N.E.F.S. [félagsskapur] (1981)

engin mynd tiltækTónlistarklúbburinn N.E.F.S. starfaði um fárra mánaða skeið haustið 1981 en klúbburinn hafði það að markmiði að efla lifandi tónlistarlíf á höfuðborgarsvæðinu.

Skammstöfunin N.E.F.S. stóð fyrir Ný [og] efld Félagsstofnun stúdenta og var sett á laggirnar um haustið 1981 en undirbúningur hafði staðið yfir að stofnun klúbbsins frá því um sumarið, SATT (Samband alþýðutónskálda og tónlistarmanna), Jazzvakning, Vísnavinir og Félagsstofnun stúdenta voru aðilar að samstarfinu og Guðni Rúnar Agnarsson varð ráðinn framkvæmdastjóri klúbbsins í hálft starf.

Starfsemin hófst með látum og rokk- og nýbylgjusveitir voru áberandi á sviði klúbbsins fyrst um sinn, sem hafði aðsetur í húsnæði Félagsstofnunar stúdenta við Hringbraut en gerðar voru nokkrar endurbætur á því svo unnt væri að halda þar tónleika, djasstónlistarmenn bættust svo í hóp þeirra sem fluttu tónlist í húsinu. Lögð var áhersla á um væri að ræða tónleikahald en ekki ballsamkomur.

N.E.F.S. kvöldin voru til að byrja með á föstudags- og laugardagskvöldum en síðan var þriðja kvöldinu bætt við (miðvikudagskvöldum) svo að tónleikagestir í yngri kantinum gætu einnig mætt en það var „þurrt“ kvöld og engar vínveitingar þá í boði.

Þegar leið á haustið kom í ljós að hópar nemenda innan Háskólans voru ósáttir við að hafa ekki aðgang að húsnæði Félagsstofnunar stúdenta nema á þeim kvöldum sem hentaði þeim illa, s.s. mánudagskvöldum og það ásamt ágreiningi um leiguverð varð til þess að leigusamningur sem gerður hafði verið fram að áramótunum 1981-82 varð ekki endurnýjaður, og því lagðist starfsemi klúbbsins niður. Síðustu tónleikarnir voru haldnir á vegum N.E.F.S. laugardagskvöldið 19. desember 1981.