Tappi tíkarrass (1981-83)

Tappi tíkarrass1

Björk söngkona Tappa tíkarrass eins og hún kemur fyrir í Rokk í Reykjavík

Hljómsveitin Tappi tíkarrass var hluti af félagsskapnum STÍFT (samtök trylltra íslenskra flippara og tónlistarmanna) þar sem tónlistin var ekki endilega aðalatriðið. Undanfari þessarar sveitar var Jam 80 en vorið 1981 breyttu þau nafninu í Tappa tíkarrass. Hópurinn hafði samanstaðið af Eyþóri Arnalds söngvara (Todmobile o.fl.), Jakobi Smára Magnússyni bassaleikara (Das Kapital o.fl.) og Eyjólfi Jóhannessyni gítarleikara (SSSól), síðan bættist við trommuleikarinn Oddur F. Sigurbjörnsson (Exodus) og Björk Guðmundsdóttir söngkona (Exodus, Sykurmolarnir o.fl.), áður en þau fóru að kalla sig Tappa tíkarrass. Sveitin vakti fyrst verulega athygli þegar hún kom fram í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík en þar átti hún tvö lög. Mynd af Björk söngkonu prýddi einmitt auglýsingaplagg myndarinnar.

Í kjölfarið tók Tappinn upp fimm laga plötu í Hljóðrita sumarið 1982 undir stjórn Tony Cook en Eyþór var þá hættur í sveitinni, farinn að nema sellóleik. Guðmundur Þór Gunnarsson var ennfremur orðinn trommuleikari sveitarinnar. Lagið Ilty ebni vakti athygli margra og fékk t.d. ágæta dóma í tímaritinu Samúel og þokkalega í bók Jens Guðmundssonar, Poppbókinni, annars fór platan ekki hátt. Platan sem hlaut nafnið Bitið fast í vitið og gefin var út af Skífunni er í dag ófáanleg og er talin dýrmæt meðal safnara. Þetta sama haust (1982) fór sveitin til Noregs og spilaði á þarlendri rokkhátíð.

Tappi tíkarrass

Tappi tíkarrass

1983 fékk Tappi tíkarrass það hlutverk að annast tónlistina í kvikmyndinni Nýju lífi sem um það leyti var verið að vinna í Vestmannaeyjum. Þegar til kom heyrðist lítið af tónlistinni í myndinni en tvö laganna komu reyndar út á safnplötunni SATT 3 sem kom út 1984.

Vorið 1983 hélt sveitin til Bretlands og tók upp breiðskífuna Miranda sem Grammið gaf síðan út. Miranda reyndist svanasöngur sveitarinnar en hún hætti störfum um haustið. Meðlimir Tappans áttu þó eftir að poppa upp á ólíklegustu stöðum, Jakob og Eyjólfur gerðu garðinn frægan með SSSól og Grafík (og Jakob reyndar líka með Das Kapital ásamt Guðmundi trommuleikara, Eyþór birtist á sjónarsviðinu með Todmobile og sögu Bjarkar þekkja allir.

Lög með sveitinni komu út á safnplötunum Ein með öllu (1983) og Nælur (1998), auk þeirra sem taldar eru upp hér að ofan.

Efni á plötum