Exodus [1] (1978-81)

Exodus

Exodus

Exodus var hljómsveit sem skipuð var nokkrum ungmennum á aldrinum 13-15 ára sem síðar urðu þjóðþekktir tónlistarmenn, sveitin skóp af sér tvær þekktar sveitir síðar.

Sveitin var stofnuð síðla árs 1978 í Árbænum en haustið 1979 hafði hún tekið á sig endanlega mynd, þá var hún skipuð söngkonunni og þverflautuleikaranum Björk Guðmundsdóttur, Ásgeiri Sæmundssyni (Geira Sæm) gítarleikara, Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni gítarleikara (Todmobile o.fl.), Skúla Sverrissyni bassaleikara og Oddi F. Sigurbjörnssyni trommuleikara (Foringjarnir, Santiago o.fl.). Einnig var Marteinn Böðvar Þórhallsson (Sigurðssonar (Ladda)) slagverksleikari viðloðandi sveitina sem og Sigurður Helgason trommuleikari sem lék um tíma með henni.

Segja má að Exodus hafi hlotið eldskírn sína er hún lék í Stundinni okkar í ríkissjónvarpinu. Sveitin lagði alltaf áherslu á eigin tónlist sem var illskilgreinanleg en hún varð nokkuð þekkt í kjölfar sjónvarpsþáttarins og spilaði töluvert, mest í skólum en einnig á tónlistarhátíðum eins og Annað hljóð í strokkinn.

1980 hættu Björk og Oddur í sveitinni til að ganga til liðs við aðra sveit, Jam ´80 (sem síðar varð að Tappa tíkarrass) en Guðmundur Gunnarsson trommuleikari gekk í Exodus í stað Odds. Guðmundur staldraði þó ekki lengi við því hann var vélaður yfir í hina nýju sveit Bjarkar og félaga (1981) sem þá hét orðið Tappi tíkarrass. Þeir þrír sem eftir sátu með sárt ennið í Exodus (Ásgeir, Þorvaldur og Skúli) stofnuðu síðan nýja sveit sem hlaut nafnið Pax Vobis og varð nokkuð þekkt. Það má því segja að Exodus hafi verið eins konar uppeldisstöð fyrir verðandi atvinnutónlistarfólk.