Afmælisbörn 7. september 2016

Heiðar Örn Kristjánsson

Heiðar Örn Kristjánsson

Að þessu sinni eru afmælisbörnin fjögur talsins:

Heiðar Örn Kristjánsson er fjörutíu og tveggja ára. Eins og flestir muna er hann einn af Pollapönks genginu sem fór í Eurovision keppnina 2014 en hann var líka í Botnleðju sem sigraði Músíktilraunir 1995, gáfu út plötur og herjuðu á Bretlandaseyjar um tíma undir nafninu Silt, hann var auk þess í Hafnarfjarðarmafíunni. Heiðar gaf enn fremur út plötu undir nafninu Viking giant show árið 2008.

Hjörtur Ingvi Jóhannsson hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín er tuttugu og níu ára gamall en hann hefur starfað með sveitinni frá upphafi og spilað á plötum hennar, hann gaf einnig út plötu ásamt Sveini Dúu Hjörleifssyni árið 2011. Hjörtur hefur ennfremur verið í hljómsveitunum Reimum og Svitabandinu.

Andrés Kolbeinsson óbóleikari átti afmæli á þessum degi einnig en hann fæddist árið 1919 og lést 2009, níræður að aldri. Andrés nam tónlist sína í Reykjavík og Manchester á Englandi og kom heim til að verða einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands um miðja síðustu öld. Hann lék með hljómsveitinni í um þrjátíu ár og starfaði einnig við tónlistarkennslu.

Sigfús Halldórsson tónskáld og tónlistarmaður (1920-96) átti ennfremur þennan afmælisdag. Sigfús lék og söng inn á fjölda hljómplatna með eigin efni, og einnig hafa komið út nokkrar plötur með lögum hans í flutningi annarra listamanna. Meðal laga eftir Sigfús má nefna Tondeleyó, Dagný, Játning, Í grænum mó, Við eigum samleið, Lítill fugl, Vegir liggja til allra átta og Litla flugan, sem er að öllum líkindum þekktasta lag hans.