Jazzklúbbur Akureyrar [2] [félagsskapur] (1983-)

engin mynd tiltækJazzklúbbur Akureyrar hinn síðari hefur staðið fyrir og lífgað upp á blómlegt djasslíf norðan heiða frá 1983.

Jazzklúbbur Akureyrar var stofnaður vorið 1983 í kjölfar mikillar djassvakningar á Akureyri en stofnfélagar voru fjölmargir. Klúbburinn stóð fyrir ýmsum djasstengdum uppákomum, s.s. námskeiðum og tónleikahaldi, stundum í samstarfi við aðra eins og Tónlistarskólann á Akureyri og Jazzvakningu í Reykjavík. Formaður klúbbsins í upphafi var Eiríkur Rósberg Árelíusson.

Starfsemi klúbbsins var nokkuð öflug í byrjun en eins og gengur og gerist dofnaði yfir henni og lifnaði á víxl. 1991 lagðist starfsemin þó alveg niður og leið nú og beið í nokkur ár þar til klúbburinn var rifinn upp á nýjan leik.

Einhvers konar undirbúningar var hafinn að endurreisn klúbbsins um haustið 1995 en formlega tók hann ekki almennilega til starfa aftur fyrr en tveimur árum síðar. Þá var félagsskapurinn í einhvers konar samstarfi við Múlann, hinn reykvíska djassklúbb sem þá var nýstofnaður, og í kjölfarið fór heldur betur að lifna yfir tónleikahaldi og öðrum uppákomum hjá Jazzklúbbi Akureyrar. Á þessum árum var Jón Rafnsson formaður klúbbsins og síðar Jón Hlöðver Áskelsson sem hefur gegnt embættinu um árabil síðan.

Þegar samstarf Jazzklúbbs Akureyrar við bæjaryfirvöld og fleiri aðila var tryggt var komið á fót ýmsum föstum djassuppákomum sem hafa verið fastur liður í menningarlífi Akureyringa síðan, má þar nefna Heita fimmtudaga, vikulega djasstónleikaseríu sem blásið er til á sumrin, þeir tónleikar hafa verið hluti af Listasumri á Akureyri og skipta þeir orðið hundruðum.

Fjölmargir djasstónlistarmenn, bæði íslenskir og erlendir, hafa þá heimsótt bæinn og spilað á þeim tónleikum og öðrum sem klúbburinn hefur staðið fyrir. Hæst ber að nefna heimsóknir Robin Nolan trio, Dirty dozen brass band og Eddie Harris saxófónleikara, og þannig mætti áfram lengi telja.

Jazzklúbbur Akureyrar er enn starfandi og í ágætum blóma þótt starfsemin sé eins og í öðrum félagsskap, misvirk. Enginn neitar því þó að klúbburinn hefur verið nauðsynleg lyftistöng fyrir menningarlíf bæjarfélagsins og aukið og viðhaldið djassáhuga meðal Akureyringa og nærsveitunga.