Afmælisbörn 13. mars 2016

Jonni í Hamborg Jóhannes Þorsteinsson

Jonni í Hamborg

Fjögur afmælisbörn koma við sögu á Glatkistunni í dag:

(Þórir) Karl Geirmundsson gítarleikari frá Ísafirði er sjötíu og sjö ára en hann lék í BG & Ingibjörgu með bróður sínum Baldri Geirmundssyni, en sú sveit gekk reyndar undir ýmsum nöfnum. Einnig lék Karl á sínum tíma með Hljómsveit Vilbergs Vilbergssonar (Villa Valla), Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Lúdó & Stefáni svo nokkrar séu nefndar.

Baldur Baldvinsson, annar Rangárbræðra (frá Rangá í Köldukinn) er sextíu og átta ára gamall á þessum degi. Hann hefur gefið út plötu með Baldvini bróður sínum, sungið í karlakórunum Hreimi og Goða nyrðra auk þess að syngja á plötu Aðalsteins Ísfjörð.

Axel Haraldsson trommuleikari Hjaltalín er tuttugu og níu ára. Hann hefur aukinheldur leikið með hljómsveitum eins og Reimum, Fallegum mönnum, Heiðurspiltum og Búdrýgindum, sem sigruðu Músíktilraunir árið 2002.

Jóhannes Vilhelm Guðmundsson Þorsteinsson (Jonni í Hamborg) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann var einn frumkvöðla í djasstónlist á Íslandi. Jonni (f. 1924) var píanóleikari sem hélt fyrstu djasstónleikana í Íslandssögunni í Gamla bíói 1946, aðeins þremur mánuðum síðar lést hann af slysförum í Danmörku.