Þeyr [1] (1979-83)

Þeyr 1979

Hljómsveitin Þeyr verður vafalaust alltaf þekktust fyrir framlag sitt í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík þar sem sveitin kyrjaði Rúdolf af miklum krafti í nasistabúningum eftir ógleymanlegt intró Sigtryggs Baldurssonar trommuleikara. Margir þekkja einnig Killer boogie úr sömu mynd en þau tvö lög eru á engan hátt dæmigerð fyrir tónlist Þeys nema á þeim tímapunkti sem þau voru flutt þar sem sveitin þróaðist mjög hratt á þeim tíma sem hún starfaði. En Þeyr var ennfremur afkastamikil hljómsveit og afrekaði að senda frá sér tvær breiðskífur og fimm smáskífur auk snældu, gerði það ágætt á erlendum vettvangi og landaði m.a. útgáfusamningi í Bretlandi.

Þeyr var hluti af pönkbylgjunni sem gekk yfir landið um og eftir 1980 þrátt fyrir að vera meiri nýbylgju- en pönksveit, hún var þó tvímælalaust ein framsæknasta og best spilandi sveitin innan bylgjunnar og hefur notið virðingar sem ein af fremstu hljómsveitum íslenskrar tónlistarsögu.

Sveitin var í raun stofnuð 1978 þótt formlega sé hún sögð hafa verið sett á laggirnar ári síðar. Hún hafði gengið undir nafninu Frostrósir og leikið dansprógram á árshátíðum og viðlíka skemmtunum og þegar sveitinni bauðst að gera plötu hjá Svavari Gests undir merkjum SG-hljómplatna fór hún að vinna skipulega að frumsömdu efni. Það var 1979.

Á fyrstu tónleikum sveitarinnar í Norræna húsinu

Meðlimir Þeys á þeim tíma voru Hilmar Örn Agnarsson bassa- og hljómborðsleikari, Jóhannes Helgason gítarleikari, Magnús Guðmundsson söngvari og hljómborðsleikari, Sigtryggur Baldursson trommuleikari, Elín Reynisdóttir söngkona og Eiríkur Hauksson söngvari.

Þeyr hófu upptökur í janúar 1980 í Tóntækni, hljóðveri Svavars Gests, undir handleiðslu og upptökustjórn Sigurðar Árnasonar og tónlistin varð nú smám saman rokkaðri en þó með fönk- og jafnvel diskóívafi. Þegar fjölmargir grunnar höfðu verið teknir upp um sumarið 1980 fór sveitin í pásu frá upptökum og þá gerðust hlutirnir hratt, tónlistin gerjaðist meðal meðlima sveitarinnar sem um þetta leyti voru að kynnast nýbylgjunni og nýjum áhrifavöldum í tónlistinni, og svo fór að sveitin var gerbreytt þegar hún kom úr upptökuhléinu um haustið.

Þeysarar vildu sem von var, byrja upptökur á ný en það var ekki í boði nema að litlu leyti að taka upp nýja grunna og því var reynt eftir því kostur var á að bæta nýju áhrifunum ofan á gömlu grunnana. Upptökur drógust því á langinn og Svavar útgefandi var orðinn óþolinmóður og pirraður, hann kallaði plötuna Long long play – plötuna og íhugaði um tíma að hætta við útgáfu hennar enda höfðu upptökutímarnir farið langt fram yfir eðlilegan fjölda og kostnaðurinn eftir því. Það mun hafa verið Elly Vilhjálms, eiginkona Svavars sem taldi honum hughvarf og afstýrði því að hætt yrði við útgáfuna en hún hafði heyrt tónlistina eftir því sem sagan segir, og litist vel á.

Þeyr

Lögin voru eftir flesta meðlimi sveitarinnar sem og textarnir en einnig kom Hilmar Örn Hilmarsson þar sterkur inn, hann átti eftir að vera aðal hugmyndasmiður sveitarinnar ásamt Guðna Rúnari Agnarssyni en Hilmar Örn var aukinheldur eins konar auglýsingastjóri hennar.

Tónlistin þróaðist hratt innan sveitarinnar sem áður segir og því lá þeim Þeysurum á að koma plötunni út fyrir jólin 1980 svo tónlistin yrði hreinlega ekki úrelt. Það markmið náðist, platan kom út en pressunin var því miður stórgölluð, aðeins tæplega fimm hundruð eintök komust í umferð og þrátt fyrir tilraunir til að endurpressa plötuna gekk það ekki þar sem mótin voru ónýt. Fyrir vikið eru eintök af plötunni sjaldséð og verðmæt eftir því.

Platan, sem fékk titilinn Þagað í hel, bar því heldur betur nafn með rentu því hún var að sumu leyti þöguð í hel. Hún fékk þó ágætar viðtökur plötuskríbentanna, góða dóma í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum, ágæta í Helgarpóstinum, Vísi og Tímanum en fremur slaka í Poppbók Jens Guðmundssonar. Platan þótti fremur sundurlaus, sem er eðlilegt þar sem hún fór í gegnum þær breytingar sem áður er um getið.

Sveitin hafði ekki leikið mikið opinberlega undir Þeys-nafninu en nú varð nokkur breyting þar á, bandið lék á tónleikum í Norræna húsinu til að kynna plötuna en einnig á tónleikunum Barðir til róbóta í Gamla bíói í desember 1980.

Þeyr við Esjurætur

Miklar mannabreytingar voru nú framundan í Þey, það var ljóst að Elín söngkona væri að hætta í sveitinni um áramótin og einnig Jóhannes gítarleikari sem þá var að fara í flugnám. Þorsteinn Magnússon kom í sveitina um þetta leyti en hann hafði leikið á gítar í upptökunum og verið í sveitum eins og Eik en áður en hann gekk til liðs við Þey var hann í Geimsteini Rúnars Júlíussonar. Um svipað leyti gekk Guðlaugur Kristinn Óttarsson einnig í Þey en hann hafði þá leikið með sveitum eins og Lótus. Og þar með var sá kjarni sveitarinnar kominn sem átti eftir að verða og boltinn fór að rúlla mjög hratt, samhliða hraðri þróun tónlistarinnar urðu afköst hennar á plötumarkaðnum með ólíkindum.

Tónleikar hljómsveitarinnar urðu að hálfgilding sjónarspili þar sem sviðsframkoman var stór hluti sýningarinnar, Magnús fór mikinn þar en hann einbeitti sér nú að söngnum eingöngu og sagði skilið við hljómborðið. Þeyr fóru ennfremur nýjar leiðir til að vekja athygli á sér, á einum tónleikum sveitarinnar var t.d. boðið upp á klippingu á sviðinu í stuttu hléi sem gert var á tónleikunum. Sveitin lék mestmegnis á tónleikum en einnig kom þó fyrir að þeir félagar léku á dansleikjum.

Í mars 1981 tóku Þeysarar upp tveggja laga plötu í Stúdíó Stemmu sem stóð til að Fálkinn gæfi út, hún kom út á sumardaginn fyrsta og þá undir merkjum Fálkans og Eskvímó, nýstofnaðs útgáfufyrirtækis í eigu sveitarinnar. Lögin tvö, Life transmission og Heima er bezt, fengu góða dóma í öllum miðlum, Þjóðviljanum, Tímanum, Helgarpóstinum, Morgunblaðinu, Vísi og Dagblaðinu, þau áttu síðar eftir að koma út á safnplötunni Northern light playhouse en hún var tilraun til að koma íslenskum rokk- og pönksveitum á markað í Bretlandi. Umslag smáskífunnar, sem hlaut titilinn Útfrymi, vakti athygli sem og reyndar umslag Þagað í hel, var nýstárleg hönnun umslaga sveitarinnar alltaf eitt af einkennum hennar. Skífan var tileinkuð minningu Ian Curtis söngvara Joy division sem þá hafði nýverið tekið líf sitt.

Þeyr

Um vorið komu hingað til lands tveir meðlimir bresku nýbylgjusveitarinnar Killing joke, þeir Jaz Coleman og Geordie Walker, og settu sig í samband við meðlimi Þeys, með þeim tókst vinskapur og samband sem síðar varð upphafið að endalokum sveitarinnar.

Þetta sumar, 1981 lék Þeyr víða á tónleikum, oft með Baraflokknum og Þursaflokknum, og m.a. lék sveitin ásamt fleirum í Laugardalshöllinni á stórtónleikum sem báru heitið Annað hljóð í strokkinn. Um miðjan ágúst fór sveitin síðan í sína fyrstu tónleikaferð út á land þegar hún spilaði víða á norðanverðu landinu.

Þeyr notaði sumarið einnig til að taka upp næstu plötu en hún kom út í september og fékk nafnið Iður til fóta. Eskvímó gaf hana út án annarra aðkomu en hún var fjögurra laga og tíu tomma, sem var sjaldséð á þeim tíma. Eins og fyrri plötur Þeys fékk Iður til fóta góða dóma, í Dagblaðinu, Þjóðviljanum, Vísi, Tímanum, Helgarpóstinum og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Í ágúst byrjun hafði sveitin leikið á sérstæðum tónleikum í Háskólabíói en þar var Friðrik Þór Friðriksson að frumsýna mynd sína, Brennunjálssaga, og var hlutverk sveitarinnar að leika undir myndinni sem tók um tuttugu mínútur. Myndin þótti vægast sagt umdeild en hún gekk í aðal atriðum út á að kveikt var í eintaki af Njálssögu og hafði Friðrik Þór fengið kvikmyndastyrk út á gerð myndarinnar, sem mörgum þótti með ólíkindum. Tónlistin úr myndinni var síðan gefin út á snælduútgáfu Iður til fóta en b-hliðin á henni hafði að geyma kvikmyndatónlistina.

Sveitin hafði nú tekið miklum tónlistarlegum breytingum með hverri plötunni og tónlistin varð smám saman þyngri áheyrnar, frá léttfönkinu í upphafi hafði hún smám saman rokkast með fyrstu plötunni og síðan „nýbylgjast“ þar sem gítarleikurinn varð óhefðbundinn með þeim hætti að gítarinn varð nú fremur notaður sem áhrifshljóð en hljóðfæri og hefðbundin gítarsóló heyrðu nú sögunni til. Sömu sögu má segja um söngmelódíuna sem nú laut öðrum lögmálum og var kannski fyrst og fremst til að koma boðskapnum áleiðis, trommutakturinn varð ennfremur meira áberandi í hljóðblöndun á kostnað gítar og söngs.

Í Bretlandi 1981

Og enn hófst upptökuvinna en september mánuður var nýttur til að taka upp tólf laga breiðskífu, Þeysarar sjálfir vildu meina að þarna væri á ferð fyrsta breiðskífa sveitarinnar enda hafði Þagað í hel þagað í hel. Platan var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði af Tony Cook og kom hún út rétt fyrir jólin 1981.

Í millitíðinni eða um haustið hafði sveitinni verið boðið til tólf daga tónleikaferðar um Bretland með Killing joke og þekktist hún boðið, en þegar þangað kom spilaði hún hvergi enda kom þá í ljós að sveitin ætti að verða algjört aukanúmer – sem þriðja eða fjórða sveit, þegar út var komið bauðst henni reyndar að hita upp fyrir Cure á sex mánaða túr en fyrirvarinn var alltof skammur og urðu þeir félagar að hafna því boði. Þeysarar öfluðu sér hins vegar sambanda í þessari Bretlandsferð sem síðar skilaði sveitinni útgáfusamningi.

Mjötviður mær, en svo hét platan, kom sem fyrr segir út fyrir jólin og var það þriðja útgáfa sveitarinnar á árinu 1981, og alls fjórða platan á aðeins einu ári en Þeyr hafði þá sent frá sér tvær smáskífur og tvær breiðskífur, sem segir sitthvað um afköst sveitarinnar og ekki síður um hraða tónlistarlega þróun hennar. Sem fyrr voru gagnrýnendur hrifnir og platan fékk mjög góða dóma í Helgarpóstinum, Þjóðviljanum og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Eftir áramótin fór sveitin aftur á fullt í tónleikahaldi og í febrúar lék sveitin um sunnan- og einkum þó austanvert landið, en samhliða því endurunnu þeir félagar efni af Mjötviði mær og reyndar einnig fleiri lög (auk nýs lags, Killer boogie) til að hafa á enskri útgáfu plötunnar en í kjölfar Bretlandsferðarinnar hafði sveitinni borist tilboð um útgáfusamninga, niðurstaðan var plötusamningur við Shout records, lítið breskt útgáfufyrirtæki.

Þeyr 1982

Á Mjötviði mær var m.a. að finna lagið Rúdolf sem æ síðan hefur verið eitt aðal einkenni sveitarinnar en sérstaklega þó sú útgáfa sem birtist í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson, sem frumsýnd var um páskana 1982 en Þeyr átti tvö lög í myndinni, hitt lagið var Killer boogie.

Sveitin fékk mikið vægi í Rokk í Reykjavík og má líklega tengja það beint við samstarf Þeysara við Friðrik Þór við sköpun Brennunjálssögu, í raun var um að ræða alvöru tónlistarmyndband en ekki tónleikamyndband eins og aðrir flytjendur í myndinni þurftu að gera sér að góðu. Í því leikur sveitin áðurnefnt Rúdolf íklæddir þýskum nasistabúningum og þar fer m.a. fram aftaka þar sem leikstjórinn sjálfur, Friðrik Þór, er „tekinn af lífi“ fyrir framan aftökusveit. Myndbandið vakti mikla athygli en um leið hneykslan og varð til þess að margir tengdu sveitina við nasisma þrátt fyrir að augljóslega væri um grín að ræða, Þeyr voru sjálfir ekkert að bera það neitt til baka til að byrja með en urðu nauðbeygðir til þess síðar.

Um þetta leyti hófst líka heilmikið drama tengt Jaz Coleman úr Killing joke. Í fyrstu bárust þær fréttir að hann væri genginn til liðs við Þey, myndi taka við söngnum af Magnúsi sem á hinn bóginn myndi færa sig yfir á gítar í stað Þorsteins sem væri að hætta í sveitinni og ganga til liðs við Egó, hljómsveit Bubba Morthens. Um leið myndi Þeyr taka upp nafnið Iceland. Næstu fréttir af málinu voru þær að Jaz og Geordie Walker félagi hans úr Killing joke ætluðu að stofna nýja sveit ásamt Guðlaugi og Sigtryggi auk Birgis Mogensen bassaleikara úr Spilafíflum undir nafninu Iceland og einhverjar upptökur voru reyndar gerðar undir því nafni. Átök urðu innan sveitarinnar vegna málsins sem enduðu með að þeir slitu samstarfinu við Jaz, og Þeyr lifði af. Þetta hafði þó áhrif á innra samstarf sveitarinnar og þó að sveitin hætti ekki á þessum tímapunkti voru nú ákveðnir brestir komnir það sem urðu í raun upphaf endaloka hennar.

Úr Rokk í Reykjavík

Mitt í þessum átökum kom enska útgáfan af Mjötviði mær, As above út um sumarið 1982 í Bretlandi og víðar undir merkjum Shout records, í kjölfarið fór Þeyr um sumarið utan til mánaðar tónleikahalds og upptekna um Bretlands, Danmörku og Svíþjóð. Platan kom einnig út hér heima og fékk ágætar viðtökur eins og aðrar plötur Þeys. Tímaritið Samúel gaf henni til að mynda mjög jákvæða umfjöllun. As above seldist ágætlega í Bretlandi en hún fór einnig á markað í Þýskalandi og Japan og gekk þar ágætlega.

Þegar heim kom lék átti sveitin að vera aðalnúmerið á Melarokk hátíðinni en mætti ekki vegna raddleysis Magnúsar söngvara, sveitin sendi frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á þessu en margir tónleikagesta urðu svekktir. Þeyr komu hins vegar fram á Risarokk-tónleikunum nokkrum vikum síðar í Laugardalshöllinni, sem haldnir voru til að rétta af það tap sem ljóst var að hefði orðið við gerð kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík.

Um haustið fóru Þeysarar í tónleikaferð um Finnland, Svíþjóð, Noreg og Danmörku þar sem efni var tekið upp í leiðinni. Það efni fór síðan á fjögurra laga plötuna The fourth Reich sem kom út í lok ársins 1982 en platan var tileinkuð minningu og ævistarfi sálkönnuðsins Wilhelm Reich og öðrum andfasistum, margir voru hins vegar enn á að meðlimir sveitarinnar væru hallir undir fasisma og erfiðlega gekk að kæfa þann orðróm.

Þeyr í miðjuopnu Vikunnar 1982

Platan fékk þokkalega dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, ágæta í Helgarpóstinum og Vikunni og mjög góða í Þjóðviljanum og Tímanum.

The fourth Reich kom einnig út í Bretlandi en þar var sett lögbann á umslag plötunnar þar sem það þótti bera nokkurn nasistakeim sem og að margir héldu titilinn vera skírskotun í Þriðja ríkið, þrátt fyrir allar yfirlýsingar sveitarinnar þvert á stefnur nasismans. Eftir sutttan málarekstur var ákveðið að skipta um umslög fyrir þau eintök sem fóru á Bretlandsmarkað og eru því tvær gerðir af umslögum í umferð. Fréttir bárust af því að fimmtán þúsund eintök af plötunni hefðu verið pöntuð til Bandaríkjanna en ekki er ljóst hvort af því varð.

Þarna hillti orðið undir endalok sveitarinnar, Þorsteinn Magnússon hætti fyrstur í henni en það var líklega á haustmánuðum en  hugmyndasmiðirnir Hilmar Örn Hilmarsson og Guðni Rúnar Agnarsson voru þá einnig hættir afskiptum af henni að mestu. Þeir Sigtryggur, Hilmar Örn Agnars, Guðlaugur og Magnús spiluðu fjórir um  tíma en svo fór að lokum að Þeyr hættu störfum um sumarið 1983 en sendu frá sér tilkynningu um að þeir myndu vinna tónlist saman eitthvað áfram þótt ekki yrði það undir nafni Þeys.

Þeyr á tónleikum á Lækjartorgi

Útgáfusögu sveitarinnar var þó ekki alveg lokið því að þriggja laga smáskífan Lunaire (eftir einu laga hennar) kom út eftir að sveitin var hætt störfum. Hún hafði verið tekin upp í júní árið áður og bar því óneitanlega lítinn keim af því sem Þeyr hafði verið að gera síðustu mánuðina enda liðið tæplega ár frá upptökunum. Gagnrýnendur voru fyrir vikið ekki eins hrifnir og af fyrri plötum sveitarinnar, hún fékk varla nema sæmilega dóma í Helgarpóstinum og Morgunblaðinu en ágæta í Vikunni. Skífan er sérstök að því leyti að önnur hlið hennar er 45 snúninga en hin 33 snúninga.

Þeysarar fóru í sína hverja áttina, Þorsteinn gítarleikari birtist næst í Frökkum, Guðlaugur og Sigtryggur áttu eftir að koma við sögu Kuklsins og sá síðarnefndi síðar með Sykurmolunum, Magnús gekk í sveitina Með nöktum og Hilmar Örn fór um haustið 1983 til Þorlákshafnar og gerðist þar organisti en hann var einnig lengi starfandi í Skálholti sem slíkur og hefur lítið verið viðloðandi rokkið síðan.

Síðar þetta ár, 1983 spurðist út að sveitin myndi senda frá sér snældu með safni laga sem ekki hefðu komið út áður, s.s. þremur lögum undir nafninu Iceland (með Jaz Coleman og Geordie Walker), tveimur lögum sem Sigtryggur trommuleikari syngur (hann átti síðar meir eftir að koma fram sem raularinn Bogomil Font), auk meira efnis, alls um sextíu mínútur að lengd. Snældan átti að koma út í tvö hundruð eintökum og var öðrum þræði hugsuð til að koma út óútgefnu efni og til að grynnka á skuldum sveitarinnar. Engar upplýsingar finnast hins vegar um þessa útgáfu, og allt eins líklegt að hún hafi aldrei komið út.

Þeyr á upphafsárunum

Þótt Þeyr væri hætt störfum var hún síður en svo gleymd og efni með sveitinni poppaði reglulega upp, m.a. þegar Rokk í Reykjavík var gefin út á DVD og CD, og á ýmsum safnplötum, þeirra á meðal má nefna Geyser: anthology of the Icelandic independent music scene of the eighties (1987), 100 bestu lög lýðveldisins (2008), (Hrátt) Pönksafn [snælda] (2016), Stuð stuð stuð (2011), Icelandic rock classics (2015), New Icelandic music [snælda] (1987) og Nælur (1998).

Margir biðu eftir safnplötu með lögum Þeys en úr því varð ekki fyrr en 2001 af þeirri einföldu ástæðu að frumupptökurnar höfðu glatast og komu ekki fram fyrr en þá. Til stóð að þriggja platna pakki yrði gefinn út í þeirri endurútgáfu, sem m.a. hefði að geyma Iceland upptökurnar, en svo fór að einungis ein plata leit dagsins ljós, Mjötviður til fóta. Hún hafði að geyma lögin af plötunum Iður til fóta og Mjötviður mær. Það var í fyrsta skipti sem plata með sveitinni var gefin út á geislaplötuformi. Deildar meiningar voru um útgáfuna og voru margir ósáttir við að platan væri svo rýr að efni og hefði einungis að geyma innan við fjörutíu mínútur af tónlist sveitarinnar. Hinar plöturnar væntanlegu hafa aldrei komið út en 2014 sendi sveitin frá sér endurhljóðblandaða útgáfu af laginu Blood (af The fourth Reich) á rafrænu formi á netinu.

Nokkrir hafa orðið til að heiðra minningu Þeysara með einum eða öðrum hætti, Maus gaf á sínum tíma út lagið Bás 12 (af Iður til fóta), Rekkverk endurgerði Killer boogie og Reykjavík! var með beina skírskotun í sama lag í lagi sínu Ted Danson.

Þeyr á tónleikum

Þeyr náði að verða nokkuð þekkt innan ákveðins hóps nýbylgjurokks um allan heim og sagan segir að enn séu starfandi aðdáendaklúbbar í Japan og á Ítalíu, ennfremur að í bígerð sé heimildamynd um sveitina.

Sveitin hefur komið saman í örfá skipti síðan 1983, m.a. árið 2006 með Megasi þar sem þeir fluttu Passíusálmana. Til stóð að þeir myndu koma saman árið 2010 þegar hátíð var haldin í Norræna húsinu í tilefni af 100 ára afmæli hljómplötunnar á Íslandi en sveitin hafði einmitt leikið þar til að kynna fyrstu plötu sína þrjátíu árum fyrr. Af þeirri endurkomu varð ekki en þrjú lög með sveitinni voru leikin af öðrum hljóðfæraleikurum.

Að lokum má geta þess að mannsanafnið Þeyr þekktist vart áður en sveitin starfaði, aðeins tveir höfðu borið nafnið fram til 1980 en þegar þetta er ritað hafa um fimmtíu manns borið nafnið, allir sem seinna nafn. Þeirra þekktastur er án efa rapparinn Gauti Þeyr Másson sem kallar sig iðulega Emmsjé Gauta. Hann sendi árið 2013 frá sér plötuna Þeyr.

Efni á plötum