Bræðrabandið [1] (1979-)

Bræðrabandið

Hljómsveitin Bræðrabandið úr Hafnarfirði hefur starfað síðan fyrir 1980 með hléum en hún var framan af kántrýsveit.

Bræðrabandið var stofnað haustið 1979, nafn sveitarinnar kemur til af því að í henni eru tvennir bræður, Ingólfur Arnarson gítarleikari og Jón Kristófer Arnarson einnig gítarleikari, og Ævar Aðalsteinsson banjóleikari og Örvar Aðalsteinsson kontrabassaleikari. Allir munu þeir fjórmenningarnir syngja.

Sveitin var fyrsta veturinn fengin til að leika á þorrablótum í Hafnarfirði og fyrsta skeiðið var hún kántrý- eða bluegrass-sveit, bandið var m.a. fengið til að taka lagið í Háskólabíói þegar kvikmyndin Urban cowboy var frumsýnd haustið 1980. Bræðrabandið starfaði til ársins 1982 en þá fóru menn hverjir í sína áttina í bili.

Árið 1985 komu þeir félagar aftur saman og voru þá nokkuð viðloðandi félagsskapinn Vísnavini og léku stundum á svokölluðu Vísnakvöldum. Tónlist sveitarinnar mun þá hafa verið orðin þjóðlagaskotnari og árið 1986 átti hún tvö lög á plötu Vísnavina, Að vísu….

Ekki liggur fyrir hversu virk sveitin var næstu árin því fjölmargar aðrar hljómsveitir hafa borið þetta nafn í gegnum tíðina og því nokkuð erfitt að henda reiður á hvaða sveit á við í hvert skipti þegar unnið er og spunnið upp úr heimildum. Bræðrabandið virðist þó hafa verið starfandi 1991, 2008, 2011 og 2017, og hefur Guðmundur Pálsson leikið með þeim síðustu misserin.

Allar frekari upplýsingar um þessa sveit er óskað.