PKK (1996-2007)

PKK

PKK frá Akureyri

Akureyska hljómsveitin PKK var upp á sitt besta í kringum síðustu aldamót og var lengi eins konar húshljómsveit á veitingastaðnum Við pollinn.

PKK nafnið kemur fyrst upp í fjölmiðlum vorið 1996, en áður höfðu þeir félagar, Pétur Steinar Hallgrímsson söngvari og gítarleikari og Kristján Ólafur Jónsson bassaleikari, byrjað sem dúettinn PK en þeir höfðu enn fyrr starfað saman í Rokkbandsbræðrum á Akureyri. Þegar Karl Olgeirsson bættist í hópinn tóku þeir upp nafnið PKK, stundum PKK tríóið.

Um sumarið 1996 hafði Kristján Edelstein gítarleikari tekið við af Karli og þannig átti PKK eftir að starfa lengst af, oft þó með aukamannskap, trommuleikararnir Sigfús Óttarsson, Benedikt Brynleifsson og Haukur Pálmason voru meðal þeirra og e.t.v. fleiri. Sveitin mun hafa gengið undir öðrum skammstöfunum ef svo bar undir, t.d. kölluðu þeir sig SPK er Sigfús, Pétur og Kristján skipuðu sveitina einhverju sinni.

PKK lék aðallega írska þjóðlagatónlist og haustið 1996 kom út þeirra eina plata, hún bar titilinn Sumar á Írlandi og hafði að geyma írska tónlist að mestu í bland við frumsamið efni. Platan var tekin upp í Stúdíó Hljóðlist á Akureyri sem Kristján Edelstein starfrækti. Sumar á Írlandi (sem er augljós skírskotun í fyrstu breiðskífu Stuðmanna) fékk ágæta dóma í Degi-Tímanum.

PKK starfaði að minnsta kosti til ársins 2007 en með hléum þó, sveitin var húshljómsveit á Við Pollinn og lék mestmegnis á heimaslóðum en fór reyndar mjög víða um landið með prógramm sitt.

PKK átti lag á safnplötunni Skref fyrir skref sem kom út 2001 til styrktar handknattleiksdeildar KA á Akureyri.

Efni á plötum