Maunir (1990-96)

Maunir

Maunir

Reykvíska hljómsveitin Maunir er allsérstætt fyrirbæri í íslenskri tónlistarsögu, þó ekki nema væri fyrir það að hafa ein hljómsveita í Músíktilraunum afsalað sér rétti sínum til að keppa úrslitunum og látið hann öðrum eftir. Sveitin skartaði ennfremur óhefðbundnum hjálpartækjum við list sína eins og gúrku og eggi en að auki brutu Maunaliðar gítar á sviðinu.

Sveitin, sem spilaði að eigin sögn kammerpönk með jive-ívafi, keppti í umræddum Músíktilraunum 1992 en hún var þá skipuð Arnari Eggert Thoroddsen söngvara og gítarleikara (síðar blaðamanni og tónlistarskríbent á Morgunblaðinu), Matthíasi Þórarinssyni gítarleikara, Valdimar Agnari Valdimarssyni bassaleikara og Daníel Þorsteinssyni trommuleikara (Maus, Sometime o.fl.).

Til stóð að Curver Thoroddsen, yngri bróðir Arnars, léki á bassa með sveitinni á Músíktilraunum vegna brotthvarfs Valdimars en á síðustu stundu ákvað sá síðarnefndi að ganga til liðs við sveitina á nýjan leik. Curver var þó myndaður af Morgunblaðinu sem sveitarmeðlimur fyrir keppni og skráður þar sem slíkur. Hann sinnti þó ýmsum verkefnum fyrir sveitina; róti, tækjaláni og kom fram sem gestur á lokatónleikum Mauna í MH 1996.

Fleiri komu við sögu sveitarinnar, m.a. Sigurjón Árni Guðmundsson (síðar gítarleikari í Ó. Jónsson og Grjóni).

Sveitin hafði verið stofnuð árið 1990 er meðlimir voru á síðasta ári í Árbæjarskóla. Það sama ár kom lagið Balagið út á safnsnældunni Strump.

Tvö önnur lög hafa verið gefin út með Maunum, á safnplötunni Pönkið er dautt (árið 2000) en sveitin var þá löngu hætt. Lögin koma úr sömu upptökulotu og Balagið en um var að ræða annað rennsli á því lagi, og svo útgáfa af lagi Megasar, Vögguljóð á tólftu hæð, sem upphaflega kom út á plötunni Á bleikum náttkjólum.