Brotnir bogar (1980-82)

Brotnir bogar frá Akranesi

Þjóðlaga- eða kammersveitin Brotnir bogar var starfrækt á Akranesi um og eftir 1980 og mun hafa verið stofnað fyrir tilstuðlan Wilmu Young sem þá kenndi tónlist við tónlistarskólann í bænum.

Brotnir bogar áttu eftir að koma margsinnis fram á næstu árum og misstór eftir því, stundum voru þau fimm en mest voru þau líklega átta talsins. Wilma Young fiðluleikari var sem fyrr segir einn meðlima og Andrea Gylfadóttir fiðluleikari (síðar þekktari sem söngkona) annar en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um aðra sem voru í sveitinni. Einnig er hugsanlegt að einhverjir meðlimir hennar hafi sungið en Brotnir bogar sérhæfðu sig í þjóðlögum frá Norðurlöndunum og Bretlandseyjum.

Brotnir bogar tóku þátt í hæfileikakeppni sem Dagblaðið og Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar stóðu fyrir í Súlnasal Hótel Sögu 1980 og hafnaði þar í öðru sæti. Þá kom hópurinn oft fram á Vísnakvöldum Vísnavina og reyndar kom út eitt lag með sveitinni á kassettunni Vísnakvöld 2: Lög með Vísnavinum, sem hafði að geyma efni frá slíkum kvöldum.

Hér er óskað eftir frekari upplýsingum um meðlimi Brotinna boga.