Safnplötur: Ýmsir flytjendur (1966-)

Pop festival 70 - ýmsir

Ein af fyrstu safnplötum Íslandssögunnar, Pop festival ’70

Safnplötur hafa alltaf notið mikilla vinsælda á Íslandi. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst að á þeim er að finna þverskurð tónlistar á tilteknu tímabili eða tónlistarstefnum og því mikið hagræði af því að kaupa þær.

Stundum getur verið erfitt að skilgreina hvað safnplata er en oftast er hugtakið notað yfir plötur sem hafa að geyma lög blandaðra flytjenda úr ýmsum áttum, stundum falla öll lögin undir sömu tónlistarstefnu eða tímabil en oft eiga þau það einungis sameiginlegt að vera vinsæl eða líkleg til vinsælda (falla undir vinsældastýringu útgefanda og/eða fjölmiðla).

Jólalög og barnaplötur með blönduðum flytjendum geta flokkast undir slíka skilgreiningu en þegar margir flytjendur flytja lög eins höfundar á sömu plötunni getur slíkt fallið undir höfundarverk viðkomandi fremur en safnplötu. Í víðasta skilningi má þó segja að safnplata sé plata með ýmsum flytjendum.

Segja má að fyrsta íslenska safnplatan hafu verið Úrslitalögin í danslagakeppni Útvarpsins (1966) en sú plata hafði að geyma tíu lög sem kepptu til úrslita í keppni sem efnt var til í þættinum Á góðri stund í Ríkisútvarpinu veturinn 1965-66. Fjórum árum síðar kom fyrsta poppsafnplatan en hún bar heitið Pop festival ´70, og í kjölfarið komu þær ein af annarri. SG-hljómplötur höfðu sérstöðu í útgáfu platna með blönduðum flytjendum á þessum fyrstu árum að því leyti að þær plötur voru sérhæfðari, innihéldu jólalög, sjómannalög og þess háttar en nýjar plötuútgáfur lögðu meiri áherslu á blandað popp líklegt til vinsælda.

Hrif-serían (sem ÁÁ-útgáfan gaf út) telst vera fyrsta safnplötuserían þótt hún innihéldi einungis tvær plötur (Hrif (1974) og Hrif 2 (1976)), Stóra bílakassettu-serían kom til sögunnar 1979 og ári byrjuðu Stjörnuplöturnar að koma út. Fleiri fylgdu í kjölfarið.

Á síðustu árum hefur Sena (áður Skífan) lagt undir sig safnplötumarkaðinn að mestu með seríum eins og Pottþétt-seríunni og útgáfu gamals efnis í Óskalaga- og Svona var…-seríunum en fyrirtækið á nú útgáfuréttinn að nánast öllu efni gefnu út á Íslandi fyrir 1980.

Eftir því sem flóran hefur stækkað virðist erfiðara að flokka safnplöturnar en hér verða þær flokkaðar sem hér segir:
Safnplötur með eldra efni
Safnplötur með nýju vinsælu efni
Safnplötur með efni tengdu tónlistarviðburðum
Safnplötur með áður óútgefnu og jaðarefni

Allir flokkarnir innihalda blöndu safnplötusería og einstakra safnplatna en síðast nefndi flokkurinn inniheldur þó að öllum líkindum sundurlausasta hópinn.

Þegar rýnt er í flokkunina getur hún virst nokkuð gölluð, í sumum tilfellum geta plötur t.d. fallið undir fleiri en einn flokk, þannig getur vinsældatónlist einnig fallið undir tónlistarhátíðir o.s.frv., í slíkum tilfellum má finna plöturnar í fleiri en einum flokki.

Rétt er að nefna að jólatónlist, stemmingstónlist, trúartónlist, barnatónlist, ljóðaupplestur og aðrir sambærilegir þættir/plötur falla hér ekki undir safnplötuskilgreininguna, slíkt er flokkað sérstaklega.