Spútnik tríó (um 1957-60)

Hljómsveit sem bar nafnið Spútnik tríó var starfrækt af unglingsdrengjum í Keflavík undir lok sjötta áratugar síðustu aldar og var að einhverju leyti forveri sveita eins og Hljómsveitar Guðmundar Ingólfssonar og jafnvel Hljóma, sveitin var líklega starfandi 1957 eða 58 og gæti jafnvel hafa starfað í einhverri mynd til 1960 en upplýsingar um hana eru af skornum skammti. Eins og nafn sveitarinnar gefur til kynna var það innblásið af hinu samnefnda sovéska gervitungli sem skotið var á loft 1957 og var mikið í fjölmiðlum.

Svo virðist sem taka verði upplýsingum um nöfn meðlima Spútnik með fyrirvara því allmargir virðast hafa komið við sögu hennar skv. heimildum, Þórir Baldursson gítarleikari [?] og hljómsveitarstjóri, Páll Ólafsson trommuleikari og Erlingur Jónsson bassaleikari hafa fyrst og fremst verið nefndir sem meðlimir hennar en svo hafa nöfn Jóhanns Guðmundssonar gítarleikara, Eggerts V. Kristinssonar trommuleikara og Engilberts Jensen söngvara eða trommuleikara einnig hafa verið nefnd, jafnvel Guðmundar Ingólfssonar gítarleikara en einhverjar heimildir herma að meðlimir sveitarinnar hafi gengið til liðs við hljómsveit þess síðast talda á einhverjum tímapunkti. Þannig liggur jafnframt beinast við að ætla að Spútnik hafi ekki alltaf verið tríó heldur einnig kvartett eða jafnvel kvintett um tíma.

Allar tiltækar upplýsingar um þessa sveit væru vel þegnar.