Piltur & stúlka (1995)

Piltur og stúlka

Tómas og Ingunn

Tvíeykið Tómas Hermannsson og Ingunn Gylfadóttir sendu frá sér eina breiðskífu undir heitinu Piltur & stúlka haustið 1995 en platan vakti nokkra athygli.

Tómas (f. 1971) og Ingunn (f. 1969) voru par á sínum tíma en höfðu hafið eiginlegt tónlistarsamstarf með þátttöku í undankeppni Eurovision keppninnar haustið 1991 fyrir keppnina sem haldin var 1992. Þar gekk þeim allt í haginn og áttu þau tvö lög í tíu laga úrslitakeppninni.

Þess má geta að Ingunn er dóttir Gylfa Gunnarssonar sem löngum hefur verið nefndur í sömu andrá og hljómsveitin Þokkabót en hún hafði sent frá sér plötuna Krakkar á krossgötum á barnsaldri auk þess að vera í hljómsveitinni MARÍ(A) á Seyðisfirði á unglingsárunum. Tómas hafði aftur verið í hljómsveitum á Akureyri, m.a. Börtum (The Sideburns).

Í framhaldi af velgengninni í Eurovision undankeppninni tóku þau upp breiðskífuna Endist varla í samstarfi við Kristján Edelstein á Akureyri og höfðu sér til fulltingis nokkra tónlistarmenn, m.a. Magnús Eiríksson sem leikur á munnhörpu á plötunni, Pálma Gunnarsson bassaleikara og Sigfús Óttarsson trymbil svo einhverjir séu nefndir. Sjálfur lék Tómas á gítarara en Ingunn sá að mestu um sönginn. Þau Tómas og Ingunn sömdu tónlistina á plötunni en textarnir komu úr ýmsum áttum.

Endist var hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda fjölmiðlanna, góða dóma í Morgunblaðinu og Degi og þokkalega í DV og Helgarpóstinum.

Ekki varð framhald á plötuútgáfu þeirra Pilts & stúlku undir því nafni en Ingunn og Tómas komu einnig að barnaefni undir nafninu Ferðafélagi barnanna og tóku síðar þátt í undankeppnum Eurovision 2003 og 2006 með ágætum árangri.

Efni á plötum