SATT [félagsskapur] (1979-90)

fra-stofnfundi-satt-1979

Frá stofnfundi SATT 1979

Félagssamtökin SATT voru starfrækt meðal tónlistarmanna um árabil og áorkuðu heilmiklu fyrir félags- og réttindamál þeirra.

Félagið var stofnað haustið 1979 undir nafninu Samtök alþýðutónskálda og tónlistarmanna, skammstafað SATT, síðar var nafni þess breytt í Samband alþýðutónskálda og tónlistarmanna. Stofnfélagar voru nokkrir félagsmenn innan FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna) sem fannst vanta talsmann innan tónlistarhreyfingarinnar og fannst einnig hlutur sinn vera mjög takmarkaður þegar kom að útborgun STEF-gjalda, þrátt fyrir að megnið af tekjum STEFs kæmi vegna spilunar á þeirra tónlist í útvarpinu, þ.e. léttri tónlist. Alþýðutónskáld væru nánast réttlaus innan STEFs á meðan „æðri“ tónskáldin fengju miklu hærri tekjur af stefgjöldum. Í kjölfarið urðu nokkur blaðaskrif þar sem SATT og STEF skiptust á skoðunum um málið og svo fór að lokum (1983) að sættir tókust um jafnan hlut stefgjalda en þá höfðu verið stofnuð önnur samtök, FA (félag alþýðutónskálda) sem var höfundafélag innan SATT, sem vann að málunum. FA varð síðar að FTT.

Önnur mál voru ofarlega í réttinda- og stéttabaráttu SATT, unnið var að því að gera hlut lifandi tónlistar á Íslandi aftur að því sem áður hafði verið en diskótekin höfðu þá verið einráð á markaðnum um tíma, ástæðuna má að einhverju leyti rekja til hárrar skattlagningar á lifandi tónlist hérlendis og því vildu tónlistarmenn breyta, auk hárra tolla af hljóðfærum og öðrum græjum.

Ennfremur var stefnt að því að alþýðutónlistarmenn fengju þak yfir höfuðið fyrir félagsstarfsemi sína og því tóku samtökin upp á því í samvinnu við Jazzvakningu og fleiri að kaupa húsnæði við Vitastíg 3 í miðbænum, sem hægt væri að nýta sem aðstöðu fyrir starfsemina, auk upptaka og tónleikahalds.

SATT stóð fyrir hvers kyns dansleikja- og tónleikahaldi til að fjármagna kaupin á húsnæðinu auk daglegs reksturs, hin svokölluðu SATT-kvöld voru haldin reglulega en ýmsar aðrar leiðir voru farnar til að afla tekna, s.s. maraþontónleikar sem stóðu yfir í tvær vikur og fjörutíu og sex hljómsveitir komu að, happdrætti og síðast en ekki síst Músíktilraunir SATT sem haldnar voru fyrst haustið 1982 en þær hafa verið stór hluti af íslensku tónlistarlífi síðan þá þótt aðrir hafi þar vissulega tekið við keflinu.

Ennfremur stóð SATT fyrir útgáfu þriggja safnplatna sumarið 1984 sem seldar voru saman í pakka í um þúsund eintökum en plöturnar þrjár höfðu að mestu að geyma lög með fremur óþekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Þeirra á meðal má nefna Sverri Stormsker, Ingva Þór Kormáksson og Centaur sem þarna komu í fyrsta sinn út á plötu, Magnúsi Þór Sigmundssyni, Einari Vilberg, Grafík og Bergþóru Árnadóttur sem voru stærri nöfn, auk hljómsveita sem keppt höfðu í Músíktilraunum en þar á meðal voru sigurvegararnir úr fyrstu keppninni, DRON.

Síðast en ekki síst má nefna baráttu SATT ásamt FTT fyrir því að Ísland tæki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) en sú bið var á enda þegar Gleðibankinn var sendur í keppnina í Noregi vorið 1986.

Rekstur húsnæðisins við Vitastíg gekk aldrei vel, þar kom m.a. til að ríkið stóð ekki við sínar skuldbindingar um styrki til félagsins, og reyndar fór svo um tíma að gárungarnir kölluðu húsið Vitaskuld, þar var þó lengi félagsheimili tónlistarmanna og tónleikastaðurinn Púlsinn var þar rekinn um árabil.

Ýmsir tónlistarmenn komu að stjórn SATT á þeim tíma sem samtökin störfuðu, Egill Ólafsson var kjörinn formaður í upphafi en stöðu framkvæmdastjóra gegndi fyrst Eggert V. Kristinsson en síðan Jóhann G. Jóhannsson en sá síðarnefndi var lengstum aðalsprautan í félagsstarfinu og maðurinn á bak við margt sem samtökin áorkuðu. Fleira þekkt tónlistarfólk kom auðvitað einnig við sögu í stjórn en nokkur hundruð manns voru í SATT þegar best lét.

Eftir því sem á leið fór minna fyrir SATT enda höfðu samtökin þá í raun gengið inn í FTT sem upphaflega höfðu verið stofnuð inni í þeim, þótt SATT hafi í raun aldrei hætt má segja að það hafi horfið í kringum 1990. Þess verður þó alltaf minnst sem félags sem kom ýmsu í kring fyrir stéttabaráttu tónlistarmanna, og þá ekki síst fyrir fulltingi Jóhanns G. Jóhannssonar.

Efni á plötum