Bifhjólasamtök lýðveldisins [félagsskapur] (1984-)

Bifhjólasamtök lýðveldisins eða bara Sniglarnir tengjast óbeint íslenskri tónlistarsögu með einum og öðrum þætti, m.a. með útgáfu tveggja platna.

Samtökin voru stofnuð vorið 1984 og urðu strax öflugur málsvari mótorhjólafólks, ört fjölgaði í hópnum og þegar haldið var upp á ársafmælið voru meðlimir um hundrað talsins, ári síðar hafði fjöldinn tvöfaldast og þegar þetta er ritað telja samtökin hátt í tvö þúsund manns.

Þótt félagsskapur Sniglanna sé fyrst og fremst tengdur akstri mótorhjóla hefur tónlist verið órjúfanlegur partur af starfseminni, t.a.m. eru landsmót, góðgerðardansleikir og aðrar samkomur þeirra yfirleitt með lifandi tónlist og hafa hljómsveitir orðið til beint og óbeint í tengslum við Sniglanna þar má nefna sveitir eins og KFUM & the andskodans og auðvitað Sniglabandið.

Tvær plötur hafa komið út beint á vegum Sniglanna. Útgáfa fyrri plötunnar var afleiðing eins konar flipps þeirra Skúla Gautasonar og Þormars Þorkelssonar sem voru meðal stofnenda samtakanna en í afmælispartíi þess fyrrnefnda haustið 1984 kom upp sú hugmynd að gefa út plötu. Daginn eftir voru tvö lög tekin upp við undirleik Skúla á kassagítars og flautuleik Sigríðar Eyþórsdóttur en Skúli söng sjálfur.

Annað laganna var lagið Jólahjól en flestir þekkja það auðvitað í útgáfu Sniglabandsins, þá með Stefán Hilmarsson sem söngvara, frá 1987. Hitt lagið hlaut nafnið Þríhjól og kom út síðar í annarri útgáfu með Sniglabandinu. Platan, sem var vínylplata var óvenjuleg að því leyti að vera tveggja laga 45 snúninga en hins vegar 12 tommur að stærð en skýringin á því var að þeir félagar máttu ekkert vera að því að bíða eftir að stillingum á tækjakostinum í plötupressuninni væri breytt. Umslagið myndskreyttu þeir sjálfir og seldu plötuna síðan á götum úti, alls fimm hundruð eintök. Sagan segir að platan hafi notið töluverðra vinsælda í Grindavík.

Síðari plata Bifhjólasamtaka lýðveldisins kom út 1994 þegar haldið var upp á tíu ára afmæli þeirra. Meðlimir Sniglanna tóku þá upp og gáfu út fjórtán lög eftir sjálfa sig undir stjórn Björgvins Ploder undir titlinum Sniglar í söngolíu en platan var gefin út í tölusettu þúsund eintaka upplagi. Lögin fjölluðu öll á einn eða annan hátt um akstur mótorhjóla og söng m.a. heiðursmeðlimur Sniglanna, Ómar Ragnarsson eitt laganna.

Segja má að hljómsveitin Sniglabandið komi nokkuð við sögu á þessum tveimur plötum en meðlimir þess bands, sem var stofnað 1985, koma nokkuð við sögu á báðum plötunum.

Efni á plötum