Óperusmiðjan [félagsskapur] (1990-95)

Frá sýningu Óperusmiðjunnar 1990

Óperusmiðjan var félagsskapur söngmenntaðs fólks sem vildi koma sér á framfæri og skapa sér vettvang með sönguppákomum af ýmsu tagi.

Félagsskapurinn var stofnaður í ársbyrjun 1990 og var fyrsta verkefnið sett á svið um vorið í samstarfi við leikhópinn Frú Emilíu, Systir Angelica eftir Puccini, í húsnæði í Skeifunni í Reykjavík. Og þannig var starfsemin svolítið, misstór verkefni, stundum með hljómsveit og stundum ekki, stundum undir leikstjórn, stundum þematengdar söngdagskrár, brot úr óperum en einnig heilar óperusýningar. Einnig bauð Óperusmiðjan upp á styttri dagskrá fyrir árshátíðir, ráðstefnur og aðrar samkomur, til að fjármagna starfsemi sína.

Hæst reis sól Óperusmiðjunnar þegar hún í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur sýndi óperuna La Boheme í Borgarleikhúsinu við góða aðsókn og dóma vorið 1992 en alls komu um hundrað og fimmtíu manns að þeirri uppfærslu.

Óperusmiðjan samanstóð í byrjun mestmegnis af konum en síðar varð hópurinn blandaðri. Meðal söngvara Óperusmiðjunnar má nefna Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, Ingu Backman, Margréti J. Pálmadóttur, Þorgeir Andrésson, Sigurð Bragason, Jóhönnu Linnet og Eshter Helgu Guðmundsdóttur.

Óperusmiðjan starfaði fram á haustið 1995 en þá lagðist starfsemin endanlega niður.