E-X (1986-89)

E-X

E-X

Hljómsveitin E-X starfaði undir lok níunda áratugar liðinnar aldar og þótti efnileg en skildi þó líklega aldrei eftir sig almennilegan minnisvarða, tónlistarskríbentar þess tíma voru reyndar duglegir að kalla hana óheppnustu hljómsveit Íslandssögunnar.

E-X var hafnfirsk, stofnuð um áramótin 1986-87 upp úr annarri sveit, Prófessor X sem hafði að mestu verið skipuð sömu meðlimum og gekk reyndar í upphafi undir nafninu X

Meðlimir voru í upphafi þremenningarnir Pétur Hallgrímsson söngvari og gítarleikari (Cosa nostra o.fl.), Ragnar Óskarsson bassaleikari og Eyjólfur Lárusson trommuleikari en um vorið bættist í hópinn Davíð Magnússon gítarleikari (sonur Magnúsar Kjartanssonar) en hann söng einnig, þeir voru allir fremur ungir að árum þrátt fyrir að hafa verið viðloðandi bransann um nokkurn tíma.

Hljómsveitin þótti strax fremur efnileg með sitt rokk undir bandarískum áhrifum, margir vildu líkja henni við REM en þeir voru sjálfir ekki endilega á þeim buxunum. Þeir fluttu efni sitt, sem Pétur samdi að mestu, á ensku en ekki voru þó allir á eitt sáttir um þá ákvörðun, sveitin var t.a.m. komin með útgáfusamning en sú plata kom aldrei út þar sem skilyrðið var að efnið yrði á íslensku. Það varð því úr að þeir ákváðu að gefa sitt efni út sjálfir og 1988 kom út lítil tveggja laga plata sem átti að verða forsmekkurinn fyrir stóru plötuna sem var væntanleg. Til gamans má geta að þegar útgáfutónleikar voru haldnir í Tunglinu hitaði ný sveit, Ham, upp fyrir E-X. Reyndar segir sagan líka að upplag plötunnar hafi aldrei komið til landsins, það hafi verið tekið í pant af sænska fyrirtækinu sem annaðist pressunina, vegna skulda upptökufyrirtækisins Mjöt sem annaðist upptökurnar. Áður höfðu komið út tvö lög á safnsnældunni Snarl 2 (1987) sem gefin var út af Erðanúmúsík.

Sem fyrr segir spilaði E-X töluvert opinberlega, hitaði m.a. upp fyrir bandarísku rokksveitina T.S.O.L. haustið 1987. Haustið 1989 fór sveitin ásamt nokkrum öðrum til Sovétríkjanna stuttu áður en hún hætti störfum um áramótin 1989-90 og í kjölfarið birtust meðlimir E-X í sveitum eins og Bubbleflies og Regn, og hafa komið víða við síðan.

Margt er óljóst í sögu sveitarinnar og eru allar upplýsingar vel þegnar, heimildir segja t.d. að stór plata hafi verið tilbúin en upplagið týnst í Englandi, einnig að tvær snældur hafi komið út með E-X.

Efni á plötum