Safnplötur með áður óútgefnu og jaðarefni (1976-)

Sándkurl - Ýmsir

Safnplatan Sándkurl fellur undir þennan flokk

Hér er um að ræða þann safnplötuflokk sem hvað erfiðast er að henda reiður á, aðal ástæðan er sú að mikið er um að jaðarefni er gefið út án vitundar hins „almenna“ hlustanda og plötum innan hópsins jafnvel einungis dreift innan þröngs hóps. Þó hafa stóru útgáfurnar einnig gefið út efni sem fellur undir flokkinn.

Ennfremur er erfitt að skilgreina hvað fellur undir jaðarefni, tónlist sem gefin er út í tengslum við íþróttafélög fellur undir Stemmingstónlist en telst hún einnig jaðartónlist, það sama má segja um plötur eins og Rokk í Reykjavík sem hefur að geyma kvikmyndatónlist en fellur um leið undir jaðartónlist.

Safnplatan Í kreppu (1976) er að líkindum fyrsta platan sem kom út innan flokksins en þar var að finna áður óútgefið efni. Næstu árin gerðist lítið fyrr en eftir 1984, SATT plöturnar 1-3 komu þá út en þær voru gefnar út af félagsskap sem kallaðist Samtök alþýðutónskálda og tónlistarmanna (SATT) og innihéldu tónlist sem annars hefði varla komið út, í kjölfarið fóru hjólin heldur betur að snúast og menn fóru í framhaldinu að nýta sér snælduformið. Snarl-spólurnar, Strump o.fl. litu dagsins ljós og neðanjarðarútgáfan blómstraði og hefur gert síðan.

Þegar geislaplötuformið ruddi sér til rúms fóru sveitir af alls kyns tagi að rotta sig saman til að gefa út plötur, stundum var tónlistin svæðisbundin (sbr. Suðurlandsskjálftinn, Austfirskir staksteinar, Fjörðurinn okkar, Seyðisfjörður 100 ára o.fl.) en annars var allur gangur á því hvort einhvers konar tenging var milli flytjenda.

Ef hægt er að nefna seríur platna í þessum flokki skal fyrst geta Lagasafnsins en nokkrar plötur komu út á árunum 1992-99, einnig eru áðurnefndar SATT plötur sería og að síðustu má nefna Party zone plöturnar sem falla undir jaðartónlist.

Efni á plötum