Pax vobis (1983-86)

Pax Vobis

Pax vobis

Pax vobis var meðal nýbylgjusveita á fyrri hluta níunda áratugarins sem sóttu áhrif sín til sveita eins og Japan og var tónlistin jafnan kennd við nýrómantík.

Þrír meðlimir sveitarinnar sem allir voru ungir að árum, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson gítarleikari, Skúli Sverrisson bassaleikari og Ásgeir Sæmundsson söngvari og hljómborðsleikari höfðu starfað saman í hljómsveitinni Exodus en hún hafði hætt störfum 1982.

Þremenningarnir höfðu þá haldið áfram að vinna tónlist saman þótt ekki væri það undir neinu nafni enda komu þeir ekkert fram opinberlega. Þegar fjórði meðlimurinn, trommuleikarinn Sigurður Hannesson bættist í hópinn sumarið 1983 varð vinnan markvissari og um haustið kom sveitin í fyrsta skipti fram opinberlega undir nafninu Pax vobis, sem er latína og mætti útleggast sem Friður sé með yður!

Pax vobis spilaði reglulega á tónleikum og var fljótlega sett í flokk með Sonus Futurae, Baraflokknum og öðrum viðlíka sveitum, og vakti mikla athygli fyrir vandaða tónlist. Enda fór svo að í ársbyrjun 1984 bárust þær fréttir að sveitin væri farin að vinna plötu sem Steinar myndu gefa þá út um sumarið.

Um líkt leyti hætti Sigurður trymbill sveitarinnar og tók Steingrímur Óli Sigurðsson við keflinu af honum en hann lék þá með hljómsveitinni Gömmunum sem Skúli bassaleikari var einnig í.

Þetta sama vor, 1984 hlaut sveitin þann heiður að leika fyrir Íslands hönd á norrænni tónlistarhátíð í Finnlandi og kom hún þaðan aftur með viðurkenningu.

Þegar platan kom út síðsumars var Steingrímur hættur í Pax vobis og þriðji trommuleikarinn, Þorsteinn Gunnarsson kominn í hans stað. Þorsteinn Jónsson hljómborðsleikari (Sonus futurae o.fl.) var þá einnig genginn til liðs við sveitina sem var þar með orðin að kvintett.

Pax Vobis 1983

Pax vobis 1983

Platan hlaut nafn sveitarinnar og fékk fremur misjafna dóma þótt flestir væru þeir jákvæðir, hún fékk fremur slaka dóma í Þjóðviljanum, þokkalega í Helgarpóstinum en mjög góða í NT, DV, Morgunblaðinu og Degi á Akureyri.

Pax vobis fylgdi plötunni eitthvað eftir með tónleikahaldi og allt árið 1985 lék hún með reglulegu millibili. Skúli fór til náms í Bandaríkjunum og hætti í sveitinni snemma árs 1986 og eftir það starfaði hún ekki ýkja lengi. Jakob Smári Magnússon leysti Skúla af þann tíma sem hljómsveitin starfaði eftir það en það mun hafa verið um sumarið 1986 sem hún hætti endanlega störfum.

Meðlimir sveitarinnar störfuðu allir við tónlist í framhaldinu en mest áberandi þeirra urðu þremenningarnir Ásgeir söngvari sem gaf út nokkrar sólóplötur undir nafninu Geiri Sæm og naut meðal annars fulltingi annarra Pax vobis liða á fyrstu plötunni (enda voru það lög sem sveitin var byrjuð að vinna fyrir nýja plötu), Skúli bassaleikari sem hefur gefið út sólóplötur og starfað mestmegnis í Bandaríkjunum og Þorvaldur Bjarni gítarleikari sem hefur starfað með sveitum eins og Todmobile auk þess að vera í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna.

Efni á plötum