómsveit, undir leiðsögn og stjórn Ómars Óskarssonar.

Kiðlingarnir voru fjórir talsins, Ómar Örn Ómarsson og Óskar Steinn Ómarsson synir fyrrnefnds Ómars en einnig voru tvær frænkur þeirra, Hrefna Þórarinsdóttir og Þóranna Þórarinsdóttir í hópnum, þær eru þó ekki systur. Upphaflega voru einnig Arnar Þór Þórsson og Kristján Valgeir Þórarinsson í flokknum og komu þau öll við sögu á fyrri útgáfu Kiðlinganna, smáskífu sem bar heitið Gleðileg jól og kom út fyrir jólin 2000, hún hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Reyndar kölluðu þau sig þá Kiðlingana 6 en þau voru þá á aldrinum sex til þrettán ára.

Kiðlingarnir sem þarna í upphafi var fremur söngflokkur heldur en hljómsveit, hóf að koma fram á skemmtunum haustið 1999, til dæmis fyrir aldraða en einnig á barnasamkomum. Eftir að smáskífan Gleðileg jól kom út kvarnaðist úr hópnum sem fyrr segir og eftir það komu þau fram sem kvartett, og þá munu þau hafa leikið á hljóðfæri einnig svo með sanni má kalla Kiðlingana hljómsveit í kjölfarið.

Kiðlingarnir1

Fjórir kiðlingar

Vegur og hróður Kiðlinganna jókst og þau voru dugleg að skemmta sumarið 2001, þá var önnur plata tekin upp sem kom út um haustið og hét einfaldlega Kiðlingarnir. Platan fékk nokkra athygli og fékk hún ágæta dóma í Morgunblaðinu en síðri í DV.

Nokkur myndbönd með þeim voru ennfremur leikin í barnatímum sjónvarpsstöðvanna, og vakti framganga þeirra athygli út fyrir landsteinana en í árslok 2001 bauðst þeim að koma fram í sjónvarpi á Norðurlöndunum, á TV2 í Danmörku og í norska ríkissjónvarpinu, NRK. Vorið eftir (2002) fóru Kiðlingarnir síðan í ferðina til Danmerkur og Noregs í upptökur, og var eins konar ferðasaga gerð um þá reisu og gefin út ásamt myndböndunum.

Kiðlingarnir störfuðu fram á árið 2003.

Efni á plötum