Túrbó (1985-94)

Upphaflega útgáfa Túrbós

Hljómsveitin Túrbó frá Borgarnesi starfaði í nokkur ár með hléum og náði að koma út einni snældu á starfstíð sinni.

Túrbó var iðulega kennd við Borgarnes enda var hún stofnuð þar í grunnskólanum haustið 1985. Í sveitinni voru upphaflega þeir Einar Þór Jóhannsson bassleikari, Ólafur Páll Pálsson gítarleikari og Sigurþór Kristjánsson trommuleikari. Fljótlega skiptu þeir Einar Þór og Ólafur Páll um hlutverk og hefur Einar Þór verið kunnur gítarleikari síðan, leikið með sveitum eins og Buff, Dúndurfréttum o.fl. Hann var ennfremur söngvari Túrbós en sveitin lék fremur þungt rokk. Ekki löngu eftir að sveitin var stofnuð bættist annar gítarleikari í sveitina, Þórður Magnússon, hann mun þó ekki hafa starfað samfleytt með sveitinni.

Meðlimir Túrbós voru ungir að árum og sveitin átti eftir að starfa í þrjú ár í Grunnskólanum í Borgarnesi áður en sveitin var skráð til leik í Músíktilraunir vorið 1988. Þar komust þeir félagar í úrslit og vöktu nógu mikla athygli til að þeir voru fengnir til að hita upp fyrir norsku þungarokkssveitina Artch sem hélt hér á landi tónleika um sumarið en sú sveit skartaði söngvaranum Eiríki Haukssyni.

Túrbó 1990

Túrbó mætti aftur til leiks í Músíktilraunum næsta vor (1989) en það var með skömmum fyrirvara og gekk sveitinni ekki eins vel í það skiptið, kom ekki í úrslit tilraunanna. Sveitin starfaði þá áfram um sumarið og spilaði þá m.a. á Rykkrokk hátíðinni.

Sveitin lagðist í dvala haustið 1990 og þeir félagar voru við það að hefja leik aftur þegar Ólafur Páll bassaleikari lést í hörmulegu bílslysi snemma vors 1991.

Túrbó birtist þó aftur á sjónarsviðinu síðar það ár en þá höfðu orðið nokkrar mannabreytingar á sveitinni, Einar Þór og Sigurþór voru þá þeir einu úr upprunalegu útgáfunni en bassaleikarinn Símon Ólafsson var kominn í stað Ólafs Páls, einnig voru þá mættir til leiks hljómborðsleikarinn Grétar Einarsson úr Hveragerði og söngvarinn Ólafur Ólason frá Selfossi. Við þessar breytingar var varla hægt að segja hana lengur frá Borgarnesi. Guðmundur Svanberg Sveinsson var trommuleikari um tíma í sveitinni en ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega.

Túrbó

Haustið 1991 sendi Túrbó frá sér tíu laga snælduna K.Ö.M.M. en hún er sjaldséður gripur og vakti fremur litla athygli á sínum tíma. Tónlistin hafði þarna þróast nokkuð frá eiginlegu þungarokki yfir í fönkað rokk með tilkomu nýju mannanna.

Sveitin starfaði áfram, með einhverjum hléum þó, þeir voru starfandi sumarið 1992 og komu þá m.a. fram á þjóðhátíð í Eyjum en voru hættir þegar lag með þeim kom út á safnplötunni Suðurlandsskjálftinn.

Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði poppara má nefna að Þórður Magnússon gítarleikari er sonur Magnúsar Þórs Jónssonar (Megasar), og Ólafur Ólason er elsti bróðir Árna (Áttavillt o.fl.) og Gunnars (Skítamórall o.fl.) Ólasona.

Túrbó lagði endanlega upp laupana endanlega síðsumars 1994.

Efni á plötum