Savanna tríó (1961-67 / 1990)

Savanna tríóið 1963

Savanna tríóið á forsíðu Vikunnar 1963

Savanna tríóið var í fararbroddi íslenskra þjóðlagatríóa sem nutu vinsælda á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda. Tríóið sótti fyrirmynd sína til hins bandaríska Kingston tríós en fór brátt eigin leiðir í tónlistarsköpun sinni.

Savanna tríóið fékk nafn sitt í upphafi árs 1962 en hafði þá í raun verið starfandi í nokkra mánuði, upphaflega var um að ræða sönghóp nema úr Verzlunarskólanum undir nafninu Sjö piltar leika og syngja kúrekalög, sem hafði m.a. að geyma þá Björn G. Björnsson og Troels Bendtsen, Þórir Baldursson bættist í hópinn og þá var tríóið tilbúið. Í fyrstu höfðu þeir félagar bassaleikarann Guðjón Margeirssonar með sér til aðstoðar en síðar tók Gunnar Sigurðsson við því hlutverki og fylgdi hann þeim mest alla tíð, lék m.a. inn á flestar plötur þeirra. Upphaflega kölluðust þeir eingöngu Savanna en tríó-viðskeytið kom fljótlega.

Þremenningarnir léku allir á gítara og skiptu með sér söngnum, verkaskiptingin var þó nokkuð skýr innan tríósins, Þórir annaðist lagaval og útsetningar, Troels sá um bókanir og peningamálin en Björn var eins konar andlit tríósins út á við, kynnti lögin og var í forsvari fyrir hópinn. Nafnarnir Pétur Pétursson þulur og Pétur Guðjónsson rakari sáu um umboðsmennsku fyrir Savanna tríóið sem fékk strax ærið nóg að gera, þeir munu t.a.m. hafa komið fram á fimm stöðum fyrsta kvöldið sem þeir störfuðu undir því nafni. Fljótlega komu þeir félagar einnig fram í Ríkisútvarpinu með tónlist sína og upp frá því voru þeim allir vegir færir.

Savanna tríóið naut strax mikilla vinsælda en prógramm þeirra hafði að miklu leyti að geyma þjóðlög, mestmegnis íslensk, m.a. úr safni sr. Bjarna Þorsteinssonar. Þeir voru fengnir til að koma fram á þorrablótum og þess konar þjóðlegum samkomum, t.d. voru þeir fastráðnir á veitingahúsinu Naustinu yfir þrjá þorra, og þess má geta til gamans að Savanna tríóið varð fyrst hljómsveita til að leika í Súlnasal Hótel Sögu.

Tage Ammendrup sem þá rak hljómplötuútgáfufyrirtækið Íslenzka tóna sá sér leik á borði og fékk þá félaga til að leika inn á fjögurra laga plötu. Hún kom út sumarið 1963 og hafði að geyma lögin Á Sprengisandi, Kvölda tekur, sest er sól, Suðurnesjamenn og Gilsbakkaþulu en síðast nefnda lagið varð hálfgert einkennislag tríósins.

savanna-trioid-1962a

Savanna tríóið 1962

Þar sem smáskífan gekk svo vel var afráðið að ráðast í útgáfu annarrar en hún kom út um vorið 1964 og var fjögurra laga eins og hin fyrri. Hún fékk einnig glimrandi viðtökur og mjög góða dóma í Lesbók Morgunblaðsins, þar með var ekki um annað að ræða en að gefa út breiðskífu. Íslenzkir tónar hafði þá verið lögð niður enda var Tage Ammendrup þá genginn til liðs við Ríkissjónvarpið sem þá var verið að setja á stofn og þar sem hann átti eftir að starfa lengstum, en Svavar Gests var þá að hefja útgáfuferil sinn, hann hafði einmitt ritað plötugagnrýnina í Lesbók Morgunblaðsins. Og svo fór að um vorið skrifuðu þeir Savanna tríó-liðar undir útgáfusamning við SG-hljómplötur og breiðskífan Folksongs from Iceland leit dagins ljós um haustið 1964. Ástæða þess að platan bar enskan titil var von Svavars um að vinna erlenda markaði.

Svo fór einnig að sveitin lék víða erlendis í kjölfarið og annaðist eins konar Íslandskynningu og er að öllum líkindum fyrsta alvöru atlagan að útrás íslenskrar tónlistar erlendis, hið opinbera fékk þá til að leika í veislum innanlands sem utan en þess má svo einnig geta að tríóið lék í Tonight show í breska ríkissjónvarpinu BBC.

Sjö lög af þeim átta sem verið höfðu á smáskífunum rötuðu inn á plötuna en auk þess hafði hún að geyma fimm lög önnur. Platan var margoft endurútgefin og til eru að minnsta kosti tvær útgáfur af umslagi plötunnar. Hún var síðan gefin út í fyrsta sinn á geislaplötuformi árið 1992.

savanna-trioid-a-arnarholi-1963

Savanna tríóið á Arnarhóli

Þjóðlega deildin átti sannarlega við á þessari plötu en það var einkennandi fyrir tríóið framan af, síðar einkenndist lagaval þeirra af þjóðlögum í bland við gamanvísur en það var nokkuð sem Ríó tríóið átti einmitt einnig eftir að gera síðar.

Platan seldist ágætlega og járnið var sannarlega hamrað á meðan það var heitt því fljótlega var ráðist í gerð annarrar stórrar plötu sem kom út 1965. Sú bar heitið Þjóðlög og gamanvísur: Icelandic folk songs and minstrelsy og var tekin upp í Ríkisútvarpinu eins og hin fyrri undir stjórn Péturs Steingrímssonar. Á plötunni má sjá, eins og titillinn gefur til kynna, að gamanvísurnar voru komnar til sögunnar. Nýja platan varð gríðarlega vinsæl og seldist í um tuttugu þúsund eintökum, það vakti mikla athygli að Þórir Baldursson lék m.a. á íslenskt langspil á plötunni en ekki voru allir á eitt sáttir við að hann skyldi plokka hljóðfærið í stað þess að nota boga eins og tíðkast hafði fyrr. Annað eftirtektarvert við þessa plötu er að á henni er að finna lagið Ást í meinum en við það lag er fyrsti textinn sem Þorsteinn Eggertsson sendi frá sér á plötu.

Líftími Savanna tríósins varð í raun ekki lengri en fram til vors 1966, þeir höfðu þá ákveðið að slíta samstarfinu og líklega komu þeir fram opinberlega í síðasta skiptið í félagsheimilinu Stapanum í Keflavík í apríl það ár. Hins vegar hafði verið ákveðið að ráðast í gerð einnar breiðskífu til viðbótar auk þess sem Andrés Indriðason hjá Ríkissjónvarpinu hafði fengið þá félaga til að vinna sjónvarpsþætti en Sjónvarpið átti að taka til starfa um haustið 1966. Það fór svo að tríóið kom fram í þætti á fyrsta útsendingakvöldi Sjónvarpsins og einnig í nokkrum þáttum sem voru í umsjá þeirra sjálfra, vinsældirnar munu þá hafa náð hámarki. Sögu Savanna tríósins var þó í raun lokið þarna þótt dánarvottorð yrði ekki gefið út fyrr en síðar.

savanna-trioid-1965

Á leið í flug 1965

Í upphafi árs 1966 höfðu þeir félagar farið til London og unnið þar sína þriðju breiðskífu undir stjórn Tony Russell. Á þeirri plötu sem kom ekki út fyrr en 1967 og hlaut titilinn, Ég ætla heim… var mestmegnis að finna þjóðlög, m.a. frá Írlandi en einnig frumsamið eftir Þóri, textarnir voru flestir eftir Sigurð Þórarinsson jarðfræðing en hann hafði unnið nokkra texta fyrir þá áður einnig. Í fyrsta sinn lék Gunnar ekki með Savanna tríóinu á plötunni heldur breskur bassaleikari, Bill Sutcliffe. Eins og fyrri plötur tríósins gekk þessi afar vel, hún fékk góða dóma í Tímanum og í Vikunni auk þess sem hún seldist vel.

Haustið 1967 var gefið út opinberlega að Savanna tríóið væri hætt en um svipað leyti bárust þó þær fréttir að sveitin myndi leika í samnorrænni sjónvarpsútsendingu sem fyrirhugað var að senda út á gamlárskvöld 1967. Þær upptökur voru gerðar í Noregi í desember og um svipað leyti fóru þeir félagar til London til að taka upp lög þau sem þeir höfðu flutt í sjónvarpsþáttunum sem gerðir voru fyrir Ríkissjónvarpið, að beiðni Svavars Gests.

Meðlimir sveitarinnar voru þarna farnir í sitt hverja áttina, Björn hóf störf hjá Ríkissjónvarpinu sem leikmyndahönnuður og átti eftir að starfa þar í áratugi, Troels átti eftir að vekja athygli í þjóðlagatríóinu Þremur á palli auk annarra starfa en Þórir helgaði sig tónlistinni alveg, hann átti eftir að starfa erlendis um langan tíma en fyrst verkefna hans sem sólólistamaður var að gera samning við útgáfufyrirtækið Decca og gefa út smáskífu á ensku með lögunum Arlene Chatreaux og The tin soldier painter sem áður höfðu komið út á plötum Savanna tríósins undir nöfnunum Brúðarskórnir og Surtseyjarríma, notast var við undirleik tríósins við upptökurnar.

savanna-trioid-i-sjonvarpsthaetti-1966

Savanna tríóið í sjónvarpssal 1966

Platan með tónlistinni úr sjónvarpsþáttunum kom út 1968 og bar nafn sveitarinnar, tónlistin hafði þarna töluvert breyst og t.d. voru einungis þrjú þjóðlög á henni. Hin lögin komu úr ýmsum áttum og þarna mátti finna Bílavísur sem naut fádæma vinsælda en við lagið hafði verið gert myndband fyrir sjónvarpsþáttinn og er þar klárlega að finna eitt fyrsta tónlistarmyndband Íslandssögunnar. Platan var ein af plötum ársins að mati fjölmiðlanna en Savanna tríóið fylgdi henni eðlilega ekkert eftir.

Árið 1971 gáfu SG-hljómplötur út safnplötuna More folksongs from Iceland by the Savanna trio og var fyrst og fremst ætluð fyrir erlenda ferðamenn, þremur árum síðar kom út önnur safnplata, Skemmtilegustu lög Savanna tríósins, og sama ár kom tríóið saman í tengslum við sjónvarpsþáttinn Ugla sat á kvisti en Þórir starfaði þá erlendis svo litlar líkur voru á alvöru endurkomu tríósins.

1987 kom enn ein safnplatan út en hún kom út í tilefni af því að tuttugu og fimm ár voru liðin frá því tríóið byrjaði. Sú plata hét Savanna tríóið 25 ára: 1963-1988 og var gefin út af Takti, sem hafði erft útgáfuréttinn frá SG-hljómplötum. Þessi útgáfa var vegleg og fylgdi bæklingur með sögu tríósins.

savanna-trioid-1991

Savanna tríóið 1991

Savanna tríóið hafði komið saman 1988 enda var Þórir þá með annan fótinn hérlendis en hann var alfarið kominn heim 1990 þegar Björgvin Halldórsson fékk þá félaga til að taka upp eitt lag (Jarðarfarardagur) fyrir safnplötuna Íslandslög, sem hann var þá að fara að gefa út en hún átti eftir að verða fyrsta plata af mörgum í þeim safnplötuflokki.

Þetta kveikti í þeim félögum og úr varð að Skífan gaf út plötuna Eins og þá, sem hafði að geyma fimmtán lög (fjórtán á vínylplötu-útgáfunni). Sum þeirra höfðu þeir gefið út á sjöunda áratugnum og voru nú í nýjum útgáfum en einnig voru ný lög á plötunni. Platan fékk ágætar viðtökur, og dóma í Morgunblaðinu.

Safnplatan Mættum við fá meira að heyra: 25 þjóðlög og gamanvísur í nýrri hljóðvinnslu, kom út á vegum Spors 1996 en sú plata var tileinkuð minningu Svavars Gests sem þá var nýlátinn.

Enn ein safnplatan leit dagsins ljós (2009) en um var að ræða þriggja platna útgáfu undir titlinum Það er svo margt: Heildarútgáfa 70 lög. Eins og rétt má ímynda sér eru þarna flest lög Savanna tríósins í einni útgáfu og veglegur sextíu og fjögurra síðna bæklingur fylgdi með, með ítarlegum upplýsingum um tríóið. Platan fékk mjög góða dóma hjá Halldóri Inga Andréssyni á Plötudómum.is. Það sama ár, 2009, komu þeir félagar fram á Jólatónleikum Björgvins Halldórssonar.

Eins og rétt mætti giska á hafa lög með Savanna tríóinu komið út á tugum safnplatna á öllum tímum og enn eru ótalin ýmis jólalög sem sveitin sendi frá sér á jólaplötum með ýmsum flytjendum. Meðal safnplatna má nefna fyrrnefnda Íslandslög, Jólaljós (1982), Óskalög sjómanna (2007), Óskalögin (safnplötusería), Svona var það (safnplötusería), Úrslitalögin í Danslagakeppni Ríkisútvarpsins (1966), Það gefur á bátinn (1981), Jólasnjór (1979), Jólasnær (1991), Á sjó (1971) og Aftur til fortíðar (safnplötusería), svo einungis fáeinar séu nefndar. Ennfremur er að finna lög með Savanna tríóinu á safnplötum tileinkuðum Þóri Baldurssyni.

Efni á plötum