Brim (1995-99)

Brim

Brimbrettarokksveitin Brim starfaði í nokkur ár undir lok síðustu aldar, sveitin var þó alltaf hálfgert hliðarverkefni meðlima hennar.

Sveitin var stofnuð í kennaraverkfalli snemma árs 1995 þegar Birgir Örn Thoroddsen gítarleikari (Curver Thoroddsen) hóaði í nokkra félaga sína sem einnig voru fórnarlömb verkfallsins en þeir voru þá á menntaskólaaldri. Hinir meðlimir sveitarinnar voru Ólafur Ragnar Helgason gítar- og hljómborðsleikari, Eggert Gíslason bassaleikari og Daníel Þorsteinsson trommuleikari, tveir hinna síðast töldu voru meðlimir hljómsveitarinnar Maus.

Tónlist þeirrar tegundar hafði ekki beinlínis verið móðins síðustu árin og segja má að hún hafi liðið undir lok fyrir 1970, kvikmyndin Pulp fiction (1994) hafði hins vegar vakið brimbrettarokkið frá dauðum og var hún sjálfsagt ein þeirra ástæða þess að Brim varð til.

Ekki liðu margir dagar frá því að sveitin hóf æfingar og þar til hún kom fyrst fram opinberlega, og það gerði hún nokkuð oft fyrsta árið sem hún starfaði. Þá um haustið 1995 átti sveitin tvö lög á safnplötunni Strump í fótinn.

Brim á sviði

Sumarið 1996 unnu meðlimir Brims að því að taka upp plötu og hún kom síðan út fyrir jólin á vegum Smekkleysu og bar titilinn Hafmeyjar & hanastél. Platan hafði að geyma lög úr ýmsum áttum og var helmingur þeirra frumsamið efni, þeir félagar fengu Hallbjörn Hjartarson til liðs við sig en hann léði sveitinni rödd í einu laganna. Eins kom Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) við sögu í laginu Vegir liggja til allra átta. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu en síðri í DV.

Eftir útgáfu Hafmeyja & hanastéla fylgdi sveitin plötunni nokkuð eftir með tónleikahaldi um tíma en síðan fjaraði undan henni smám saman og hún hætti loks störfum árið 1999 enda hafði sem fyrr segir sveitin aldrei verið hugsuð sem annað en hliðarverkefni.

Brim hefur stöku sinnum birst í seinni tíð og leikið þá við sérstök tilefni, t.d. árin 2005 og 2014 og er því tæknilega ekki alveg hætt fremur en aðrar sveitir sem leggjast í dvala.

Efni á plötum