Saxon [1] (1960)

saxon1

Saxon frá Keflavík

Saxon úr Keflavík var skammlíf útgáfa af Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, og starfaði í fáeina mánuði árið 1960.

Hljómsveit þessi hafði starfað í nokkur ár í Keflavík undir nafni stjórnandans, Guðmundar Ingólfssonar frá Vestmannaeyjum, en þegar Þórir Baldursson píanóleikari sveitarinnar tók við stjórn hennar sumarið 1960 var ákveðið að breyta um nafn og kom þá nafnið Saxon upp. Þess má geta að Þórir var yngstur þeirra félaga, aðeins sextán ára gamall.

Meðlimir hennar voru auk Þóris og Guðmundar (sem lék á gítar), þeir Þráinn Kristjánsson víbrafónleikari, Rúnar Georgsson saxófónleikari, Eggert Kristinsson trommuleikari og Sigurður Baldvinsson bassaleikari en auk þess tilheyrðu sveitinni söngvararnir Einar Júlíusson og Engilbert Jensen.

Fyrst um sinn var um að ræða sextett en þegar Rúnar saxófónleikari hætti í september gekk sveitin undir nafninu Saxon kvintett, oftast þó bara Saxon. Sveitin starfaði ekki lengi undir þessu nafni og fáeinum vikum síðar um haustið höfðu þeir félagar breytt nafninu aftur í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar.

Nokkrir meðlimir sveitarinnar áttu fáum árum síðar eftir að taka virkan þátt í hinu svokallað bítlaæði sem löngum hefur verið kennt við Keflavík en þeir Eggert, Einar og Engilbert voru t.d. allir í Hljómum.