XD3 (1991-2003)

XD3 ásamt Ragnhildi Rós Indriðadóttur

Hljómsveitin XD3 var um tíma áberandi í tónlistarlífinun á Héraði en sveitin starfaði í á annan áratug.

Sveitin var stofnuð að öllum líkindum 1991 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Gunnlaugur Ólafsson gítarleikari, Jónas Þór Jóhannsson harmoniikkuleikari og Ragnar Þorsteinsson trommuleikari.

Segja má að XD3 hafi haldist fremur illa á gítarleikunum en tveimur árum eftir að sveitin var stofnuð (1993) hætti Gunnlaugur og tók Sigurður H. Sigurðsson við af honum en staldraði aðeins við í um eitt ár, þá kom Jón Kristófer Arnarson gítarleikari til sögunnar.

Árið 1996 annaðist XD3 undirleik í dægurlagakeppni Harmonikufélags Héraðsbúa og voru þau tólf lög sem kepptu til úrslita gefin út á plötunni Í skýjunum en upptökur fóru fram um vorið í Valaskjálf á Egilsstöðum. Harmonikkuleikarinn Tatu Kantomaa var sveitinni til fulltingis á plötunni.

Þetta sama ár kom enn einn gítarleikarinn til sögunnar í sveitinni en Bjarni Þór Sigurðsson tók þá við af Jóni Kristófer, þannig skipuð komu út þrjú lög með XD3 á safnplötunni Í laufskjóli greina sem gefin var út í tilefni af hálfrar aldar afmælis Egilsstaðabæjar.

Tvennum sögum fer af XD3 eftir 1997, hún var sögð hafa hætt það ár en heimildir finnast hins vegar um hana þótt í takmörkuðum mæli sé, frá árinu 1998, 2001 og 03. Ekki liggur þó fyrir hverjir skipuðu hana þá.

Efni á plötum