Blús milli fjalls og fjöru

Blús milli fjalls og fjöru 2016Blúshátíðin „Blús milli fjalls og fjöru“ verður haldin á Patreksfirði helgina 2. og 3. september næstkomandi en þetta er í fimmta sinn sem hátíðin fer fram.

Það verða stórmenni í tónlistarlífi landans, þeir KK og Maggi Eiríks, sem hefja leik á föstudagskvöldinu. Þessa snillinga er óþarft að kynna enda miklir áhugamenn um blústónlist og hafa samið marga góða auk þess að hafa spilað blús í áratugi. Föstudagskvöldið verður að öllum líkindum notarlegt og skemmtilegt kósýkvöld með eldri og kannski eitthvað af nýlegri blústónlist sem gaman er að hlusta á með létta drykki og góðum fíling.

Síðara kvöldið, laugardagskvöldið verður það hljómsveitin Akur frá Ísafirði sem heldur uppi fjörinu en sveitin lék á hátíðinni í fyrra og fékk geysigóðar viðtökur. Fjölmargar óskir um endurkomu sveitarinnar hafa borist þeim sem standa að hátíðinni og var orðið við þeirra óskum. Ef að líkum lætur verður meira fjör á laugardagskvöldinu og dans stiginn því auðvitað er hægt að dansa við blústónlist. Meiri líkur en minni eru á að saxófónleikarinn landskunni og tónlistarkennari í Vesturbyggð, Einar Bragi Bragason stigi á svið.

Blús milli fjalls og fjöru vonast til að sjá sem flesta í félagsheimilinu á Patrekfirði og verður verði stillt í hóf, aðeins 2.500 krónur, svo að flestir ættu að sjá sér fært um að mæta og njóta blússins. Húsið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 bæði kvöldin.