
Hrif – fyrsta íslenska safnplötuserían
Þessi flokkur safnplatna hefur að geyma safnplötur með nýju efni, ýmist sem þegar hefur náð vinsældum en einnig ætlað til að ýta undir vinsældir, þær hafa verið gefnar út á Íslandi um árabil. Í flestum tilfellum hefur útgefendum þótt heillavænlegt að halda úti svokölluðu safnplötu-seríum þannig að dyggir og verðandi kaupendur gangi nokkurn veginn að því að þeir viti hvað þeir eru að kaupa, aukinheldur ýtir slík útgáfa undir að tónlistarunnendur komi til með að safna heilu seríunum.
Enn eru þó gefnar út „stakar“ safnplötur sem hafa þó einnig þann sama tilgang þ.e. að ýta undir og styðja vinsæla tónlist. Inn á milli er síðan laumað óþekktum flytjendum sem útgáfan hefur á sínum snærum, í því skyni að kynna þá sem líklega til vinsælda.
Erfitt er að segja til um hversu margar safnplötur hafi komið út á Íslandi, jafnvel hvað fellur undir skilgreininguna safnplata en ljóst er að þær sem falla undir þennan flokk (Safnplötur með nýju vinsælu efni) skipta hundruðum.
Fyrsta safnplatan sem fallið gæti undir þessum flokki væri Pop festival ´70 sem kom út 1970 og hafði að geyma vinsæla flytjendur frá því ári, næsta áratuginn komu út nokkrar slíkar (þ.á.m. Hrif og Hrif 2 sem telst vera fyrsta safnplötuserían) en það er ekki fyrr en upp úr 1980 að vinsældarpopp-safnplötur verða almennar, þá með blöndu íslenskra og erlendra laga. Það voru plötur eins og Flugur (1981), Gæðapopp (1981), Á fullu (1982), Beint í mark (1982), Næst á dagskrá (fyrsta tvöfalda safnplatan) (1982), Partý (1982), Sprengiefni (1982), Við suðumark (1982), Á stuttbuxum (1983), Ein með öllu (1983), Einmitt (1983), Ertu með (1983), Á rás (1984), Á slaginu (1984) og Tvær í takt (1984) sem útgáfurisar þess tíma, Fálkinn, Steinar og Skífan gáfu út enda voru þær útgáfur stórir innflytjendur tónlistar og höfðu því hagsmuna að gæta. Á þessum fjórum árum hafa líklega vel á fjórða tug slíkra safnplatna komið út og má með rétta kalla það blómaskeið safnplötuútgáfu á Íslandi, reyndar á kostnað annarrar plötusölu.
Það má því segja að safnplöturnar hafi tröllriðið plötumarkaðnum um þetta leyti, þarna var pönkið komið til sögunnar og flokkaðist hálfpartinn undir jaðartónlist, það seldist í litlu upplagi og vinsældarpoppararnir héldu sig nokkuð til hlés um tíma. Þetta varð til þess safnplöturnar nutu sín (einkum með erlendum flytjendum þótt eitt og eitt íslenskt lag slæddist með).
Reyndar mætti segja að SG-hljómplötur hafi startað þessu safnplötuæði með útgáfu Stóru bílakassettanna (átta talsins) á árunum 1979 og 80 en þær höfðu að geyma tónlist útgefna af SG (allt frá 1964 til þess árs), plötuútgáfa Rúnars Júlíusson, Geimsteinn, fylgdi í kjölfarið með sams konar útgáfu 1980 og sendi frá sér Stjörnuplötur 1-5. Þessar seríur flokkast þó strangt til getið fremur til flokksins Safnplötur með eldra efni en urðu þó klárlega til að vekja athygli á safnplötum sem hentugt form til að efla og styðja vinsældir.
Í kringum 1990 varð til sería sem bar nafnið Bandalög og hafði eingöngu að geyma íslensk lög, og komu nokkrar plötur út undir þeim merkjum, þegar Bandalög liðu undir lok um áratug síðar tók önnur slík við, Svona er sumarið. Þá hafði Reif-serían verið til um skeið, Heyrðu-serían og nokkrar aðrar en engin þeirra varð langlíf. Það varð hins vegar Pottþétt-serían en fyrsta Pottþétt-platan kom út 1995, síðan þá hafa komið út um hundrað slíkar þar af um helmingur þematengdar.
Í seinni tíð hafa lang flestar safnplötur sem gefnar eru út verið hluti af slíkum seríum þótt „stakar“ safnplötur sjáist einnig.