Safnplötur með eldra efni (1971-)

???????????????????????????????

Á sjó: fjórtán sjómannalög

Þessi flokkur safnplatna hefur að geyma safnplötur sem innihalda eldra efni, þ.e. vinsæl lög frá fyrri tímum og hefur orðið æ algengari hin síðari ár. Nú er svo komið að megnið af því efni sem gefið var út fyrir 1980 er komið í hendur sama útgefanda (Senu) og því eru hæg heimatökin hjá þeim þegar kemur að endurútgáfu á efni. Og Sena hefur einmitt verið dugleg á því sviði.

Slíkar safnplötur hafa komið út í mörg ár og fyrstu plöturnar sem gætu flokkast undir þennan lið eru Á sjó: fjórtán sjómannalög (1971), Hafið lokkar og laðar (1975) og Revíuvísur (1978) gefnar út af SG-hljómplötum, Bestu lög 6. áratugsins (1976) gefin út af Fálkanum, Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 og Þrjátíu vinsælustu söngvararnir 1950-75, gefnar út af Íslenzkum tónum (1977). Aukinheldur komu út nokkrar jólaplötur með endurútgefnu efni hjá SG-hljómplötum á þessu tímabili, jólaplötur eru þó flokkaðar sérstaklega.

Fyrstu safnplötuseríurnar í þessum flokki litu dagsins ljós 1979 og 80 þegar SG gáfu út Stóru bílakassettuna I-VIII, það var nýlunda að gefa út á snælduformi en á þessum snældum var að finna safn laga sem útgáfan hafði komið að árin á undan. Í kjölfarið kom Stjörnuplötu-serían út.

Síðan má segja að útgáfa platna í þessum flokki hafi legið niðri allt til Aftur til fortíðar-serían kom út hjá Steinum 1990, um var að ræða níu plötur með tónlist frá árunum 1950-80, þar sem hver áratugur spannaði þrjár plötur.

Aftur varð hlé á slíkri útgáfu þar til Óskalögin og Óskastundin komu út í kringum aldamótin, seríur sem höfðu að geyma lög frá ýmsum tímum en Gerður G. Bjarklind valdi lögin á síðarnefndu seríuna. Reyndar falla fjölmargar plötur úr Pottþétt-seríunni undir þennan flokk, svokallaðar þemaplötur með sérhæft eldra efni eins og jólalög, rokklög, lög bundin við áratugi o.þ.h.

Svona var…-serían hóf að koma út 2005 en hver plata í þeim flokki hefur að geyma lög frá vissu tilteknu ári, sú fyrsta 1952.

Sífellt verður algengara að fyrirtæki og stofnanir gefi viðskiptavinum sínum safnplötur, þær hafa oft að geyma sígild lög, popplög sem jólalög og barnalög (tvær síðast nefndu tegundirnar flokkast reyndar sér), einnig koma út fjölmargar slíkar plötur gefnar út til styrktar mismunandi málefnum. Erfitt er þó að henda reiður á fjölda slíkra platna.

Efni á plötum